Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 547  —  203. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (sakarkostnaður).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um innheimtu og niðurfellingu sakarkostnaðar verði bætt við lög um meðferð sakamála að nýju en ákvæðið féll niður fyrir mistök við umfangsmiklar lagabreytingar. Jafnframt eru lagðar til samsvarandi lagfæringar á lagatilvísunum í sömu lögum og lögum um fullnustu refsinga.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að ákvæðið er til ívilnunar fyrir sakborning, þ.e. það felur í sér skyldu ríkissjóðs til að leggja út fyrir sakarkostnaði sem verði síðan innheimtur hjá hinum sakfellda og að fella niður sakarkostnað við ákveðnar aðstæður. Á fundum nefndarinnar kom fram að ákvæðið er í samræmi við reglur um réttláta málsmeðferð, þ.e. annars vegar að tryggja greiðslu málsvarnarlauna svo að ákærði geti fengið fullnægjandi málsvörn fyrir dómi og hins vegar að gera skylt að fella niður sakarkostnað í ákveðnum tilvikum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 248/2005. Í því máli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu með vísun til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu að skýra beri íslensk lög svo að þeim sem sakfelldur hefur verið í sakamáli og gert að greiða sakarkostnað verði að vera unnt að sanna vanhæfni sína til greiðslu málsvarnarlauna verjanda síns við innheimtu slíks kostnaðar.
    Nefndin tekur undir mikilvægi þess að ákvæðið verði fært inn í lög að nýju.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Andrés Ingi Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Páll Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 16. mars 2018.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson.
Guðmundur Andri Thorsson. Jón Steindór Valdimarsson. Olga Margrét Cilia.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.