Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 452  —  56. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um afnám vasapeningakerfis á dvalar- og hjúkrunarheimilum.


     1.      Við hvaða hjúkrunarheimili var samið um að taka þátt í tilraunaverkefni sem miðaði að auknu sjálfræði aldraðra með afnámi svokallaðs vasapeningakerfis að tillögu starfshóps sem þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði í maí 2016 og hver voru verkefnin?
    Starfshópnum, sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í maí 2016, var falið að útfæra og koma á tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
    Haft var samband við forstjóra og framkvæmdastjóra allra dvalar- og hjúkrunarheimila á landinu í júlí 2016 og kannaður áhugi á þátttöku í tilraunaverkefni um breytt greiðslufyrirkomulag. Fundir voru haldnir haustið 2016 með forstöðumönnum þriggja hjúkrunarheimila sem lýst höfðu áhuga á þátttöku í verkefninu.

     2.      Við hvaða hjúkrunarheimili var samið um að taka þátt í tilraunaverkefni sem miðaði að auknu sjálfræði aldraðra með afnámi svokallaðs vasapeningakerfis að tillögu starfshóps sem þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði í maí 2016 og hver voru verkefnin?
    Útreikningar á mögulegum breytingum á greiðslukerfi íbúa sem flytjast á hjúkrunarheimili eru langt komnir í samvinnu Tryggingastofnunar ríkisins og ráðuneytisins. Starfshópurinn er enn að störfum og niðurstöður útreikninga virðast benda til þess að ekki verði nauðsynlegt að fara út í framkvæmd tilraunaverkefnis vegna breytinga á fyrirkomulagi greiðslukerfisins.
    
     3.      Hvenær stefnir ráðherra að því að innleiða að fullu breytt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum?
    Á grundvelli fyrrnefndra útreikninga hefur starfshópurinn rætt hugmyndir um virkjun nýs greiðslukerfis á einni ákveðinni dagsetningu hjá öllum dvalar- og hjúkrunarheimilum á landinu, hugsanlega með aðlögun sem stæði yfir í eitt ár.