Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 553  —  172. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Sævari Sævarssyni um öryggi sjúklinga á geðsviði Landspítalans.


     1.      Er ráðherra sammála því að taka þurfi á öllum áhættuþáttum til að draga úr sjálfsvígum geðfatlaðs fólks, m.a. með því að endurbæta húsnæði fyrir geðsvið Landspítalans til að uppfylla öryggiskröfur og vinna að því að mæta uppsafnaðri þörf fyrir húsnæði og þjónustu fyrir geðfatlað fólk, sbr. þingsályktun nr. 28/145, um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára?
    Afar mikilvægt er að draga úr sjálfsvígum hér á landi og taka á þekktum áhættuþáttum. Umhverfi er verulegur áhrifaþáttur í meðferð sjúklinga og aðbúnaður sjúklinga sem og umhverfi geðdeilda hefur áhrif á líðan sjúklinga, aðstandenda þeirra og starfsfólks. Hlýlegt og öruggt umhverfi sem býður upp á góða aðstöðu til næðis, hvíldar og virkni dregur úr áhættusamri hegðun og þvingandi meðferðum. Nauðsynlegt er að húsnæði geðsviðs Landspítalans uppfylli öryggiskröfur og síðustu 10–15 árin hefur markvisst verið unnið að aukinni sérhæfingu og endurbótum á umhverfi geðdeildanna til þess að uppfylla öryggiskröfur.
    Öryggisgeðdeild, sérhæfð deild þar sem fram fer meðferð og endurhæfing sjúklinga með alvarleg geðræn einkenni og sögu um ofbeldi, var opnuð árið 2005. Réttargeðdeildin að Sogni var flutt á Landspítalann árið 2012 í húsnæði sem var sérstaklega innréttað fyrir þá starfsemi. Við þá breytingu var stigið stórt skref í átt að auknu öryggi og sérhæfingu. Bráðageðdeild var opnuð árið 2013 eftir miklar endurbætur að fyrirmynd breskrar bráðageðdeildar. Sú deild er hönnuð með tilliti til þess að draga sem mest úr hættu á atvikum er tengjast sjálfsskaða, sjálfsvígshættu og ofbeldi. Allar þessar breytingar hafa verið mjög mikilvægar en á sama tíma hefur rúmum fækkað nokkuð. Á síðasta ári var lokið við endurnýjun á enn einni geðdeild á Landspítalanum.
    Í vetur hefur hópur fagfólks sem starfar á geðsviði Landspítala haft það verkefni að skilgreina lágmarksöryggi geðdeilda eftir áhættustigi hverrar deildar. Þá vinnur hópurinn jafnframt að því að útbúa matstæki til þess að greina öryggi í umhverfi innan deildanna og um leið þarfir fyrir endurbætur í umhverfinu til að auka öryggi. Stefnt er að því að matstækið verði tilbúið til notkunar í vor. Með notkun þess verður unnt að greina ástand umhverfis legudeilda geðsviðs með tilliti til sjálfsvígs- og ofbeldishættu.
    Samhliða þessu er í samvinnu við ýmsa aðila verið að vinna að því að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu.

     2.      Hvernig miðar vinnu við gerð áætlunar um innleiðingu gagnreyndra aðferða til að draga úr sjálfsvígum ungmenna, sbr. markmið B.4 í fyrrgreindri þingsályktun?
    Vinna starfshóps um sjálfsvígsforvarnir undir forystu embættis landlæknis er nú langt komin og munu tillögur að aðgerðum liggja fyrir á næstu vikum. Aðgerðirnar munu taka mið af því að áhættuþættir sjálfsvíga, sem og verndandi þættir, þróast oft yfir langt skeið í lífi einstaklinga og geta tengst ýmsum félags- og efnahagslegum þáttum. Aðgerðirnar eru byggðar á reynslu nágrannaþjóða Íslendinga af árangursríkum sjálfsvígsforvörnum.

     3.      Telur ráðherra að umhverfi á sjúkrahúsum sé áhrifa- og öryggisþáttur í meðferð sjúklinga með alvarleg geðræn einkenni?
    Umhverfi getur haft mikil áhrif á vellíðan og öryggi allra sjúklinga. Umhverfi sjúkrahúsa þarf að taka mið af þeirri þjónustu sem þar er veitt eins og greint er frá í svari við fyrsta tölulið fyrirspurnar þessarar.

     4.      Hyggst ráðherra í framhaldi af niðurstöðum stefnumótunarfundar geðsviðs Landspítalans í september sl. styrkja bráða- og móttökudeildir, gera húsnæði öruggt og fallegt og fjölga legurýmum?
    Ein af megináherslum ríkisstjórnarinnar er að efla geðheilbrigðisþjónustu og einn liður í því er að styrkja möguleika Landspítalans í að veita sem besta geðheilbrigðisþjónustu. Í desember árið 2017 var fjárveiting Landspítalans aukin um 180 millj. kr. til að efla geðheilbrigðisþjónustu á spítalanum. Þessu fé hefur m.a. verið varið til að styrkja starfsemi á móttökugeðdeildum og á sérhæfðri deild fyrir ungt fólk á aldrinum 18–30 ára með geðrofssjúkdóm á byrjunarstigi. Þá hafa fleiri læknar verið ráðnir til starfa, Batamiðstöðin, sem svo er kölluð, hefur verið efld, áhersla hefur verið lögð á að auka virkni á legudeildum og nýrri dagdeild hefur verið komið á fót.