Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 617  —  115. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og
lögum um stofnun Landsnets hf. (ýmsar breytingar).


Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Erlu Sigríði Gestsdóttur, Hrein Hrafnkelsson og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Guðmund Inga Ásmundsson og Guðjón Axelsson frá Landsneti, Guðna A. Jóhannesson, Rakel Jensdóttur, Rán Jónsdóttur og Silju Rán Sigurðardóttur frá Orkustofnun, Pétur Blöndal og Ragnar Guðmundsson fyrir hönd Samáls, Ásgeir Margeirsson, Friðrik Friðriksson og Finn Beck frá HS Orku, Óla Grétar Blöndal Sveinsson frá Landsvirkjun og Elínu Smáradóttur og Jakob Friðriksson frá Orku náttúrunnar. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, HS Orku, Landsneti, Landsvirkjun, Orku náttúrunnar, Orkustofnun, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum iðnaðarins og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á raforkulögum og á lögum um stofnun Landsnets. Í 1. gr. er lögð til breyting á raforkulögum þess efnis að samþykkt svokallaðra netmála, þ.e. reglna Landsnets um kerfisstjórnun, færist frá ráðherra til Orkustofnunar. Einnig er skýrar kveðið á um gildissvið reglnanna svo að þær nái yfir almenna skilmála sem eru nauðsynlegir fyrir rekstur og stýringu flutningskerfisins. Í 2.–4. gr. er lagt til að vísað verði til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, til viðbótar við þá stefnu sem þegar er vísað til og er frá árinu 2015, þ.e. stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Þá er í 5. gr. lögð til sú uppfærsla að í stað þess að vísað sé til samkeppnisráðs í 27. gr. laganna verði vísað til Samkeppniseftirlitsins. Í 6. gr. er lagt til að orkumálastjóri skili skýrslu til ráðherra um framkvæmd raforkueftirlits til viðbótar við skýrslu með rekstrarupplýsingum vegna raforkueftirlits eins og gildandi lög mæla fyrir um. Þessi breyting er lögð til í kjölfar ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA.
    Sú breyting á lögum um stofnun Landsnets sem mælt er fyrir um í frumvarpinu felur í sér að 3. gr. þeirra falli brott en þar er kveðið á um að ráðherra fari með eignarhlut ríkisins í Landsneti og skipi stjórn þriggja manna án tilnefningar. Verði frumvarpið að lögum munu ákvæði laga um hlutafélög eiga við um skipun stjórnar Landsnets og er fyrirhugað að breyta samþykktum fyrirtækisins þannig að stjórnarmenn verði fimm.
    Við umræðu um málið í nefndinni var því hreyft að vert væri að endurskoða fleiri atriði í löggjöf sem varðar raforkumarkað, til að mynda ákvæði er varða tekjumörk flutningsfyrirtækisins, eignarhald Landsnets, samkeppni og upprunaábyrgðir.
    Í flutningskerfi raforku hvílir almennt sú skylda á viðskiptavinum að greiða fyrir uppbyggingu og rekstur flutningskerfisins á grundvelli gjaldskrár flutningsfyrirtækisins. Í 1. málsl. 10. mgr. 12. gr. a raforkulaga er ákvæði um svonefnt jákvætt kerfisframlag, þ.e. að ef tenging nýrrar virkjunar eða stórnotanda við flutningskerfi veldur auknum tilkostnaði annarra notenda þess skuli krefjast greiðslu. Markmiðið er að vernda viðskiptavini flutningskerfisins gegn hækkunum vegna tengingar óhagstæðra nýrra aðila þannig að sá sem veldur umframkostnaði verði að bera hann. Í 2. málsl. sömu greinar er mælt fyrir um svonefnt neikvætt kerfisframlag þar sem kveðið er á um að taka skuli tillit til þess ef tenging við flutningskerfið leiði til hagkvæmari uppbyggingar eða nýtingar þess. Samkvæmt þessu getur flutningsfyrirtækið þurft að greiða þeim aðila sem tengist flutningskerfinu á hagkvæmum stað. Nefndin telur að markmiðum um hagkvæmni í flutningskerfinu verði náð með ákvæði um jákvætt kerfisframlag og leggur til að 2. málsl. 10. mgr. 12. gr. a raforkulaga falli brott.
    Í mörgum umsögnum sem bárust nefndinni er komið inn á eignarhald Landsnets sem er í yfir 60% eigu Landsvirkjunar og annarra aðila á raforkumarkaði sem margir telja óheppilegt. Fyrir liggja úttektir og skýrslur um framangreint, m.a. skýrsla Ríkisendurskoðunar frá 2015, Landsnet hf. Hlutverk, eignarhald og áætlanir. Ríkisendurskoðun skilaði eftirfylgniskýrslu í febrúar sl. þar sem fram kom að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hefði verið tekið undir ábendingar um að tryggja þyrfti sjálfstæði Landsnets gagnvart aðilum á raforkumarkaði og ráðuneytið hefði til skoðunar að fyrirtækið yrði í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga en ekki orkufyrirtækja í þeirra eigu. Lengi hefur verið rætt um að leggja til breytingar á eignarhaldi Landsnets en það krefst nokkurs aðdraganda og undirbúnings og telur nefndin rétt að ráðist verði í þá vinnu eins fljótt og auðið er.
    Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    2. málsl. 10. mgr. 12. gr. a laganna fellur brott.

Alþingi, 22. mars 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Inga Sæland.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásmundur Friðriksson. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Sigurður Páll Jónsson. Álfheiður Eymarsdóttir.