Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 651  —  452. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998, með síðari breytingum (skipan í stjórn, brottfall ákvæða).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Í stað 1. og 2. málsl. 3. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Ráðherra skipar sjö stjórnarmenn og tvo varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu fjórir stjórnarmenn og einn varamaður skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og þrír stjórnarmenn og einn varamaður skipaðir án tilnefningar. Einn þeirra stjórnarmanna sem skipaðir eru án tilnefningar skal vera formaður sjóðstjórnar en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

2. gr.

    5. og 6. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    II. kafli laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

4. gr.

    14. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 1. gr. gildi 1. júlí 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það var að hluta til unnið eftir ábendingum frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og við vinnslu þess var haft samráð við sjóðinn.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda starfar á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (lífeyrissjóðalaganna), laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998, og samþykkta fyrir sjóðinn. Með lögum nr. 155/1998 er Söfnunarsjóðnum ekki ætlað annað hlutverk en öðrum lífeyrissjóðum utan þess að honum er ætlað að vera lífeyrissjóður þeirra launþega/einstaklinga sem ekki eiga kjarasamningsbundna aðild að öðrum sjóðum, sbr. 6. gr. lífeyrissjóðalaganna. Þá hefur sjóðurinn jafnframt hlutverki að gegna skv. 47. gr. lífeyrissjóðalaganna þegar lífeyrissjóður uppfyllir ekki lengur skilyrði laganna um starfsleyfi lífeyrissjóða og umsjónaraðili hefur verið skipaður yfir sjóðnum. Ekki þykir nauðsynlegt að í sérlögum um sjóðinn sé að finna ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum lífeyrissjóðalaganna. Í samræmi við það er lagt til að nokkur ákvæði í lögum um sjóðinn verði felld brott enda felast í þeim sömu réttindi og skyldur og kveðið er á um í lífeyrissjóðalögunum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Er þar fyrst að nefna tillögu um að varamönnum í stjórn sjóðsins verði fækkað úr sjö í tvo. Reynslan sýnir að ekki er ástæða til að viðhalda núverandi fjölda varamanna. Því þykir rétt að leggja til að skipuðum varamönnum í stjórn sjóðsins verði fækkað.
    Í öðru lagi er lagt til að felld verði brott ýmis ákvæði í lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda sem eru efnislega samhljóða almennum ákvæðum lífeyrissjóðalaganna, en Söfnunarsjóðurinn starfar að meginstefnu til á sama hátt og aðrir lífeyrissjóðir. Breytingar á lífeyrissjóðalögunum krefjast í einhverjum tilvikum jafnframt breytinga á lögum sjóðsins á meðan aðrir lífeyrissjóðir, sem starfa á grundvelli lífeyrissjóðalaganna og samþykkta sinna, þurfa einungis að gera breytingar á samþykktunum vegna slíkra lagabreytinga.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur ekki í sér nein álitaefni er varða stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Frumvarpið var ekki sett í opið samráðsferli enda munu breytingarnar engin áhrif hafa hvorki á starfsemi sjóðsins né sjóðfélaga.

6. Mat á áhrifum.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki leiða til neins kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að varamenn í stjórn sjóðsins verði tveir í stað sjö en reynslan hefur sýnt að ekki er ástæða til að viðhalda núverandi fjölda varamanna.

Um 2.–4. gr.

    Þar sem Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda er ekki almennt ætlað annað hlutverk en öðrum lífeyrissjóðum að því er varðar meðferð lífeyrisréttinda er lagt til að nokkur ákvæði laga sjóðsins verði felld brott. Ekki er ástæða til að kveða í sérlögum um sjóðinn á um efnislega samhljóða ákvæði og lífeyrissjóðalögin hafa að geyma.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 5. og 6. gr., sem eru efnislega samhljóða ákvæðum I. kafla lífeyrissjóðalaganna, verði felld brott. Í öðru lagi er lagt til að II. kafli laganna, sem er efnislega samhljóða III. kafla lífeyrissjóðalaganna þar sem kveðið er á um lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum, verði í heild sinni felldur brott. Að lokum er lagt til að ákvæði 14. gr., sem er efnislega samhljóða ákvæði 39. gr. lífeyrissjóðalaganna, verði fellt brott.

Um 5. gr.

    Í gildistökuákvæði er gert ráð fyrir að 1. gr. frumvarpsins, sem felur í sér fækkun varamanna í stjórn, taki gildi þegar skipunartíma núverandi stjórnar er lokið árið 2020. Aðrar breytingar geta þegar tekið gildi.