Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 671  —  465. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001, með síðari breytingum (ráðstafanir vegna EES-reglna).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.1. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    2. og 3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Kvikmyndaráð er stjórnvöldum og Kvikmyndamiðstöð Íslands til ráðgjafar um kvikmyndamálefni og gerir tillögur til ráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.
    Ráðherra skipar sjö fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann án tilnefningar, en hina sex samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila: Félags kvikmyndagerðarmanna, Framleiðendafélagsins – SÍK, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda, Bandalags íslenskra listamanna og Félags leikskálda og handritshöfunda. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sami maður verður ekki skipaður í sæti aðalmanns í kvikmyndaráð oftar en tvisvar samfleytt.

3. gr.

    1. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Hafa umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs.

4. gr.

    Í stað 2. mgr. 4. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Heimilt er að endurskipa forstöðumann einu sinni til fimm ára.
    Forstöðumaður fer með yfirstjórn Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hann stýrir daglegum rekstri miðstöðvarinnar, sér um fjárreiður, reikningsskil og gerð fjárhagsáætlana og ber ábyrgð á að miðstöðin starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Forstöðumaður ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma miðstöðvarinnar sé í samræmi við fjárveitingar til hennar og að fjármunir hennar séu nýttir á árangursríkan hátt. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

5. gr.

    5. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð og gerð kvikmynda sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun með fjárstuðningi.
    Íslensk kvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd sem unnin er og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Með kvikmynd á íslensku er átt við að frumútgáfa kvikmyndar sé með íslensku tali.
    Heimilt er að veita sérstaka sýningarstyrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi í hlutfalli við heildarandvirði seldra aðgöngumiða að sýningum á viðkomandi kvikmynd.
    Skilyrði í lögum þessum um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi gildir ekki um lögaðila og einstaklinga sem falla undir ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. þó 5. mgr. um móttöku styrks.
    Skilyrða má móttöku styrks því að styrkþegi hafi skráð útibú eða umboðsmann hér á landi.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að falla frá kröfu um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi í því skyni að koma til framkvæmda ákvæðum þjóðréttarsamninga sem gerðir hafa verið við önnur ríki.

7. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands tekur endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði að fengnum umsögnum og tillögum frá þar til bærum aðilum samkvæmt reglugerð þegar slíkt á við.
    Kvikmyndaráðgjafar meta styrkumsóknir vegna kvikmyndagerðar sem berast Kvikmyndasjóði og gera tillögur um styrkveitingar á grundvelli þeirra til forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Kvikmyndaráðgjafar skulu hafa þekkingu eða reynslu á sviði kvikmynda og um þá gilda hæfisreglur stjórnsýslulaga. Forsendur sem lagðar eru til grundvallar við mat kvikmyndaráðgjafa á umsóknum skulu koma fram í reglugerð.
    Við ákvörðun styrks úr Kvikmyndasjóði skal taka tillit til styrkja sem þegar hafa verið veittir til gerðar viðkomandi kvikmyndar og sem vilyrði hafa verið gefin fyrir til að gæta þess að heildarfjárhæð styrks verði ekki umfram þær viðmiðanir sem kveðið er á um í reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og í reglugerð. Komi í ljós að skilyrði í þessum lögum og reglugerð hafi ekki verið uppfyllt, eða kostnaður við verkefnið reynist lægri en gert var ráð fyrir í umsókn og sem styrkfjárhæð var miðuð við, skal styrkþegi endurgreiða ofgreiddan styrk.

8. gr.

    6. tölul. 8. gr. laganna orðast svo: Efla og kynna kvikmyndamenningu á Íslandi á sviði sögulegrar kvikmyndalistar.

9. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Forstöðumaðurinn fer með yfirstjórn Kvikmyndasafnsins. Hann stýrir daglegum rekstri safnsins, sér um fjárreiður, reikningsskil og gerð fjárhagsáætlana og ber ábyrgð á að Kvikmyndasafn Íslands starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Forstöðumaðurinn ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma safnsins sé í samræmi við fjárveitingar til stofnunarinnar og að fjármunir hennar séu nýttir á árangursríkan hátt. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk Kvikmyndasafns Íslands.

10. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Framleiðendum kvikmynda sem hlotið hafa styrk úr Kvikmyndasjóði er skylt að afhenda Kvikmyndasafni Íslands á stafrænu formi frumskrá kvikmyndar sinnar, sýningarskrár, stiklur og streymisskrár auk útgefinna gagna sem varða kvikmyndina. Afhending skal fara fram um leið og gerð kvikmyndarinnar er lokið og er skilyrði fyrir greiðslu lokahluta framleiðslustyrks frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

11. gr.

    1. og 3. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    12. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara og um starfsemi Kvikmyndasjóðs, þar á meðal um undirbúning úthlutunar og greiðslur úr sjóðnum, um meginskiptingu fjárveitinga Kvikmyndasjóðs milli einstakra greina kvikmyndagerðar og um forsendur og tilhögun mats, þar sem meðal annars skal að líta til jafnrar stöðu kvenna og karla. Þá verði í reglugerð kveðið á um skyldu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um að verða við óskum umsækjenda um endurmat á umsóknum, um málsmeðferð kærumála, um störf kvikmyndaráðgjafa og birtingu upplýsinga fyrir umsækjendur.

14. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta kveður á um breytingar á kvikmyndalögum, nr. 137/2001, með síðari breytingum, og var samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti og Bjarnveigu Eiríksdóttur lögmann. Frumvarpið byggist að meginhluta á athugasemdum sem bárust frá hagsmunaaðilum og kvikmyndaráði auk þess sem færa þurfti ákvæði kvikmyndalaga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fjárstuðningur til kvikmyndagerðar telst ríkisaðstoð í skilningi 2. kafla EES-samningsins. Frumvarp þetta á rætur að rekja til nýrra leiðbeinandi reglna um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð- og myndmiðlunarverka sem eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti 26. mars 2014 og birtar voru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 52 þann 18. september 2014. Í 55. mgr. reglnanna leggur ESA til sem viðeigandi ráðstafanir í skilningi 1. mgr. 62. gr. EES-samningsins að EES-ríkin samræmi aðstoðarkerfi sín vegna fjármögnunar kvikmynda við reglurnar áður en tvö ár eru liðin frá birtingu þeirra. Það er markmið þessa frumvarps að færa framkvæmd úthlutana Kvikmyndasjóðs til samræmis við hinar nýju reglur ESA. Ástæða þess að ákvæði kvikmyndalaga hafa ekki fyrr en nú verið færð til samræmis við ríkisaðstoðarreglur EES er að íslensk stjórnvöld hafa talið aðstoðarkerfi Kvikmyndasjóðs vera „yfirstandandi aðstoð“ sem er aðstoð sem var hafin fyrir gildistöku EES-samningsins í viðkomandi EFTA-ríki og er enn veitt. Í því sambandi skiptir máli að Kvikmyndasjóðurinn var stofnaður árið 1978, fyrir gildistöku EES-samningsins, og hefur starfsemi hans verið í óbreyttri mynd í áratugi. Slíkri aðstoð er ríkjum heimilt að viðhalda en hún er engu síður háð eftirliti ESA um samræmi við EES-samninginn.
    Hingað til hafa úthlutanir Kvikmyndasjóðs einskorðast við íslenskar kvikmyndir sem samkvæmt kvikmyndalögum eru kvikmyndir sem eru unnar eða kostaðar af íslenskum aðilum eða eru samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Slíkar úthlutanir þar sem ekki er gert ráð fyrir styrkgreiðslum til framleiðenda sem hafa staðfestu í öðrum EES-ríkjum eða fela í sér aðrar beinar eða óbeinar kröfur um þjóðerni eru ekki í samræmi við leiðbeiningarreglur ESA. Þannig kemur fram í 46. mgr. leiðbeiningarreglnanna að tryggja þurfi m.a. að meginregla 4. gr. EES-samningsins sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis sé virt við framkvæmd ákvæða um aðstoð til kvikmyndagerðar. Þrátt fyrir þetta er ríkjunum heimilt, sbr. 24. mgr. leiðbeiningarreglnanna, að styðja sérstaklega við tungumál sem talað er á litlu málsvæði eins og á við um íslensku.
    Endurspegla þarf með ótvíræðum hætti í lögum rétt einstaklinga og lögaðila á grundvelli EES-samningsins og talið er eðlilegt að gera það með því að lögfesta ákvæði um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni þessa frumvarps er að kveða skýrt á um að umsækjendur frá öðrum ríkjum EES geti sótt um styrk til Kvikmyndasjóðs. Jafnframt eru sett ítarlegri skilyrði en nú eru um að styrkur verði einungis veittur vegna íslenskra kvikmynda, kvikmynda sem eru á íslenskri tungu eða hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun. Litið var m.a. til ákvæða dönsku kvikmyndalaganna við afmörkun á framangreindum skilyrðum úthlutunar. Reglugerð um Kvikmyndasjóð sem sett er á grundvelli núgildandi kvikmyndalaga hefur þegar verið breytt til að endurspegla framangreind skilyrði en talið hefur verið að kvikmyndalög útiloki ekki slíka túlkun þegar litið er til þess að skýra beri lög í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þó þykir rétt að endurspegla með ótvíræðum hætti í lögum þennan rétt einstaklinga og lögaðila á grundvelli EES-samningsins. Rétt þykir einnig að lögfesta heimildarákvæði fyrir ráðherra til að koma til framkvæmda skuldbindingum samkvæmt fríverslunarsamningum, sbr. nánari skýringu í 4. kafla.
    Í frumvarpinu er einnig litið til tillagna kvikmyndaráðs um breytingar á kvikmyndalögum og samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016–2019. Jafnframt er lagt til að tekin verði upp í kvikmyndalög ákvæði um sýningarstyrki en 31. desember 2016 féllu úr gildi lög nr. 14/2016, um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi. Þá hafa ný lög um ríkisfjármál haft í för með sér breytingar á skilgreiningu á hlutverki forstöðumanna og einnig er tillaga um nýtt ákvæði um hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til samræmis við t.d. skipun þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands. Að lokum er brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis um að setja ítarlegri reglur um störf kvikmyndaráðgjafa og að gæta verði að sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði um stjórnsýslu þessara mála.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpinu er m.a. ætlað að færa ákvæði kvikmyndalaga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar sem felast í 4. og 61. gr. EES-samningsins um ríkisaðstoð og banni við mismunun á grundvelli þjóðernis. Er þannig eins og áður greinir brugðist við nýjum leiðbeiningarreglum ESA sem tóku gildi í september árið 2016. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að ráðherra geti fallið frá kröfum um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi þegar slíkt er nauðsynlegt til að framfylgja skuldbindingum samkvæmt þjóðréttarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Þegar eru í gildi tveir fríverslunarsamningar sem kunna að kalla á að sett verði slík reglugerðarákvæði, þ.e. fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja, Hoyvíkur-samningurinn, sem tók gildi 1. nóvember 2006, og endurskoðaður stofnsamningur EFTA, Vaduz-samningurinn, sem tók gildi 1. júní 2002, en þessir samningar fela í sér ríkari skuldbindingar en aðrir og hefðbundnari fríverslunarsamningar sem Ísland er aðili að.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst kvikmyndageirann og þá sem starfa við kvikmyndagerð og var m.a. haft samráð við hagsmunaaðila í geiranum með aðkomu kvikmyndaráðs. Samráð hefur verið við fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna ákvæða EES-samningsins um ríkisaðstoð og vegna annarra þjóðréttarsamninga. Frumvarpið var kynnt á samráðsvef Stjórnarráðsins 5. febrúar 2018 og bárust ráðuneytinu nokkrar athugasemdir. Farið var yfir þær og tekið tillit til þeirra flestra.

6. Mat á áhrifum.
    Engin fjárhagsleg eða efnahagsleg áhrif eru fyrirséð ef frumvarpið verður að lögum. Fjárveitingar til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs eru veittar í fjárlögum og því hafa þær breytingar á stöðu umsækjenda frá öðrum ríkjum innan EES-svæðisins, sem frumvarpið felur í sér, engin áhrif á útgjöld ríkisins í málaflokknum. Erlendir ríkisborgarar frá ríkjum EES-svæðisins hafa sótt um styrki úr Kvikmyndasjóði en slík tilvik eru svo fá að þau hafa ekki haft áhrif á möguleika íslenskra ríkisborgara til að fá styrki að nokkru nemi auk þess sem réttindi ríkisborgara EES-ríkja eru gagnkvæm. Af þeim sökum er hér talið að ekki verði nein mælanleg áhrif á styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði þótt ákvæði þessa frumvarps verði að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að 3. mgr. 1. gr. laganna, um skilgreiningu á íslenskri kvikmynd, falli brott en sambærileg skilgreining ásamt fleiri skilgreiningum og skilyrðum fyrir því að hljóta styrk úr Kvikmyndasjóði verði í 6. gr. laganna, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Í minnisblaði kvikmyndaráðs til mennta- og menningarmálaráðherra vegna endurskoðunar á kvikmyndalögum, dags. 5. febrúar 2016, kemur meðal annars fram að ráðið telur að markmið kvikmyndalaga um ráðgefandi hlutverk kvikmyndaráðs, og þar með aðkomu fagaðila í greininni að starfsemi Kvikmyndamiðstöðvar, hafi ekki náðst að fullu. Kvikmyndaráð telur að skerpa þurfi á hlutverki fagfélaganna með skýrari ákvæði um ráðgefandi hlutverk þeirra gagnvart stjórnvöldum og Kvikmyndamiðstöð Íslands. Breytingunni er ætlað að koma til móts við þessa ábendingu kvikmyndaráðs.
    Lagt er til að tilnefningaraðilar í kvikmyndaráð séu félög allra helstu hagsmunaaðila sem koma að kvikmyndamenningu á Íslandi. Félag leikskálda og handritshöfunda hafa ítrekað óskað eftir aðkomu að kvikmyndaráðinu og hér er lagt til að orðið verði við þeirri ósk.

Um 3. gr.

    Í núgildandi lögum er ekki greint með nægilega skýrum hætti milli hlutverka Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs og er þessari tillögu ætlað að bæta úr því að hluta. Samkvæmt tillögunni er kveðið á um að Kvikmyndamiðstöð Íslands hafi umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs, sem er efnislega í samræmi við breytingu á 1. mgr. 6. gr. laganna, sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins, um að það sé hlutverk Kvikmyndasjóðs að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárstuðningi.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að aðeins sé heimilt að endurnýja skipun forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands einu sinni en það hefur verið ósk kvikmyndaráðs og listageirans að forstöðumenn listastofnana sitji að öllu jöfnu ekki lengur en tvö skipunartímabil. Skipun forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði í samræmi við skipun safnstjóra Listasafns Íslands.
    Í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, er meðal annars kveðið á um hlutverk og skyldur forstöðumanna og er efni 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins byggt á þeim, einkum 27. og 36. gr., og á 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Hér eru ákvæði um skyldur forstöðumanns færðar til samræmis við þær breytingar sem lög nr. 123/2015 höfðu í för með sér.

Um 5. gr.

    Eftir að lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, tóku gildi á 5. gr. laganna ekki lengur við og ekki er talin ástæða til að greina sérstaklega frá því í lögum með hvaða hætti ríkið fjármagnar starfsemi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til með orðalaginu ,,Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð og gerð kvikmynda sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun með fjárstuðningi“ að rýmka hlutverkið frá því sem áður var, en í dag er aðeins heimilt að veita handritsstyrki, þróunarstyrki, framleiðslustyrki og eftirvinnslustyrki. Með orðinu efla er átt við að Kvikmyndasjóður geti til viðbótar styrkt m.a. kynningarstarf og kvikmyndamenningu. Með kvikmyndamenningu er m.a. átt við innlendar kvikmyndahátíðir, námskeið og vinnustofur þar sem innlent og erlent fagfólk, auk kvikmyndagerðarmanna, myndar tengsl og skiptist á upplýsingum. Í breytingunum felst að jafnframt eru sett ítarlegri ákvæði um hlutverk Kvikmyndasjóðs og framkvæmd úthlutana úr sjóðnum. Gerð er krafa um að verk hafi íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun. Slík nálgun er í samræmi við leiðbeiningarreglur ESA (sjá t.d. 24. mgr.) þar sem m.a. er viðurkennt að bæði stuðningur við tungumál og menningarstefnu teljist brýnir almannahagsmunir sem réttlætt geti aðstoð til kvikmyndagerðar. Er þannig gert ráð fyrir að ríki geti sett ákvæði um m.a. menningarlegt innihald kvikmynda er notið geta styrks.
    Í 2. mgr. greinarinnar er skilgreint hvað telst vera íslensk kvikmynd og kvikmynd á íslensku samkvæmt lögunum.
    Í 3. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um heimild til að veita sýningarstyrki. Slík heimild var fyrir hendi í lögum nr. 14/2016, um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi (miðastyrkir), sem féllu úr gildi 31. desember 2016. Markmið sýningarstyrkja er að styðja við gerð kvikmynda á íslensku og þeir skulu greiddir sem hlutfall af heildarandvirði seldra miða að sýningum.
    Í 4. mgr. greinarinnar er tekið fram að þau skilyrði sem eiga við um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi gildi ekki um lögaðila og einstaklinga sem falla undir ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í leiðbeinandi reglum ESA um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð- og myndmiðlunarverka sem samþykktar voru 26. mars 2014 og birtar voru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 52 þann 18. september 2014 er í 55. mgr. reglnanna lagt til, sem viðeigandi ráðstafanir í skilningi 1. mgr. 62. gr. EES-samningsins, að EES-ríkin samræmi aðstoðarkerfi sín vegna fjármögnunar kvikmynda við reglurnar innan tveggja ára frá birtingu þeirra. Hingað til hafa úthlutanir Kvikmyndasjóðs einskorðast við íslenskar kvikmyndir sem samkvæmt gildandi kvikmyndalögum eru kvikmyndir sem eru unnar eða kostaðar af íslenskum aðilum eða eru samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Ekki er mælt fyrir um styrkveitingar til annarra aðila. Slíkar úthlutanir þar sem ekki er gert ráð fyrir styrkgreiðslum til framleiðenda sem hafa staðfestu í öðrum EES-ríkjum eru ekki í samræmi við leiðbeinandi reglur ESA. Þannig kemur m.a. fram í 46. mgr. reglnanna að tryggja þurfi að meginregla 4. gr. EES-samningsins sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis sé virt við framkvæmd ákvæða um aðstoð til kvikmyndagerðar. Þrátt fyrir þetta er ríkjunum heimilt, sbr. 24. mgr. leiðbeiningarreglnanna, að styðja sérstaklega við tungumál sem talað er á litlu málsvæði eins og á við um íslensku.
    Í 5. mgr. greinarinnar er heimild til að gera megi kröfu um að styrkþegi hafi skráð útibú eða umboðsmann hér á landi. Þrátt fyrir að ekki sé heimilt að gera kröfu um að sá sem þiggur fjárstuðning frá öðru ríki EES hafi skráð aðsetur hér á landi er heimilt að kveða á um að hann hafi skráð útibú eða umboðsmann hér á landi þegar styrkurinn er greiddur út. Er þetta gert til að tryggja rekjanleika og er heimilt skv. 47. mgr. leiðbeiningarreglna ESA.
    Í 6. mgr. greinarinnar er gert er ráð fyrir því að ráðherra geti fallið frá kröfum um þjóðerni, búsetu eða skráningu hér á landi þegar slíkt er nauðsynlegt til að framfylgja skuldbindingum samkvæmt þjóðréttarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Þegar eru í gildi tveir fríverslunarsamningar sem kunna að kalla á að sett verði slík reglugerðarákvæði, þ.e. fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja, Hoyvíkur-samningurinn, sem tók gildi 1. nóvember 2006, og endurskoðaður stofnsamningur EFTA, Vaduz-samningurinn, sem tók gildi 1. júní 2002, en þessir samningar fela í sér ríkari skuldbindingar en aðrir og hefðbundnari fríverslunarsamningar sem Ísland er aðili að.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að 1. mgr. greinarinnar breytist þannig að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar ákveði áfram styrkveitingar en að fenginni umsögn og/eða tillögu þar til bærra aðila, sem tilgreindir verða í reglugerð og þegar slíkt á við, þ.e. að í reglugerðinni verða tilgreind þau tilvik þegar nauðsynlegt er að forstöðumaður byggi ákvörðun sína á umsögn og /eða tillögu, t.d. við veitingu framleiðslustyrkja.
    Með nýrri 2. mgr. greinarinnar er tekið fram að sérstakir kvikmyndaráðgjafar meti styrkumsóknir vegna kvikmyndagerðar sem berast Kvikmyndasjóði og að þeir geri tillögur um styrkveitingar á grundvelli þeirra til forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Gert er ráð fyrir að forsendur mats kvikmyndaráðgjafa á umsóknum verði sett fram í reglugerð. Er það til að bregðast við ábendingum umboðsmanns Alþingis. Þótt kvikmyndaráðgjafar taki ekki endanlega ákvörðun um úthlutun styrks taka þeir þátt í undirbúningi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem styrkveiting er og því er tilgreint að um þá gildi hæfisreglur stjórnsýslulaga.
    Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að gæta þarf að því að úthlutun styrks fari ekki umfram viðmið í lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Er þetta tekið sérstaklega fram í lögunum, m.a. með tilliti til umsækjenda, en auk þess getur verið nauðsynlegt fyrir Kvikmyndasjóð að endurkrefja ofgreiddan styrk. Þær alþjóðlegu skuldbindingar sem vísað er til eru aðallega leiðbeiningarreglur ESA um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð- og myndmiðlunarverka sem vísað er til í skýringum við 6. gr. frumvarpsins og í reglugerð um minniháttaraðstoð (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð) sem tekin var upp í EES-samninginn og aðlöguð með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2014 frá 16. maí 2014 sem birtist í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 63, 30. október 2014. Almennar styrkveitingar kvikmyndasjóðs hafa miðast við fyrrnefndu reglurnar en sérstakir sýningarstyrkir (miðastyrkir) sem gert er ráð fyrir að bætist við með breytingu á 6. gr. laganna hafa byggst á síðarnefndu reglunum.

Um 8. gr.

    Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndasafni er báðum ætlað að efla kvikmyndamenningu á Íslandi skv. 3. tölul. 3. gr. og 6. tölul. 8. gr. gildandi laga. Hér er lagt til, að tillögu Kvikmyndasafns Íslands, að 6. tölul. 8. gr. breytist til skýringar á hlutverki þess. Kvikmyndasafn Íslands varðveitir nýsköpun og alla kvikmyndaarfleifð þjóðarinnar og veitir aðgang að henni með margvíslegum hætti, m.a. með sýningum á eigin vettvangi eða í samstarfi við aðra, til að mynda systursöfn erlendis.

Um 9. gr.

    Málsgreinin er ný og efnislega sú sama og finna má í 4. gr. frumvarpsins um starf forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, er m.a. kveðið á um hlutverk og skyldur forstöðumanna og er efni greinarinnar byggt á þeim, einkum 27. og 36. gr., og á 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Hér eru ákvæði um skyldur forstöðumanns færðar til samræmis við þær breytingar sem lög nr. 123/2015 höfðu í för með sér.

Um 10. gr.

    Vegna þeirrar miklu þróunar sem orðið hefur á kvikmynda- og tölvutækni á öllum sviðum er gildandi lagaákvæði um skyldu styrkþega til að afhenda Kvikmyndasafni Íslands tvö eintök kvikmyndar ekki lengur fullnægjandi. Orðalag ákvæðisins tilheyrir ,,filmuheiminum“, sem nú heyrir sögunni til, þegar flestar kvikmyndir eru framleiddar stafrænt. Þrátt fyrir það er mikilvægt að tryggja varðveislu kvikmyndanna um leið og gerð þeirra er lokið. Í gildandi kvikmyndalögum er ekki að finna nein úrræði við því ef framleiðendur kvikmynda ákveða að verða ekki við skyldu um afhendingu á kvikmyndum sínum til Kvikmyndasafns Íslands. Með þessu ákvæði er lagt til að tengja skil á kvikmynd sem hefur hlotið styrk frá Kvikmyndasjóði við greiðslu á lokahluta framleiðslustyrks.

Um 11. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna um tekjur Kvikmyndasafns Íslands fellur brott þar sem talið er að það sé óþarft eftir setningu laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Einnig fellur brott 3. mgr. sömu greinar um að afla skuli fullnægjandi heimilda rétthafa samkvæmt höfundalögum þar sem réttindi rétthafa eru nú þegar vel skilgreind í höfundalögum, nr. 73/1972, og hvernig skuli afla fullnægjandi heimilda þeirra.

Um 12. gr.

    Í 12. gr. laganna er veitt heimild til að skipa markaðsnefnd kvikmynda með fulltrúum nokkurra ráðuneyta, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Íslandsstofu. Hlutverk nefndarinnar á að vera að veita innlendum og erlendum aðilum þjónustu við gerð kvikmynda á Íslandi. Þessi markaðsnefnd hefur aldrei verið skipuð og Íslandsstofa sinnir nú þessu hlutverki í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og þau ráðuneyti sem eftir atvikum koma að málum. Af þeim sökum er ekki talin ástæða til að hafa sérstaka lagaheimild um þessa nefnd.

Um 13. gr.

    Hér er lögð til almenn reglugerðarheimild sem tekur til laganna í heild. Kemur hún m.a. í staðinn fyrir reglugerðarheimildina í 2. mgr. 7. gr. gildandi laga en með breytingum. Breytingarnar fela það í sér að ráðherra er ekki skylt á grundvelli laga að óska umsagnar kvikmyndaráðs um setningu reglugerðar, enda er það viðtekin venja að reglugerðir eru sendar til umsagnar hagsmunaaðila auk þess að fara í opið samráð. Rétt þykir að kveða sérstaklega á um að við mat á umsóknum um styrk úr Kvikmyndasjóði sé skylt að líta til jafnrar stöðu kvenna og karla. Er það í samræmi við samkomulag stjórnvalda og kvikmyndageirans um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016–2019.
    Lagt er til að í reglugerð verði m.a. mælt fyrir um skyldu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um að verða við óskum umsækjenda um endurmat á umsóknum. Í þeim tilgangi verði tilgreind í reglugerð málsmeðferð kærumála og upplýsingaskylda Kvikmyndamiðstöðvar Íslands gagnvart umsækjendum um styrki úr Kvikmyndasjóði.
    Stjórnvald skal starfa þannig að það geti ávallt upplýst aðila máls og eftirlitsaðila, þar á meðal ráðuneyti, um meðferð einstakra mála. Þetta ber að gera þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem veitir undanþágu frá rökstuðningi ef um er að ræða styrki á sviði lista, menningar eða vísinda. Sé eftir því leitað á hlutaðeigandi að geta gert grein fyrir því hvað hafi einkum ráðið niðurstöðu um hverja umsókn. Því þarf að vera hægt að veita upplýsingar um mat á umsóknum og grundvöll niðurstöðu svo eftirlitsaðila sé fært að meta hvort afgreiðsla umsóknar hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og gætt hafi verið jafnræðis við mat umsókna og ákvörðun um úthlutun. Af þessu má ráða að nauðsynlegt er að setja nákvæmar reglur um úthlutun úr Kvikmyndasjóði sem meðal annars tryggja rétta málsmeðferð, vandaða stjórnsýslu og rétt umsækjanda til upplýsinga um mál sem hann varðar.

Um 14. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða hefur runnið sitt skeið og því er lagt til að það verði fellt brott.

Um 15. gr.

    Talið er nauðsynlegt að lögin taki þegar gildi til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar.