Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 527  —  166. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um dómþing.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér gegn tillögum dómstólasýslunnar um fækkun reglulegra dómþinga í einmenningsdómstólum landsins í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands um að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt?

    Dómsmálaráðherra hefur enga aðkomu að ákvörðun dómstólasýslunnar, nýrrar sjálfstæðrar stjórnsýslustofnunar, um fjölda reglulegra dómþinga hjá dómstólum landsins. Dómstólasýslunni er með lögum falið þetta hlutverk.
    Á grundvelli 37. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, skulu haldin regluleg dómþing við héraðsdómstólana á föstum þingstöðum samkvæmt því sem dómstólasýslan ákveður að fengnum tillögum dómstjóra. Með auglýsingu dómstólasýslunnar um regluleg dómþing á föstum þingstöðum frá 11. desember 2017, er tók gildi hinn 1. janúar 2018, var gerð sú breyting á eldri reglum dómstólaráðs um sama efni frá 6. júní 2013, að reglulegum dómþingum einmenningsdómstóla var fækkað niður í eitt í mánuði en höfðu áður verið tvö. Í þessu svari er gengið út frá því að fyrirspurnin beinist að framangreindum breytingum.
    Ráðuneytið leitaði upplýsinga frá dómstólasýslunni um undirbúning framangreindrar breytingar við undirbúning svarsins.
    Við undirbúning ákvörðunar dómstólasýslunnar um skipulag og fyrirkomulag reglulegra dómþinga á grundvelli framangreinds lagaákvæðis var tillaga um fækkun reglulegra dómþinga hjá einmenningsdómstólunum send dómstjórum til athugunar ásamt því að leitað var umsagnar Lögmannafélags Íslands.
    Athugasemdir sem bárust lutu fyrst og fremst að því að ekki væri fyrirséð hagræði að fækkun dómþinga og að málsmeðferðartími kynni að lengjast. Það er hins vegar mat dómstólasýslunnar að mjög mikilvægt sé að huga að skilvirkni í rekstri héraðsdómstólanna þannig að mögulegt sé fyrir dómstjóra einmenningsdómstólanna að sinna störfum við aðra dómstóla, gefist svigrúm til þess. Málatölur yfir þingfest einkamál einmenningsdómstólanna á reglulegum dómþingum gefa til kynna að slíkt svigrúm sé fyrir hendi.
    Í þessu ljósi leit dómstólasýslan svo á að fækkun reglulegra dómþinga við einmenningsdómstólana yki á hagræði og skilvirkni við rekstur dómstólanna án þess að þjónustan væri skert svo að einhverju næmi.