Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 503  —  254. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Þórarni Inga Péturssyni um hlutfall íslenskra matvæla í innkaupum ráðuneyta.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvert var hlutfall íslenskra matvæla í innkaupum ráðuneytisins árið 2017?

    Ekki eru fyrirliggjandi í forsætisráðuneytinu upplýsingar um upprunaland matvæla sem keypt voru inn á því tímabili sem spurt er um.
    Fyrirspurnin gefur tilefni til að vekja athygli á því að á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er nú rekið verkefnið Matarauður Íslands. Hlutverk þess er annars vegar að draga fram sérstöðu íslensks hráefnis og matarmenningar til að auka hlutdeild hennar í heildarímynd Íslands og auka með því þekkingu á íslenskum matvörum og afurðum og ásókn í þær og hins vegar að styrkja matartengd verkefni sem efla heildarhagsmuni byggða og verðmætasköpun í sátt við sjálfbæra þróun.
    Opinber innkaup ríkisins eru umtalsverður hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þeim er hagað. Með hlutdeild sinni á matvælamarkaði getur ríkið haft áhrif á þróun á markaði og verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Metnaður hins opinbera á að felast í því að gefa börnum, öldruðum og öðrum þeim er hið opinbera matreiðir fyrir, lystuga og heilnæma máltíð.
    Ný lög um opinber innkaup tóku gildi haustið 2016 en þau taka mið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um innkaup opinberra aðila á vörum, verkum og þjónustu. Í greinargerð við lögin kemur fram að í þeim sé lögð enn frekari áhersla á „vistvæn“ innkaup en var í eldri lögum. Birtist það fyrst og fremst í því að verð er ekki lengur meginforsenda við innkaup heldur er mögulegt að horfa í auknum mæli til gæða, umhverfisverndar, félagslegra markmiða og nýsköpunar. Um leið er áhersla lögð á vistferilskostnað þess sem keypt er.
    Samkvæmt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn, stendur til að skipa starfshóp er hafi það verkefni að móta tillögur að hvötum, fræðslu og innkaupastefnu opinberra stofnana á sviði matvæla. Markmiðið er að innkaup miðist við að velja innlend matvæli nema í þeim tilvikum þar sem engin innlend framleiðsla er fáanleg. Þá skal velja matvæli framleidd í nærumhverfi til að styrkja atvinnustarfsemi þar og minnka sótspor dreifileiða. Tillögurnar þurfa enn fremur að tryggja að neytendur hafi aðgang að upplýsingum um uppruna matarins og að hann uppfylli lýðheilsumarkmið um næringu. Verkefnið verður unnið á vettvangi Matarauðs Íslands í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, velferðarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra eftir því sem ákveðið verður. Stefnt er að því að tillögur að innkaupastefnu liggi fyrir í lok ársins.
    Verkefnið fellur vel að aðgerðaáætlun ríkisstjórnar um sjálfbæra matvælaframleiðslu, gæði matvæla, forvarnir og lýðheilsu og rétt neytenda til upplýsinga um uppruna matvæla. Verkefnið ætti enn fremur að falla vel að verkefnum í þágu loftslagsmarkmiða þar sem styttri dreifileiðir stuðla að minnasótspori.