Ferill 141. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 526  —  141. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um fíkniefnalagabrot á sakaskrá.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra hafið undirbúning að reglubreytingu á þá leið að smávægileg fíkniefnalagabrot fari ekki á sakaskrá, sbr. tillögur í skýrslu starfshóps frá árinu 2016 um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu?

    Samkvæmt 242. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, skal ríkissaksóknari halda sakaskrá fyrir allt landið þar sem skráð eru úrslit sakamála. Þá skal ríkissaksóknari jafnframt setja nánari reglur um gerð og varðveislu sakaskrár, þar á meðal hvað skuli skráð í henni um mál sem lýkur án saksóknar, svo og um sakavottorð. Það er því ríkissaksóknara en ekki dómsmálaráðherra að meta hvort breytinga á reglunum sé þörf, og ef svo er að hafa frumkvæði að breytingum.
    Í kjölfar fyrirspurnarinnar var haft samband við ríkissaksóknara til að kanna hvort heilbrigðisráðuneytið hefði kynnt embættinu efni skýrslu heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu frá árinu 2016, en svo reyndist ekki vera. Dómsmálaráðuneytið hefur því nú framsent skýrsluna til embættis ríkissaksóknara sem tekur til sjálfstæðrar athugunar hvort breyta skuli reglunum á þá leið sem lagt er til í umræddri skýrslu.