Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 532  —  301. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ráðningar ráðherrabílstjóra.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu ráðherrabílstjóra á tímabilinu 2009 til dagsins í dag og hversu margir umsækjendur af hvoru kyni voru um hverja stöðu?
     2.      Hvernig var hæfi umsækjenda metið og hver tók ákvörðun um ráðningu? Var tekið tillit til 26. gr. jafnréttislaga við ráðningar og til reglunnar um að ef starfsumsækjendur af gagnstæðum kynjum teljast jafnhæfir og það hallar á annað kynið á tilteknu starfssviði, þá beri að veita umsækjanda af því kyni starfið?


    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra svara sameiginlega fyrirspurn þingmannsins þar sem svörin eiga við um starfstíma innanríkisráðuneytisins.
    Innanríkisráðuneytið auglýsti í tvígang eftir ráðherrabílstjóra á tímabilinu. Annars vegar árið 2014 og hins vegar árið 2017. Í fyrra tilfellinu voru 9 umsækjendur um stöðuna og í hinu síðara voru umsækjendur 13. Einungis karlmenn sóttu um störfin.
    Þegar staða ráðherrabílstjóra var auglýst árið 2014 var í undirbúningi að færa rekstur allra ráðherrabíla og mönnun þeirra yfir til embættis ríkislögreglustjóra m.a. vegna öryggissjónarmiða og til að auka samlegð í rekstri. Staða ráðherrabílstjóra var því auglýst innan lögreglunnar.
    Árið 2017 var staða ráðherrabílstjóra auglýst meðal lögreglumanna, en horfið hafði verið frá því að færa rekstur og mönnun bílanna yfir til embættis ríkislögreglustjóra.
    Í báðum tilvikum var krafist prófs frá Lögregluskóla ríkisins eða reynslu sem mætti leggja að jöfnu við slíka menntun, bílprófs, góðrar akstursfærni og þekkingar á akstursleiðum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.
    Ráðningarferlið var hefðbundið þar sem umsóknir voru metnar í ráðuneytinu og voru valdir umsækjendur boðaðir í viðtal. Mannauðsstjóri ráðuneytisins og aðstoðarmenn ráðherra önnuðust viðtölin, en í þeim var m.a. stuðst við fyrir fram gerðan spurningalista. Ákvörðun um ráðningu var tekin af ráðuneytisstjóra en hún var byggð á faglegu mati á hæfi umsækjenda m.a. reynslu og frammistöðu í viðtölum. Við ráðningar ráðherrabílstjóra reyndi ekki á ákvæði jafnréttislaga þar sem eingöngu karlmenn sóttu um stöðurnar, en ráðuneytið gætir ávallt að jafnréttissjónarmiðum við ráðningar.