Ferill 431. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 614  —  431. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um eignaraðild vogunarsjóða að bankakerfinu og eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins.

Frá Birgi Þórarinssyni.


          1.      Hvaða vogunarsjóðir eiga beint eða óbeint eignarhlut í íslenskum fjármálafyrirtækjum, hver er eignarhlutur þeirra beint eða óbeint í prósentum og að nafnvirði og í hvaða fjármálafyrirtækjum eiga þeir eignarhluti?
          2.      Hefur Fjármálaeftirlitið upplýsingar um hvaða aðilar standa raunverulega að baki vogunarsjóðunum, sbr. skilgreiningar á raunverulegum eiganda í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og ákvæði 5. tölul. 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki?
          3.      Telur ráðherra að upplýsingagjöf Arion banka sem er að finna á heimasíðu bankans sé í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði?
          4.      Hvaða upplýsingar liggja fyrir um eignarhald á Kaupþingi sem er 100% eigandi Kaupskila?
          5.      Telur ráðherra að vogunarsjóðir uppfylli kröfur sem lög um fjármálafyrirtæki gera til eigenda að virkum eignarhluta í fjármálafyrirtæki, svo sem um orðspor og gagnsæi?
          6.      Telur ráðherra að eignarhald vogunarsjóða á íslensku fjármálafyrirtæki í heild sinni torveldi eftirlit með fyrirtækinu? Svarið óskast rökstutt.
          7.      Hafa Fjármálaeftirlitið og/eða Samkeppniseftirlitið kannað hvernig samstarfi vogunarsjóða er háttað og hvernig því hefur verið háttað annars vegar á milli vogunarsjóðanna og hins vegar hvað varðar aðkeypta ráðgjöf, bæði innlenda og erlenda?
          8.      Hafa Fjármálaeftirlitið og/eða Samkeppniseftirlitið skoðað samstarf ráðgjafa Kaupþings og Glitnis og kröfuhafa þeirra á þeim tíma þegar Kaupþing og Glitnir fóru með eignarhald og/eða stýrðu Arion banka og Íslandsbanka?
          9.      Hver eru þau skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setti 8. janúar 2010 til að takmarka aðkomu Kaupþings að Arion banka og hvernig hefur Fjármálaeftirlitið tryggt að þeim skilyrðum hafi verið fylgt?
          10.      Lá samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir áður en Kaupþing nýtti sér kauprétt sinn eða áður en ríkið afhenti hlutabréfin?


Skriflegt svar óskast.