Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 652 — 453. mál.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (hálfur lífeyrir).
Frá fjármála- og efnahagsráðherra.
1. gr.
Sjóðfélagi getur ákveðið að hefja töku hálfs ellilífeyris hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð að því skilyrði uppfylltu að hann sé ekki í meira en hálfu starfi sem veitir aðild að sjóðnum eða hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar sjóðsins.
2. gr.
3. gr.
Greinargerð.
Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, á grundvelli tillagna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR), og varðar eingöngu atriði sem nauðsynlegt er að breyta í lögum sjóðsins til samræmis við nýmæli í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Hinn 1. janúar 2018 tóku gildi lög nr. 116/2016 sem breyttu lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og fleiri lögum. Með breytingunum er einstaklingum gefinn kostur á að taka hálfan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, frá 65 ára aldri, að því skilyrði uppfylltu að allir skyldubundnir atvinnutengdir lífeyrissjóðir, sem einstaklingur á réttindi í, hafi heimilað sjóðfélögum töku á hálfum lífeyri. Eigi þessi heimild að gilda fyrir sjóðfélaga í B-deild LSR þarf að breyta lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997. Um 2.600 sjóðfélagar eru virkir greiðendur í sjóðinn og um 19.800 sjóðfélagar eiga svokölluð geymd réttindi í sjóðnum.
3. Meginefni frumvarpsins.
Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um LSR. Í fyrsta lagi er gert að skilyrði fyrir töku hálfs ellilífeyris úr B-deild sjóðsins að sjóðfélagi minnki starfshlutfall sitt í hálft starf ef hann er í starfi sem veitir aðild að B-deild sjóðsins eða hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar LSR 1. janúar 1997. Með hálfu starfi er átt við að starfshlutfall sjóðfélaga í B-deild LSR við töku á hálfum ellilífeyri getur hvorki numið hærra né lægra hlutfalli en 50% til að hann haldi aðild sinni að B-deild sjóðsins. Sjóðfélaga er þó heimilt að minnka starfshlutfall sitt í lægra starfshlutfall en hálft starf en við það tapast réttur til aðildar að B-deild sjóðsins. B-deild LSR er gamalt eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna og var lokað fyrir nýjum launagreiðendum og sjóðfélögum í árslok 1996 með lögum nr. 141/1996, en með þeim voru gerðar breytingar á lífeyrissjóðakerfi ríkisstarfsmanna. B-deildin er ekki nema að litlu leyti fjármögnuð með iðgjöldum og ávöxtun þeirra en að stærstum hluta með samtímagreiðslum frá launagreiðendum og ríkissjóði, sbr. 32. og 33. gr. laga nr. 1/1997. Lífeyriskerfi B-deildar felur því einungis að litlu leyti í sér sjóðsöfnun og byggist fjármögnunin aðallega á gegnumstreymi.
Við greiðslu eftirlauna úr B-deild LSR er sjóðfélaga greiddur lífeyrir eftir að hann hefur látið af föstu starfi hjá launagreiðanda sem heimild hefur til að greiða til sjóðsins fyrir starfsmenn sína. Skilyrði fyrir töku ellilífeyris er því að sjóðfélagi hafi látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um sjóðinn. Ákvæði um að flýta eða fresta lífeyristöku er ekki að finna í lögum sjóðsins líkt og á við í almennum lífeyrissjóðum þar sem réttindi sjóðfélaga eru að fullu fjármögnuð með iðgjöldum þeirra. Þau ákvæði tryggja að verðmæti ellilífeyris til æviloka sé hið sama hvenær sem lífeyristakan hefst. Ekki er um slíkt að ræða í B-deild LSR. Ef veitt yrði heimild til töku hálfs ellilífeyris úr sjóðnum án nokkurra skilyrða hefði það að líkindum í för með sér að allflestir virkir sjóðfélagar mundu nýta sér þann kost við 65 ára aldur. Það mundi auka skuldbindingar sjóðsins um allt að 10 milljarða króna. Í ljósi þess að B-deild LSR er eftirlaunasjóður þar sem starfslok eru skilyrði fyrir töku ellilífeyris úr sjóðnum verður að telja eðlilegt að binda heimild til töku hálfs ellilífeyris úr B-deild því skilyrði að sjóðfélagi minnki starfshlutfall sitt í hálft starf. Sjóðfélagar sem greiða í A-deild LSR og eiga svokölluð geymd réttindi í B-deild þurfa einnig að hafa látið af starfi til þess að eiga rétt á töku lífeyris úr B-deild ef starfið hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar sjóðsins. Er því gert ráð fyrir að skilyrði um lækkun starfshlutfalls eigi einnig við um þá.
Í öðru lagi er lagt til að hlutfall viðbótarréttinda við makalífeyri taki mið af starfshlutfalli hins látna sjóðfélaga þegar taka á hálfum lífeyri hófst.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Frumvarpið felur ekki í sér nein álitaefni er varða stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
5. Samráð.
Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við LSR. Frumvarpið var ekki sett í opið samráðsferli enda munu breytingarnar hvorki hafa áhrif á starfsemi sjóðsins né sjóðfélaga.
6. Mat á áhrifum.
Áhrifin fara eftir fjölda þeirra sjóðfélaga sem nýta sér úrræðið en ætla má að þau verði óveruleg.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Um 2. gr.
Um 3. gr.