Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 631  —  195. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um vindorku.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið unnið að undirbúningi þess að setja sérstök lög eða reglugerð um vindorkugarða eða vindmyllur til raforkuframleiðslu eða stendur það til? Ef svo er, hver eru áform ráðherra varðandi þennan málaflokk?

    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram í umfjöllun um umhverfis- og auðlindamál að setja þurfi lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar. Það verkefni er til nánari skoðunar í umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samráði og samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Í því samhengi er rétt að benda á að í apríl 2016 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp sem falið var það hlutverk að greina hvort í lögum og reglugerðum væri fjallað með nægjanlegum hætti um starfsemi vindorkuvera og framkvæmdir vegna þeirra. Ákvörðun um skipan starfshópsins var tekin í kjölfar þess að Samband íslenskra sveitarfélaga vakti athygli á málefninu sökum aukins áhuga fyrirtækja á því að koma upp slíkri starfsemi hér á landi. Niðurstöður þessa starfshóps eru væntanlegar á næstu vikum.
    Einnig skal tekið fram að nýverið var lögð fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá ráðherra orkumála um nýjar aðferðir við orkuöflun þar sem einkum verði fjallað um nýtingu vindorku, sjávarfallaorku og varmaorku. Hafin er vinna við gerð þeirrar skýrslu þar sem m.a. verða kortlagðir möguleikar á sviði vindorku á Íslandi og regluverk þeirra mála. Ráðgert er að ráðherra flytji Alþingi umbeðna skýrslu í september 2018.
    Næstu skref af hálfu stjórnvalda varðandi þennan málaflokk ráðast m.a. af framangreindum skýrslum.