Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 451  —  102. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um rannsóknir á súrnun sjávar.


     1.      Hvernig telur ráðherra að standa beri að eflingu rannsókna á súrnun sjávar eins og kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar að gera skuli?
    Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna, hefur sinnt rannsóknum og vöktun á súrnun hafsins um langa hríð. Ráðherra telur eðlilegt að Hafrannsóknastofnun sem býr yfir mestri þekkingu á þessu sviði á Íslandi leiði þær rannsóknir áfram. Í þessu sambandi er mikilvægt að nefna að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur falið Veðurstofu Íslands að leiða vísindavinnu við að meta afleiðingar loftslagsbreytinga og skila skýrslu um það mál, þar með talið áhrifa á hafið kringum Ísland og getur samvinna þessara stofnana farið vel saman. Bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra telja æskilegt að bíða skýrslu Veðurstofunnar, sem vænta má á næstunni, og taka á þeim grunni ákvarðanir um næstu skref í rannsóknum á súrnun sjávar.

     2.      Hve mikið fé telur ráðherra að veita þurfi til rannsókna á súrnun sjávar á kjörtímabilinu til þess að markmið um eflingu þeirra náist og mun ráðherra leggja til í ríkisstjórn að þeirri upphæð verði varið í málaflokkinn?
    Þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra telja æskilegt að bíða niðurstöðu sérfræðinga um næstu skref í rannsóknum á súrnun sjávar hefur á þessum tíma aðeins verið lauslega áætlað hver þörfin er á auknu fé til hafrannsókna. Hafrannsóknastofnun telur að efling vöktunar á súrnun sjávar gæti kostað um 50 millj. kr. árlega og að efling rannsókna á áhrifum súrnunar á lífríki og vistkerfi gæti kostað aðrar 50 millj. kr. árlega. Ráðuneyti umhverfis og auðlinda hefur komið því mati á framfæri í tengslum við gerð fjármálaáætlunar 2019–2023, en niðurstöður um ráðstöfun fjármuna í tengslum við fjármálaáætlun liggja ekki fyrir.

     3.      Hvernig telur ráðherra að haga beri samstarfi við sjávarútveginn um rannsóknir á súrnun sjávar og hver ætti að leiða það samstarf?
    Ráðherra telur eðlilegt að Hafrannsóknastofnun leiði samstarf við sjávarútveginn um rannsóknir á súrnun sjávar. Hafrannsóknastofnun hefur langa reynslu af að vinna með sjávarútveginum að rannsóknum og nýtingu á lifandi auðlindum sjávar og ekki er gert er ráð fyrir öðru en að svo verði einnig hvað varðar þetta málefni.

     4.      Hvert telur ráðherra að hlutverk Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna, eigi að vera í rannsóknum á súrnun sjávar?
    Vísað er til þess sem að framan segir um að Hafrannsóknastofnun leiði rannsóknir á súrnun sjávar bæði í fræðasamfélaginu sem og í samstarfi við sjávarútveginn.