Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 461  —  347. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um starfsemi og eftirlit Fiskistofu.

Frá Oddnýju G. Harðardóttur, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Loga Einarssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Smára McCarthy og Birni Leví Gunnarssyni.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum og hvort hún sinni lögbundnu hlutverki sínu.
    Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Mat á árangri af eftirlitshlutverki Fiskistofu þar sem skoðað verði sérstaklega:
              a.      Hvernig staðið hefur verið að eftirliti með vigtun á afla undanfarin 5 ár og rannsókn og eftirfylgni brotamála.
              b.      Hvernig staðið hefur verið að eftirliti með brottkasti afla undanfarin 5 ár og rannsókn og eftirfylgni brotamála.
     2.      Hvernig brugðist sé við upplýsingum um brot og hvort ákveðnum vinnureglum sé fylgt um rannsókn og eftirfylgni mála.
     3.      Hvernig fjárveitingar til stofnunarinnar hafi þróast undanfarin 10 ár og hver hafi verið fjöldi starfsmanna á sama tímabili greindur eftir starfsheitum.
     4.      Stuðningur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við starfsemi Fiskistofu og viðbrögð ráðuneytisins við athugasemdum um galla á lögum og reglugerðum sem torveldað gætu eftirlit Fiskistofu.
     5.      Hvaða áhrif brottkast og röng vigtun hafi á upplýsingar um hversu stór hluti auðlindarinnar er í raun nýttur.
     6.      Hvaða áhrif röng vigtun sjávarafla hafa á laun sjómanna og tekjur hafna.
     7.      Ábendingar Ríkisendurskoðunar um til hvaða aðgerða þurfi að grípa þannig að Fiskistofa megi sem best sinna hlutverki sínu með eftirliti sem stuðlar að sjálfbærum og ábyrgum fiskveiðum.
    Skýrslunni verði skilað til Alþingis fyrir 1. júní 2018.

Greinargerð.

    Nýverið komu fram í fjölmiðlum, nánar tiltekið í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV hinn 21. nóvember 2017, ábendingar um að Fiskistofu tækist ekki að uppfylla skyldur sínar lögum samkvæmt, en stofnunin sinnir m.a. eftirliti með fiskveiðum. Fullyrt hefur verið að fyrir liggi vísbendingar um brot a.m.k. gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, sem feli í sér annars vegar brottkast afla og hins vegar ranga vigtun afla. Einnig kom fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem fer með málefni sjávarútvegs, ætti að vera kunnugt um framangreint.
    Flutningsmenn telja brýnt að gerð verði úttekt á málinu enda verður að telja brot á þessu sviði mjög alvarleg. Ekki verður við það unað að til séu hvatar í kerfinu til að fara fram hjá reglum, sérstaklega ekki fyrir fiskveiðiþjóð sem stærir sig af ábyrgum og sjálfbærum veiðum.