Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 668  —  462. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla (aðkoma Alþingis að breytingum á opinberum framhaldsskólum og bann við arðgreiðslum úr einkareknum framhaldsskólum).

Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Guðjón S. Brjánsson, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Helga Vala Helgadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ef um er að ræða opinberan framhaldsskóla skv. II. kafla sem færa á í annað rekstrarform eða sameina öðrum framhaldsskóla á öðru rekstrarformi þarf að liggja fyrir ályktun Alþingis sem heimili slíka breytingu áður en heimilt er að veita skólanum viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi.
    Framhaldsskóli skal ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði. Óheimilt er að greiða arð af rekstri hans ef reksturinn er að hluta eða öllu leyti fjármagnaður með opinberu fé.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 146. löggjafarþingi (520. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram að nýju með lítillega breyttri greinargerð.
    Frumvarpinu er ætlaði að tryggja að samþykki Alþingis þurfi þegar breyta á opinberum framhaldsskóla í einkarekinn eða sameina hann einkareknum skóla og breyta rekstrarformi um leið. Því er einnig ætlað að tryggja að óheimilt verði að reka framhaldsskóla með fjárhagslegan ágóða að markmiði og að óheimilt verði að greiða arð af rekstri framhaldsskóla óháð því hvaða rekstrarform er notað til rekstursins.
    Áform um breytingar á skólakerfinu þurfa að vera vel rökstuddar með faglegum rökum ekki síður en rekstrarlegum og spurningum svarað, svo sem um hvort breytingin stuðli að fjölbreyttara námsframboði, bættri stöðu nemenda, betra aðgengi að skólum eða aukinni skólasókn.
    Nýlega voru áform um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla (FÁ) kynnt en engin fagleg rök sett fram um leið sem styðja við þá breytingu. Með sameiningunni hefði FÁ orðið einkarekinn skóli en er nú opinber framhaldsskóli skv. II. kafla laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Mikil umræða varð um málið og almenn óánægja var um áformin meðal nemenda og kennara FÁ. Félag framhaldsskólakennara tók skýra afstöðu gegn sameiningu skólanna og gagnrýndi þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í málinu. Þá hefur félagið bent á að stefnan á Íslandi hafi verið sú að allir skuli hafa jöfn tækifæri til náms og að menntun sé hluti af velferðarkerfinu en ekki vettvangur markaðsvæðingar. Þá má benda á í þessu samhengi að mat hefur ekki farið fram á sameiningu Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði árið 2015 þar sem sá síðarnefndi fór undir einkarekstur Tækniskólans.
    Með frumvarpinu er ekki lagt blátt bann við því að breyta opinberum framhaldsskóla í einkarekinn en lagt til að slík áform skuli bera undir þingið. Óheimilt er því að breyta rekstrarformi nema Alþingi hafi áður samþykkt ályktun þess efnis að slíkt sé heimilt. Í slíkri ályktun yrði gerð grein fyrir þeim rökum sem liggja að baki einkavæðingaráformum. Með þessu fyrirkomulagi færi fram nauðsynleg umræða um slík áform, gera þyrfti grein fyrir þeim rökum sem talið er að kalli á breytingu á rekstri skóla og mögulegt yrði að ræða stefnu ríkjandi stjórnvalda í menntamálum. Ákvörðun um einkavæðingu skóla yrði því tekin á eðlilegum grunni og með upplýstum hætti.
    Brýnt er að setja skýrar lagareglur um að fyrirtæki sem reka framhaldsskóla og fá til þess opinbert fé séu ekki rekin í hagnaðarskyni. Með því er tryggt að skattfé úr sameiginlegum sjóðum almennings sé nýtt með árangursríkum hætti og not þess fjár sé hámarkað.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut frá september 2010 1 kemur fram að Hraðbraut ehf. hafi greitt 82 millj. kr. í arð til eigenda sinna árin 2003–2009. Ríkisendurskoðun tekur fram að hún telji hvorki þjónustusamning né lög banna slíkar arðgreiðslur. Framlög ríkisins til skólans á tímabilinu 2003–2009 námu þó 192 millj. kr. umfram ákvæði þjónustusamningsins. Skólinn var því í reynd rekinn með halla og hafa því ekki verið fjárhagslegar forsendur fyrir því að greiða út arð til eigenda hans á sama tíma, sjá einnig skýrslu menntamálanefndar Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut, þskj. 498, 380. mál á 139. löggjafarþingi. 2 Með skýrum lögum sem banna arðgreiðslur úr fyrirtækjum sem þessum er fjarlægður hvati til að spara óeðlilega framlag til þjónustu svo að mögulegt sé að greiða út arð.
    Verði hagnaður af starfsemi framhaldsskóla sem starfa samkvæmt samningi við hið opinbera verður þeim ekki heimilt að greiða út hagnað heldur ber að tilgreina í samningi hvernig skuli fara með slíkan afgang. Slíkt ákvæði um að hagnað skuli nýta til fjárfestinga og umbóta sem gæti skilað sér í bættri, fjölbreyttri þjónustu, auknum gæðum og styttri biðlistum þar sem þeim er fyrir að fara. Að öðrum kosti sé honum skilað til ríkissjóðs enda um að ræða almannafé.
    Með framangreindu verður tryggt að rekstur framhaldsskóla verði ekki markaðsvæddur þannig að hagnaðarvon verði sett í forgang. Megináhersla verður aftur á móti lögð á gæði menntunar, kennslu og þjónustu við nemendur. Ekki er komið í veg fyrir að þjónusta á þessum sviðum sé veitt af einkaaðilum enda getur slíkt aukið fjölbreytni og möguleika á þjónustu. Tryggt verði hins vegar að rétt forgangsröðun sé höfð í hávegum í starfseminni með því að banna að framhaldsskólar séu reknir í hagnaðarskyni.
    Ákvæðið á sér fordæmi í 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, en með lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, var bætt við greinina svohljóðandi ákvæði: „Háskóli skal ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.“ Orðalag ákvæðisins virðist vera með þeim hætti að átt sé við að rekstur háskóla sé á svokölluðum „non-profit“-grundvelli, þ.e. ekki rekinn í hagnaðarskyni. Breytingin var þó ekki skýrð í frumvarpinu og því er hér lagt til að einnig verði tiltekið að óheimilt sé að greiða arð af rekstri framhaldsskóla. Á það við óháð því um hvaða rekstrarform er að ræða.
1     www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/Hradbraut.pdf
2     www.althingi.is/altext/139/s/0498.html