Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 629  —  443. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um breytingu á þingsályktun nr. 23/145, um siðareglur fyrir alþingismenn.


Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Bryndís Haraldsdóttir, Þorsteinn Víglundsson, Inga Sæland.


    Alþingi ályktar, með vísan til 88. gr. þingskapa, að eftirfarandi breytingar verði gerðar á siðareglum fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun Alþingis 16. mars 2016, nr. 23/145:
     a.      Á eftir c-lið 1. mgr. 5. gr. siðareglnanna komi nýr stafliður, svohljóðandi: leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
     b.      Á eftir 7. gr. siðareglnanna komi ný grein, svohljóðandi:
                 Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.
    Við samþykkt ályktunarinnar skal fella breytingarnar inn í gildandi siðareglur fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun nr. 23/145, og birta þær svo breyttar á vef Alþingis. Taka breytingarnar gildi frá og með þeirri birtingu.

Greinargerð.

Tilefnið.
    Fljótlega eftir að Alþingi kom saman eftir alþingiskosningarnar í lok október sl. komu karlkynsþingmenn þeirri áskorun til forsætisnefndar Alþingis að haldin yrði ráðstefna í formi „rakarastofu“ sem gæfi körlum og konum á þingi tækifæri til að eiga opinskáar samræður í ljósi umræðna um kynferðisofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna.
    Að beiðni Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur alþingismanns setti forseti Alþingis á dagskrá þingfundar 19. desember 2017 sérstaka umræðu um „í skugga valdsins: metoo“. Til andsvara var dómsmálaráðherra. Þingmenn úr öllum þingflokkum og af báðum kynjum tóku þátt í umræðunum. Umræðan tók til samfélagsins alls og var ekki einskorðuð við stjórnmálin. Ræðumenn fordæmdu einróma ríkjandi ástand og áréttuðu mikilvægi þess að karlmenn hefðu frumkvæði að bættu hugarfari meðal karla og stuðluðu þannig að betra samfélagi. Var rík samstaða meðal ræðumanna um að hafna hvers konar ofríki og ofbeldi í garð kvenna.
    Rakarastofuráðstefnan fór fram 8. febrúar 2018 í samstarfi við UN Women á Íslandi og utanríkisráðuneytið. Í lok ráðstefnunnar lýsti forseti Alþingis yfir vilja þingsins til að vinna áfram að aðgerðum til úrbóta á þessu sviði og greindi frá því að starfshópur á vegum skrifstofu Alþingis hefði skilað forsætisnefnd skýrslu, 18. janúar 2018, með tillögum að breytingum á siðareglum fyrir alþingismenn svo að þar komi fram að óviðeigandi hegðun og framferði verði ekki liðið. Jafnframt að til standi að útbúa viðbragðsáætlun til að Alþingi geti tekið á málum sem komið geta upp. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er lögð fram byggist á tillögum starfshópsins (fylgiskjal I) og áliti siðanefndar forsætisnefndar Alþingis 19. mars 2018 (fylgiskjal II).

Tillagan.
    Alþingi er ekki hefðbundinn vinnustaður sem sætir stjórn tiltekins vinnuveitanda og vinnuverndarlöggjöf á því ekki við um Alþingi með sama hætti og um venjulega vinnustaði. Þau markmið sem búa að baki jafnréttis- og vinnuverndarlöggjöf, um að gera fólki kleift að sinna starfi sínu án þess að eiga á hættu að þurfa að þola kynferðislega áreitni og stuðla þannig að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi, eiga þó jafn vel við um alþingismenn, sem og starfsmenn og gesti þingsins, og aðra. Því er nauðsynlegt að skýrlega liggi fyrir hvernig eigi að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni á Alþingi ekki síður en á venjulegum vinnustöðum.
    Tilgangur siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi. Í þessu felst jafnframt að stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi þjóðkjörinna fulltrúa og um leið að þingmenn beri virðingu fyrir starfi sínu, samherjum sínum og mótherjum og öðrum, þ.m.t. þeim sem erindi eiga inn á starfsvettvang þeirra og gagnvart þeim sem þingmenn eiga samskipti við í störfum sínum utan þings. Það er því eðlilegt og réttmætt, í ljósi þeirra krafna sem fram hafa komið, að í siðareglum fyrir alþingismenn komi fram sú meginregla að þingmenn skuldbindi sig til þess að leggja sitt af mörkum til að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan, sem sé laust við kynbundna og kynferðislega áreitni, einelti og aðra ótilhlýðilega framkomu. Jafnframt að það sé skylda hvers og eins þingmanns að hafna slíku hátterni og að þingmenn skuli ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega áreitni eða ofbeldi af neinu tagi, eða aðra vanvirðandi framkomu.
    Við undirbúning tillögunnar leitaði forsætisnefnd álits siðanefndar samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn um breytingar á reglunum. Í áliti hennar er lögð áhersla á að ekki sé eðlilegt að binda tilgreinda háttsemi við húsakynni Alþingis heldur taki reglurnar til háttsemi hvar sem alþingismenn séu að störfum, m.a. á fundum utan Alþingis (jafnt á landsbyggð sem erlendis). Með hliðsjón af áliti nefndarinnar og framsetningu og skipulagi gildandi siðareglna er í lagt til að á eftir c-lið 1. mgr. 5. gr. siðareglnanna komi nýr stafliður um að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu. Jafnframt er lagt til að í þeim hluta siðareglnanna sem fjallar um hátternisskyldur komi ný grein um að þingmenn skuli ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt. Við mat á því hvort þingmaður hefði brotið slíka hátternisskyldu kæmu til sérstakrar athugunar þær meginreglur sem tilgreindar eru í 1. mgr. 5. gr. siðareglna fyrir alþingismenn, sbr. 6. gr. gildandi siðareglna.
    Markmið breytinganna er að það komi fram með skýrum hætti að gildandi siðareglum alþingismanna er ætlað að stuðlað að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi innan þings þar sem hvers konar áreitni, kynferðislegri eða kynbundinni, og annarri vanvirðandi framkomu er afdráttarlaust hafnað. Er þá vísað til hátternis þingmanns gagnvart öðrum þingmönnum, starfsmönnum Alþingis og gestum í starfi hans á Alþingi eða á vegum þess sem þjóðkjörins fulltrúa.
    Ákveðin sérsjónarmið geta átt við um meðferð mála út af kynferðislegri áreitni, svo sem um trúnað og meðferð gagna og þörf á sérfræðilegri aðstoð. Gildandi siðareglur hafa sveigjanleika til að mæta slíkum sjónarmiðum, t.d. er gert ráð fyrir því í 5. mgr. 16. gr. reglnanna að rökstutt erindi um brot á siðareglunum megi aldrei bitna á sendanda þess og forsætisnefnd geti ákveðið að sendandi erindis um brot njóti nafnleyndar. Þá nýtur forsætisnefnd við meðferð mála ráðgjafar siðanefndar þriggja manna sem hafa sérþekkingu á störfum Alþingis, lögfræði og heimspeki eða hagnýtri siðfræði, sbr. 15. gr. siðareglnanna. Siðanefndin nýtur aðstoðar skrifstofu Alþingis skv. 3. gr. reglna um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn og ætti á þeim grundvelli m.a. að geta óskað eftir nauðsynlegri sérfræðiaðstoð og aðstoð við varðveislu gagna. Gert er ráð fyrir því engu að síður að reglur forsætisnefndar um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn verði endurskoðaðar með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og samin sérstök viðbragðsáætlun á grundvelli þeirrar vinnu.
    Loks er tekið fram í tillögunni að eftir samþykkt hennar skuli forsætisnefnd fella breytingarnar inn í gildandi siðareglur og birta þær síðan svo breyttar á vef Alþingis.



Fylgiskjal I.


Tillögur starfshóps um endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0629-f_I.pdf




Fylgiskjal II.


Fundur ráðgefandi siðanefndar forsætisnefndar Alþingis, mánudaginn 19. mars 2018, kl. 2 síðdegis.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0629-f_II.pdf