Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 518  —  161. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Sævari Sævarssyni um aðgengi fatlaðs fólks að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu.


     1.      Hefur ráðherra sett af stað vinnu í samræmi við markmið um að geðsvið sjúkrahúsa veiti sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga með flókna og samsetta greiningu (C.4.) sem var samþykkt með þingsályktun nr. 16/146 um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021?
    Í þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er eftirfarandi grein:
    „ C.4. Geðsvið sjúkrahúsa veiti sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga með flókna og samsetta greiningu.
     Markmið: Að fatlað fólk hafi aðgang að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu.
     Lýsing: Stofnaður verði starfshópur til að skoða hvernig eigi að byggja upp sérhæfða þekkingu innan geðsviðs Landspítalans og geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri til að unnt verði að veita einstaklingum með þroskahömlun og/eða einhverfu geðheilbrigðisþjónustu. Eitt af verkefnum hópsins verði að skoða og leggja mat á þörf fyrir sérhæfðar deildir sem geti sinnt einstaklingum með þroskahömlun og geðræna erfiðleika, einhverfum einstaklingum með þroskahömlun og einstaklingum með framheilaskaða. Tillögur innihaldi kostnaðarmat við að hrinda verkefninu í framkvæmd.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sveitarfélög, heilsugæslan og samtök fatlaðs fólks.
     Tímabil: 2017–2018.
     Kostnaður: Tillögugerð innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Tillögur liggi fyrir.“
    Úrvinnsla þessarar aðgerðar er nú langt komin.
    Á undanförnu ári hefur verið í undirbúningi stofnun sérhæfðs teymis á höfuðborgarsvæðinu til að styðja við meðferð fatlaðs fólks, með aðkomu fimm stofnana: geðsviðs Landspítala, barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, velferðarsviðs Reykjavíkur, Greiningarstöðvar ríkisins og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Geðsvið Landspítalans undirbýr nú ráðningu og þjálfun fagfólks til að starfa í teyminu en framan af var skortur á fjármagni og sérþekkingu en hvort tveggja horfir nú til betri vegar. Það er markmiðið með stofnun teymisins að bæta þjónustu við fatlað fólk, bæði á Landspítalanum og í nærumhverfi og mun það styrkja heildstæða nálgun í þjónustunni.
    Á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri er ekki sérstakt teymi sem sinnir fötluðu fólki með geðraskanir en hins vegar er þeim hópi sinnt þar eins og öðrum. Sjúkrahúsið hefur ekki í starfi sérfræðinga með sérþekkingu á sviði fötlunar og því er ekki alltaf hægt að tryggja aðgang að allri ákjósanlegri sérfræðikunnáttu. Ráðherra hyggst kanna hvort stefna beri að því að koma á fót teymi á Akureyri sem er sambærilegt við það sem nú er verið að koma á fót á höfuðborgarsvæðinu.
    Á Íslandi er ekki til sérhæfð deild fyrir fólk með þroskahömlun eða einhverfu eins og þekkist í löndunum í kringum okkur en talið er að sérhæfð deild fyrir þennan hóp myndi bæta þjónustuna við hann verulega. Miðað væri við að á deildinni yrði hægt að sinna sjúklingum sem þurfa bráðainnlögn og einnig þeim sem þurfa langtímainnlögn í 3–6 mánuði. Þessi sjúklingahópur þarf jafnan meðferð sem erfitt er að veita á hefðbundnum geðdeildum. Gerð hefur verið áætlun um kostnað við stofnun og rekstur slíkrar deildar á Landspítalanum.

     2.      Hyggst ráðherra leggja fram aðgerðaáætlun varðandi framkvæmd markmiða sem koma fram í þingsályktuninni og heyra undir heilbrigðisráðherra?
    Ráðherra mun fylgja eftir þeim aðgerðum sem settar hafa verið fram í þingsályktuninni og eru aðgerðir þegar hafnar eins og tilgreint er hér að framan.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir því á komandi kjörtímabili að fötluðu fólki með geðraskanir sé tryggð sértæk aðstoð á geðsviði Landspítalans?
    Eins og fram kemur í svari við fyrsta tölulið fyrirspurnar þessarar er verið að koma á fót sérhæfðu teymi sem mun án nokkurs vafa bæta þjónustu við fatlað fólk sem einnig glímir við geðraskanir, jafnframt því að kannað hefur verið hvað þarf til að setja á fót sérhæfða deild fyrir þennan hóp.
    Ráðherra mun beita sér fyrir því að fatlað fólk eigi kost á fullnægjandi þjónustu á geðsviði Landspítalans eins og aðrir landsmenn.

     4.      Telur ráðherra að viðmið sem tilgreind eru í 25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og varða aðgang fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra séu uppfyllt hér á landi? Ef ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að svo verði?
    Ráðherra telur að þau viðmið sem tilgreind eru í 25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og aðgang þess að heilbrigðisþjónustu séu uppfyllt og að fötluðu fólki sé ekki mismunað í þjónustu vegna fötlunar sinnar.
    Það er þó mat ráðherrans að gera megi betur á ýmsum sviðum. Eins og fram kom hér að framan má auka sérþekkingu á þessu sviði, heilbrigðisþjónustan getur aukið frumkvæði í þjónustu við þennan viðkvæma hóp eins og lagt er til í aðgerð C.2. í fyrrgreindri framkvæmdaáætlun. Þá er ástæða til að nefna mikilvægi þess að mismunandi þjónustuþættir og þjónustustig vinni vel saman, ekki síst þjónusta á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála. Heilbrigðisráðherra hyggst vinna áfram að framþróun á sviði þjónustu við þennan viðkvæma hóp og í heilbrigðisþjónustunni.