Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 576  —  409. mál.
Flutningsmaður.
Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Pawel Bartoszek, Þorsteini Víglundssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Loga Einarssyni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Ólafi Ísleifssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að ráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis árin 2016 og 2017.
    Í skýrslunni verði m.a. fjallað um:
     1.      Hvort og þá hvernig unnt sé að greina aðkomu og hlutdeild hulduaðila í síðustu tvennum kosningum til Alþingis og hvort og þá hvernig komið verði í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar og áróður.
     2.      Hvort stjórnmálaflokkar, sem buðu fram í kosningum til Alþingis 2016, hafi gert grein fyrir framlögum til kosningabaráttu sinnar í formi auglýsingaherferða á vef- og samfélagsmiðlum sem kostaðar voru af þriðja aðila, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006.
     3.      Mat á verðmæti þeirra framlaga sem falla undir framangreinda skilgreiningu og ekki var gerð grein fyrir í ársreikningum stjórnmálaflokkanna.
    Að lokum er þess óskað að ráðherra taki afstöðu til þess hvernig komið verði í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar og áróður innlendra aðila og jafnframt hvernig bregðast megi við hættunni á inngripi erlendra aðila í kosningum á Íslandi.

Greinargerð.

    Markmið þessarar skýrslubeiðni er að styrkja lýðræðið á Íslandi með því að auka gegnsæi í kosningabaráttu og stuðla að því að öllum verði ljóst hverjir standi að baki kosningaáróðri, hverju nafni sem hann nefnist. Með hulduaðilum í skýrslubeiðninni er átt við aðila sem framleiða og dreifa auglýsingum í þágu eða gegn tilteknum stjórnmálaflokkum eða einstaklingum í skjóli nafnleyndar.
    Í alþingiskosningum árin 2016 og 2017 var nafnlaus áróður gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum áberandi á samfélagsmiðlum. Um var að ræða rætnar og andlýðræðislegar herferðir sem enginn vill gangast við. Á skömmum tíma höfðu tugþúsundir einstaklinga séð og dreift umræddum myndböndum og áróðri á samfélagsmiðlum (einkum á Facebook og YouTube) þar sem veist var að pólitískum andstæðingum í skjóli nafnleyndar og ráðist að þeim persónulega með ósannindum og skrumskælingum án þess að kjósendum væri ljóst hverjir stæðu á bak við áróðurinn. Þær síður sem mest voru áberandi voru annars vegar Facebook-síðurnar Kosningar 2016 og Kosningar 2017, sem beindu spjótum sínum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna, og hins vegar Facebook-síðan Kosningavaktin, sem beindi spjótum sínum að hægri væng stjórnmálanna.
    Í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í kjölfar alþingiskosninganna árið 2017 kom m.a. fram að umboð eftirlitsaðila til eftirlits með ólögmætum og nafnlausum kosningaáróðri á netmiðlum væri ófullnægjandi. Athugasemdir ÖSE eru alvarlegar og renna stoðum undir mikilvægi þessarar skýrslubeiðni.
    Í III. kafla laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, er fjallað um almenn framlög til stjórnmálastarfsemi. Í 2.–5. mgr. 6. gr. laganna er skýrt kveðið á um þær takmarkanir sem hvíla á stjórnmálasamtökum og frambjóðendum til að taka á móti framlögum til starfsemi sinnar eða til kosningabaráttu frá óþekktum aðilum. Í 2. mgr. segir: „Óheimilt er að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum. Berist stjórnmálasamtökum eða frambjóðanda framlag frá óþekktum gefanda skal skila framlaginu í ríkissjóð enda hafi ekki gefist tækifæri til að hafna móttöku þess.“ Leggja þarf mat á það hvort stjórnmálaflokkarnir sem hag höfðu af herferðunum teljist hafa hlotið framlag sem nemur kostnaði við framleiðslu og dreifingu þeirra og ef svo er, hvort gerð hafi verið grein fyrir þeim framlögum í ársreikningum stjórnmálaflokkanna. Þá þarf að komast að því hverjir stóðu að áróðrinum og kanna tengslin milli þeirra og stjórnmálaflokkanna sem buðu fram til Alþingis.
    Ekki er eingöngu þörf á að taka til athugunar kosningaáróður innlendra hulduaðila. Fréttir hafa verið áberandi víða um heim af áróðri hulduaðila og mögulegum tengslum þeirra við valdhafa utan þess ríkis sem áróðrinum er beint að. Full ástæða er til þess að samhliða mati á hlutdeild og aðkomu innlendra aðila að þingkosningum á Íslandi verði í skýrslunni lagt mat á hættuna sem lýðræðinu gæti stafað af slíkum herferðum erlendra aðila og tekin afstaða til fyrirbyggjandi aðgerða gegn þeim.
    Tjáningarfrelsið er nauðsynlegt allri lýðræðisumræðu og er því rétt að við gerð skýrslunnar verði tekin afstaða til þess hvernig umræddar auglýsingaherferðir rúmist innan þess réttar og þeirra takmarkana sem kveðið er á um í tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er mikilvægt að Alþingi sýni frumkvæði og stuðli að því að forsætisráðherra skoði þessi mál. Til þess verði m.a. fengnir sérfræðingar sem geti greint stöðuna og lagt fram tillögur sem styrkja opið og gegnsætt lýðræðissamfélag.