Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 577  —  410. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um hjólaleið milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.


Flm.: Pawel Bartoszek, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp um gerð fýsilegrar hjólaleiðar milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Starfshópurinn skili af sér áfangaskiptri og kostnaðargreindri tillögu að ákjósanlegri hjólaleið fyrir 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Tvö stærstu þéttbýlissvæði landsins, höfuðborgarsvæðið og Suðurnes, liggja í 50 kílómetra fjarlægð hvort frá öðru. Á milli þeirra eru engar náttúrulegar hindranir og leiðin liggur á láglendi. Því eru allar forsendur fyrir góðri hjólreiðatengingu milli svæðanna. Af henni hefur enn ekki orðið.
    Allt frá því að hafist var handa við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar snemma á öldinni hefur hjólatengingu á þessari leið verið ábótavant. Hámarkshraði á Reykjanesbrautinni er 90 km/klst. en ætla má að ferðahraði þorra ökumanna sé á köflum hærri. Hönnunarhraði brautarinnar er raunar 110 km/klst. og reglulega heyrast raddir um að hækka ætti hámarkshraðann í þá veru.
    Eigi þær hugmyndir að verða að veruleika er enn nauðsynlegra að tryggja ásættanlegan og öruggan leiðarvalkost fyrir hjólandi vegfarendur. Samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum um hönnun hjólaleiða getur vegöxl Reykjanesbrautar vart talist ásættanleg hjólaleið þegar tekið er mið af umferðarþunga og umferðarhraða á Reykjanesbrautinni, hvað þá ef umferðarhraðinn eykst enn frekar.
    Í lokaritgerð Eiríks Ástvalds Magnússonar, Hjólastígur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Reykjavíkur, eru skoðaðar nokkrar mögulegar leiðarútfærslur, þær greindar og sú fýsilegasta þeirra kostnaðargreind. Í henni er lagt til að farið verði eftir gamla Keflavíkurveginum og Vatnsleysustrandarvegi, malbik lagt á þá hluta leiðarinnar sem í dag eru malarvegir, nýir stígar lagðir á stöku stað þar sem það er nauðsynlegt vegna tenginga og leiðin merkt með vegvísum og vegmerkingum. Í þeirri útgáfu var áætlað að verkið myndi kosta rúmar 327 millj. kr. (miðað við verðlag árið 2014). Síðan þá hefur reyndar verið lokið við að leggja hjólastíg frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til miðbæjar Keflavíkur.