Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 520  —  209. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um túlkun siðareglna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft hefur forsætisráðherra eða ráðuneyti hans gefið öðrum ráðherrum ráðleggingar um túlkun siðareglna ráðherra, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands? Svar óskast um árlegan fjölda tilvika frá 2013 og til dagsins í dag.
     2.      Hversu oft hafa ráðherrar leitað til forsætisráðuneytisins með slíkar beiðnir? Svar óskast um árlegan fjölda tilvika frá 2013 og til dagsins í dag.
     3.      Hefur forsætisráðherra eða ráðuneyti hans einhvern tíma ráðlagt öðrum ráðherrum um hvernig framfylgja skuli siðareglunum án þess að ráðherrar hafi leitað til forsætisráðherra eða ráðuneytis hans að fyrra bragði? Svar óskast um árlegan fjölda tilvika frá 2013 og til dagsins í dag.


    Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 gefur forsætisráðuneytið stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað. Samkvæmt siðareglum ráðherra getur ráðherra í vafatilvikum leitað ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu. Ekki er því gert ráð fyrir að forsætisráðuneytið gefi öðrum stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna án þess að eftir því sé leitað og hefur engin slík ráðgjöf verið veitt umfram hefðbundna fræðslu um reglurnar, til að mynda á námskeiðum Stjórnarráðsskólans fyrir nýja starfsmenn Stjórnarráðsins.
    Í málaskrá forsætisráðuneytis fundust alls sex tilvik á tímabilinu sem spurt er um þar sem annar ráðherra leitaði til ráðuneytisins vegna siðareglna. Tilvikin skiptast í þrjá meginflokka; í fyrsta lagi ráðgjöf vegna fyrirhugaðrar boðsferðar, sbr. e-lið 3. gr. núgildandi siðareglna ráðherra, nr. 1250/2017 (tvö tilvik), í öðru lagi óskir um samþykki fyrir því að ráðherra sinni öðrum verkefnum, sbr. b-lið 3. gr. núgildandi siðareglna ráðherra (þrjú tilvik), og í þriðja lagi önnur ráðgjöf (eitt tilvik).
    Í öllum tilvikum var ráðgjöf veitt eða tekin afstaða til þess hvort veita skuli samþykki skv. b-lið 3. gr. núgildandi siðareglna ráðherra. Tilvikin skiptast á milli ára með eftirfarandi hætti:
2013 Ekkert tilvik.
2014 Eitt tilvik.
2015 Eitt tilvik.
2016 Ekkert tilvik.
2017 Fjögur tilvik.
2018 Ekkert tilvik.