Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 570  —  40. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur).

Frá 3. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Kosningarréttur er órjúfanlegur hluti af lýðræðinu og allar breytingar á kosningalögum verður að undirbúa af kostgæfni og með góðum fyrirvara. 3. minni hluti styður því ekki frumvarpið en fleira kemur til.
    Mörg rök hníga að því að lækka kosningaaldur í 16 ár, en það er í besta falli sérkennilegt að kosningaaldur sé misjafn eftir því um hvaða kosningar er að ræða. 3. minni hluti telur mikilvægt að kosningaaldur sé samræmdur þannig að sama regla gildi í öllum kosningum; til sveitarstjórna og Alþingis, í forsetakosningum og í almennum þjóðaratkvæðagreiðslum. Jafnframt er nauðsynlegt að lækka kjörgengisaldur til samræmis við kosningaaldur. Hið sama á við um sjálfræðisaldur, enda er forsenda þess að einstaklingur setjist á Alþingi eða í sveitarstjórn að hann sé sjálfráða. Raunar telur 3. minni hluti eðlilegt að öll borgaraleg réttindi, hverju nafni sem þau nefnast, miðist við kosningaaldur.
    Þriðji minni hluti beinir því til Alþingis að skipuð verði nefnd til að endurskoða lög um kosningar með það að markmiði að til verði ein heildstæð löggjöf um allar kosningar hér á landi. Í þeirri vinnu er skynsamlegt að tekið verði mið af því að kosningaaldur og kjörgengi verði 16 ár.

Alþingi, 20. mars 2018.

Óli Björn Kárason. Brynjar Níelsson.