Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 437  —  183. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um skort á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggjast stjórnvöld bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til starfa á heilbrigðisstofnunum?

    Mikilvægt er að fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við umfang og eðli þjónustu og aðstæður hverju sinni. Þannig er mögulegt að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi þeirra sem hennar njóta. Flest bendir til þess að álag á heilbrigðisþjónustu muni aukast á næstu árum, m.a. vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar og aukinnar tíðni lífsstílstengdra sjúkdóma.
    Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar, Hjúkrunarfræðingar – Mönnun, menntun og starfsumhverfi, frá október 2017 og skýrsla Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga draga fram mörg atriði sem þarf að skoða nánar. Í skýrslunum kemur m.a. fram að miklu máli skipti að laun og kjör við heilbrigðisstofnanir séu samkeppnishæf við kjör sem bjóðast í öðrum atvinnugreinum, enda eru heilbrigðisstarfsmenn eftirsóttir í ýmiss konar störf utan heilbrigðisstofnana. Auk þess þarf að skoða kynjahlutföll heilbrigðisstarfsfólks og áhrif kynjahlutfalla á laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.
    Í skýrslunum koma fram tölur varðandi mönnun hjúkrunarfræðinga. Þar kemur m.a. fram að 225 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, eða um 290 hjúkrunarfræðinga, vanti nú til starfa til að manna fjármögnuð stöðugildi þeirra á heilbrigðisstofnunum. Meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum er 71% og hefur farið lækkandi en meðalstarfshlutfall sjúkraliða er 75%. Þær upplýsingar fengust jafnframt frá Sjúkraliðafélagi Íslands að um nokkurt skeið hafi sjúkraliðar ekki getað ráðið sig í fullt starf á heilbrigðisstofnunum þrátt fyrir að hafa óskað eftir því.
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í september 2016 niðurstöður könnunar á vinnutíma sjúkraliða. Könnunin var gerð hjá tíu heilbrigðisstofnunum, þar með töldum Landspítala. Á þessum tíu stofnunum voru 1.104 sjúkraliðar í 778 stöðugildum. Niðurstöður könnunarinnar sýna m.a. að sjö af hverjum tíu þessara stofnana telja að það þurfi að fjölga sjúkraliðum á þeirra stofnun. Þá telja átta stofnanir að það sé fyrirsjáanlegur skortur á sjúkraliðum á næstu fimm árum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að mótuð verði markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
    Ráðherra hyggst marka stefnu um mönnun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra heilbrigðisstarfsmanna innan heilbrigðisþjónustunnar og gera áætlun um það hvernig mannaflaþörfinni verði mætt. Mun sú stefna verða hluti af heilbrigðisstefnu velferðarráðuneytisins.
    Það er aðkallandi verkefni að leita leiða til að fjölga starfsfólki í fyrrgreindum starfsstéttum, auka starfshlutfall hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og snúa við atgervisflótta. Þeir þættir sem vert er að skoða sérstaklega eru starfsumhverfi, launastefna, vinnutími, leiðir til að gera vaktavinnu meira aðlaðandi, hugsanleg stytting vinnuskyldu og möguleikar til framgangs í starfi og starfsþróunar. Þá er mikilvægt að kanna hvort lækkandi starfshlutfall tengist auknu álagi og lakara starfsumhverfi. Afar mikilvægt er því að skoða launakjör og vinnuumhverfi þessara heilbrigðisstarfsmanna, m.a. út frá jafnréttissjónarmiðum.
    Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann skýrslu fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið árið 2006 um mannafla í heilbrigðiskerfinu og er stefnt að því að vinna aftur slíka skýrslu með reglubundnum hætti. Mikilvægt er að mönnun í heilbrigðisþjónustu sé skoðuð á þeim stöðum þar sem þjónustan er veitt til að tryggja gæði hennar og öryggi þeirra sem þjónustuna þiggja. Í samráði við embætti landlæknis er ætlunin að skoða mönnunarviðmið og hvort ástæða sé til að endurskoða þau eða leita nýrra leiða við gerð mönnunarviðmiða. Þá mun ráðherra leggja til að í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið verði skoðað hvaða leiðir séu færar til að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði og sjúkraliðanámi.
    Að lokum má nefna yfirlýsingu forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra í tengslum við kjarasamninga sautján aðildarfélaga BHM við ríkið frá 12. febrúar 2018. Þar kemur m.a. fram að ráðist verði í sérstakt átak við gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið til næstu 5–10 ára og að mótuð verði markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.