Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.
Þingskjal 611 — 429. mál.
Leiðrétt tala.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).
Frá
atvinnuveganefnd
.
1. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. a skal ráðherra til 31. ágúst 2018 takmarka strandveiðar við 12 veiðidaga fyrir hvert skip, innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Fiskistofa getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðibáta fari umfram það magn, sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð nr. 607/2017 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa sem VS-afla, og telst sá afli ekki til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a.
2. gr.
Greinargerð.
Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Veiðarnar hafa gengið vel og reynst heilladrjúg nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert. Í frumvarpi þessu er lagt til að útgerðum strandveiðibáta verði veitt heimild til að veiða í 12 daga í hverjum strandveiðimánuði.
Afli strandveiðibáta er í flestum tilfellum seldur á fiskmarkaði. Á síðari árum hefur afli og aflameðferð verið til mikillar fyrirmyndar sem marka má af því að afli strandveiðibáta hefur komið í veg fyrir skort á ferskum fiski til útflutnings á þeim tíma sem þær eru stundaðar og minna er um úthald stærri skipa og báta vegna sumarleyfa. Fiskur strandveiðibáta hefur reynst góður og hefur því reynst verðmæt útflutningsvara. Þá hafa strandveiðarnar falið í sér möguleika til fiskveiða í atvinnuskyni án þess að greiða þurfi aflahlutdeildarhöfum gjald fyrir veiðiheimildir. Þannig hafa strandveiðar verið mikilvægur þáttur í því að koma til móts við sjónarmið þeirra sem telja að þörf sé breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu í þá veru að tryggja almenningi ríkari hlutdeild í veiðum.
Breytingin sem hér er lögð til felur einnig í sér aðgerð til að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum. Sá ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til ætti að draga mjög úr hvata til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.
Gjald vegna strandveiða er hærra en aðrir útgerðarflokkar greiða. Veiðarnar eru skilgreindar sem sérveiðar og greiðir hver aðili því árlega fyrir veiðileyfi. Samhliða því gjaldi eru greiddar 50 þús. kr. sem úthlutað er til hafna landsins í réttu hlutfalli við landaðan afla.
Miðað við 15,7 tonna þorskafla, sem var meðalafli hvers báts á síðasta ári, eru þessi gjöld um fjórðungi hærri en hjá bátum með aflamark. Dæmið lítur þannig út:
15,7 tonn þorskur | Veiðileyfi | Veiðigjald | Sérstakt gjald | Samtals | Gjald/kg |
Strandveiðar | 22.000 kr. | 288.624 kr. | 50.000 kr. | 360.624 kr. | 23,01 kr. |
Aflamark | Eingreiðsla | 288.624 kr. | 0 kr. | 288.624 kr. | 18,42 kr. |
Auk fyrrnefndra gjalda bætast við fjölmörg önnur gjöld, t.d. veiðigjald, sambærileg við þau sem greidd eru vegna veiða annarra báta. Má þar nefna aflagjald, sölugjald fyrir afla, ísgjald, karaleigu, sorpgjald, löndunarkranagjald, umsýslugjald fiskmarkaða og skoðunargjöld báta, björgunarbáta og lyfjakistu svo dæmi séu tekin.
Markmið frumvarpsins er að bæta umhverfi strandveiða og hverfa frá innbyggðum þætti þess sem skapar aukna áhættu til veiða. Horfið verði frá því að loka svæðum í hverjum mán-uði þegar ætluðu veiðimagni er náð. Uppsafnaðri spennu eins og myndast í hverjum mánuði verði eytt. Sem dæmi má nefna að í ágúst 2016 var aðeins heimilt að stunda veiðar í örfáa daga á hverju veiðisvæði, sjá eftirfarandi mynd af veiðisvæðum:
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Frá árinu 2011 hefur þorskafli í strandveiðum ekki fylgt aukningu heildarafla. Alls vantar 9.247 tonn þar upp á, sjá eftirfarandi töflu:
2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | |
Þorskafli strandv. |
7.095 t | 7.420 t | 7.368 t | 7.749 t | 7.643 t | 8.555 t | 9.313 t |
Heildar-þorskafli | 169.600 t | 193.900 t | 221.800 t | 221.300 t | 229.900 t | 250.400 t | 252.800 t |
Hlutdeild | 4,18% | 3,83% | 3,32% | 3,50% | 3,32% | 3,43% | 3,68% |
Árlegur mismunur frá 2011 | 689 t | 1.907 t | 1.506 t | 1.970 t | 1.917 t | 1.258 t | |
Uppsafnað 2012–2017: 9.247 tonn
|
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Með frumvarpinu er lagt til að í stað þess fyrirkomulags sem verið hefur verði heimilt að stunda veiðar í 12 daga í hverjum mánuði. Áfram verði óheimilt að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga til róðra ásamt tilteknum „rauðum“ dögum eins og nú gildir um strandveiðar. Frumvarpið felur í sér breytingu hvað varðar val um daga og hvað varðar veiðar á ufsa.
Sú breyting sem felst í frumvarpinu á aðeins við um strandveiðitímabilið sem hefst 2. maí næstkomandi. Ekki þykir rétt að hafa 12 daga val ótímabundið þar sem óvissa er um hversu mikið strandveiðibátar veiða með þessu breytta fyrirkomulagi.
Með tilvísun í framangreint er breytingin sanngjörn, bæði hvað það varðar að strandveiðar hafa setið eftir í aflaaukningu frá árinu 2011 og tilkostnaði við veiðarnar. Þá er breytingunni einnig ætlað að gera veiðarnar eftirsóknarverðari og auka áhuga yngri kynslóðarinnar, karla og kvenna á að stunda sjómennsku með því að hefja útgerð.
Breytingin er sérstaklega valin nú með tilliti til þess að óveruleg hætta er á að nýtingarstefna í þorski, sem stjórnvöld hafa sett og framfylgt er með aflareglu, gangi ekki eftir.