Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 640  —  247. mál.
Leiðrétt fyrirsögn.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016 (EES-reglur, eftirlitsstofnanir o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu og frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða þau ákvæði tilskipunar 2014/51/ESB, sem breytti m.a. tilskipun 2009/138/EB, sem ekki hafa þegar verið lögleidd hér á landi, sbr. 15. gr. frumvarpsins, en að meginstefnu voru báðar tilskipanirnar innleiddar með lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Breytingarnar nú miða einkum að því að uppfæra lög um vátryggingastarfsemi vegna valdheimilda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem tóku gildi með lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, sem lögfestu m.a. ákvæði reglugerðar ESB nr. 1094/2010 um að koma þeirri eftirlitsstofnun á fót.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins, sem kom að gerð frumvarpsins, er bent á að líklega hafi misfarist að innleiða 6. mgr. 39. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sem varðar opinberar tilkynningar um yfirfærslu vátryggingastofns þegar vátryggingaráhættan er staðsett er hér á landi, þegar 39. gr. tilskipunarinnar var innleidd með 34. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Leggur stofnunin til að úr þessu verði bætt nú og viðeigandi málsgrein bætt við 34. gr. laganna. Í samráði við ráðuneytið leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu þar að lútandi.
    Samtök fjármálafyrirtækja gera í umsögn sinni athugasemd við ósamræmi milli orðalags 9. gr. frumvarpsins og þeirra athugasemda sem gerðar eru við greinina í greinargerð, þar sem orðalag greinarinnar sé víðtækara en orðalag athugasemda greinargerðarinnar. Ábendingin er réttmæt en eftirgrennslan hefur leitt í ljós að ætlunin var ekki að krafa ákvæðisins um fyrir fram samþykki Fjármálaeftirlitsins einskorðaðist við lækkun á hlutafé, heldur skyldi hún ná til allra ákvarðana sem leiða til lækkunar á gjaldþolsliðum vátryggingafélags, sbr. 70.–73. gr. reglugerðar 2015/35/EB sem innleidd var með reglugerð 585/2017, um vátryggingastarfsemi.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við 34. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þegar vátryggingafélag með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki, sem hefur stofnsett útibú eða veitir þjónustu hér á landi, hyggst yfirfæra vátryggingastofn sinn til annars félags, sem hefur starfsleyfi í aðildarríki, skal Fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar skv. 3. mgr. ef vátryggingaráhættan er hér á landi.

    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta álit.

Alþingi, 22. mars 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.