Ferill 124. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 466  —  124. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy og Birni Leví Gunnarssyni um hávaðamengun í hafi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa farið fram mælingar á hávaðamengun í hafinu umhverfis Ísland, bæði á úthafi og í fjörðum og flóum, með hliðsjón af áhrifum hávaðans á vistkerfið, eins og t.d. var lagt til í grein Guðna Þorsteinssonar í tímaritinu Ægi árið 1967?

    Veturinn 1986 var gerð tilraun til þess að meta flóttaviðbrögð síldar frá aðvífandi skipi. Þetta var gert inni á Reyðarfirði á þann hátt að lagt var út kyrrstæðum dýptarmæli þar sem síldin hélt sig og fylgst með viðbrögðum hennar er rannsóknarskipið Árni Friðriksson sigldi hjá. Einnig var athugað sérstaklega hvort vinnuljós á dekki hefðu áhrif. Skemmst er frá því að segja að ef skipið sigldi hjá með siglingarljós eingöngu var ekki hægt að merkja nein viðbrögð síldarinnar. Hins vegar höfðu vinnuljós á dekki afgerandi áhrif. Í því tilfelli stakk síldin sér og flykktist frá þegar skipið nálgaðist. Hér var það því ekki hávaðinn frá skipinu sem skipti meginmáli.
    Mældur var hávaði í sjó frá skipum Hafrannsóknastofnunar á árunum 1994 til 2004 með sérstöku tilliti til þess hvort hávaði skipanna gæti haft áhrif á t.d. bergmálsmælingar á síld og loðnu. Þessar mælingar voru gerðar á Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni. Einnig voru gerðar svipaðar mælingar á togurunum Páli Pálssyni og Jóni Vídalín. Til frekari skýringar á ástæðu þessara mælinga er bent á skýrslu sem vinnuhópur á vegum ICES ( Working Group on Fisheries Acoustics, Science and TechnologyWGFAST) vann og var birt árið 1995: Underwater Noise of Research Vessels – ICES Cooperative Research Report No. 209. Þar voru settar fram tillögur um hávaðamörk rannsóknarskipa. Þessar hávaðamælingar voru gerðar til þess að athuga hvort rannsóknarskipin stæðust tilteknar kröfur. Bæði íslensku rannsóknarskipin á þeim tíma stóðust þessar kröfur en Árni Friðriksson þó síður. Rannsóknarskipin mældust töluvert lágværari en fiskiskipin (heimild: Páll Reynisson).
    Einnig er vitað að mælingar fóru fram á vegum Merlin Entertainment Group sumarið 2017 á hugsanlegum áhrifum skipaumferðar við Vestmannaeyjahöfn á mjaldra sem fyrirhugað er að hafa til sýnis í Klettsvík (heimild: Gísli Víkingsson).
    Ekki er vitað um aðrar mælingar á hávaðamengun í hafinu umhverfis Ísland.