Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 641  —  190. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).

Frá 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Frumvarp það sem hér um ræður er náskylt frumvarpi sem flutt var á 145. og 146. löggjafarþingi, og sneri að því að koma í veg fyrir þá fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík sem ákveðin var með sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Miðað við þau lög á lágmarksfjöldi borgarfulltrúa í Reykjavík að hækka úr 15 í 23. 2. minni hluti telur að fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík sé tímabær og eftirsóknarverð út frá sjónarmiðum virks fulltrúalýðræðis. Kjörnir fulltrúar í Reykjavík ná ekki að manna föst ráð á vegum borgarinnar. Raunar tekst ekki einu sinni að manna formennsku í ráðum borgarinnar með borgarfulltrúum heldur þarf oft að grípa til varaborgarfulltrúa í þeim tilgangi. Í raun eru fyrstu varaborgarfulltrúar hvers framboðs þegar orðnir eins konar borgarfulltrúar, þeir eru t.d. á launaskrá.
    Alþekkt er að fjöldi kjörinna fulltrúa á þjóðþingum eða á öðrum kjörnum samkundum fylgi gjarnan mannfjölda, þó ekki línulega, þannig að oft eru fleiri í íbúar á hvern kjörinn fulltrúa í stærri ríkjum. Stundum hefur verið bent á að fulltrúafjöldinn á þingum og í ráðum hafi þá tilhneiging að vaxa í takt við þriðju rót af íbúatölu. Miðað við það ættu kjörnir fulltrúar í Reykjavík í að vera um 50. Almennt séð er fjöldi fulltrúa í sveitarstjórnum Norðurlanda talsvert hærri. Í Álaborg, sem er svipuð að stærð og Reykjavík, er fjöldi borgarfulltrúa t.d. 31. Í Reykjavík hefur fjöldinn haldist óbreyttur í yfir hundrað ár þrátt fyrir þrjátíuföldun íbúa á sama tíma.
    Að mati 2. minni hluta er ekki endilega sjálfsagt að sveitarstjórnir fái meira vald til að ákveða fyrirkomulag sveitarstjórnarkosninga í nafni sjálfsákvörðunarréttar. Til að koma í veg fyrir að meiri hluti hverju sinni misnoti sér viðlíka heimildir er rík hefð fyrir því að erfitt sé að breyta kosningalögum og að völd til að gera það sé með einhverju móti dreift. Sé Alþingi tekið sem dæmi, þá er fjöldi þingmanna bundinn í stjórnarskrá og fyrirkomulagi kosninga til Alþingis settar þónokkrar skorður, auk þess sem verulegar breytingar á kosningalögum krefjast aukins meiri hluta. Sambærilegar skorður er að finna í nánast öllum lýðræðisríkjum. Að öðrum kosti skapast hætta á því að sitjandi valdhafar hniki til reglum til að tryggja sér áframhaldandi völd. Með samþykkt frumvarpsins skapast raunveruleg hætta á að slíkt gerist í mörgum sveitarfélögum landsins í aðdraganda kosninga.
    Í ljósi þess að frumvarpsflytjendur vitna til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga verður að nefna að jafnt heildarsamtök sveitarfélaga sem og það sveitarfélag sem breytingin beinist að, Reykjavík, eru bæði fremur neikvæð í umsögnum sínum.
    Annar minni hluti telur þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér til hins verra. Þótt sjálfsagt sé að endurskoða umgjörð kosninga til sveitarstjórna með reglulegu millibili telur 2. minni hluti fráleitt að ráðast í slíkar breytingar svo skömmu fyrir kosningar, án nokkurs samráðs við sveitarfélögin.
    Annar minni hluti leggur því til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 23. mars 2018.

Pawel Bartoszek,
frsm.
Helga Vala Helgadóttir. Björn Leví Gunnarsson.