Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 659  —  273. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um fæðingarstað barns.


     1.      Hver er skilgreining ráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands á fæðingarstað barns?
    Skráður fæðingarstaður barns í þjóðskrá, sem fætt er hér á landi, er heiti þess sveitarfélags þar sem fæðingin átti sér stað. Markast heiti hvers sveitarfélags af hverju tímabili fyrir sig. Þegar sveitarfélög sameinast, sem dæmi, falla bæjarheiti niður sem fæðingarstaður enda ekki skilgreint sem sveitarfélag á þeim tíma. Ef barn fæðist í Neskaupstað í dag er það skráð fætt í Fjarðabyggð. Þau börn sem fæddust fyrir sameiningu hinn 7. júní árið 1998 eru fædd í Neskaupstað.

     2.      Hver er skráður fæðingarstaður barns í þjóðskrá sem fæðist á eftirfarandi stöðum:
                  a.      Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi,
                  b.      Sjúkrahúsinu á Akureyri,
                  c.      Umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað,
                  d.      Grímsey,
                  e.      Kjalarnesi,
                  f.      Mjóafirði?
    
Fæðingarstaður er í þessum tilvikum skráður sem hér segir:
              a.      Landspítali; fæðingarstaður er Reykjavík,
              b.      Sjúkrahúsið á Akureyri; fæðingarstaður er Akureyri,
              c.      Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað; fæðingarstaður er Fjarðabyggð,
              d.      Grímsey; fæðingarstaður er Akureyri,
              e.      Kjalarnes; fæðingarstaður er Reykjavík,
              f.      Mjóifjörður (á Austurlandi); fæðingarstaður er Fjarðabyggð.

     3.      Eru frávik frá því hvernig fæðingarstaður barns er skráður miðað við skilgreiningu í 1. tölulið? Ef svo er, hvað kann að valda slíkum frávikum?
    Þjóðskrá Íslands skráir alltaf fæðingarstað barna samkvæmt heiti sveitarfélags í þjóðskrá, sbr. skilgreiningu í svari við 1. tölulið fyrirspurnar þessarar. Hins vegar hefur í nokkrum tilfellum heiti sveitarfélags ekki verið uppfært í þjóðskrá, t.d. Reykjavíkur og Akureyrar, en þau heita með réttu Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstaður. Þjóðskrá Íslands hefur ekki borist tilkynning um breytingu á heitum þessara sveitarfélaga en í öllum tilfellum er um að ræða viðskeytið -bær, -kaupstaður eða -borg.