Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 679  —  210. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skriflegt svar við fyrirspurn þingmanns.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hverjar voru helstu tímasetningar í vinnuferli við samningu og afhendingu svars þáverandi forsætisráðherra, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn á þskj. 680 (488. mál) á 146. þingi, þar á meðal á:
                  a.      móttöku ráðherra á fyrirspurninni,
                  b.      helstu áföngum í vinnslu svarsins,
                  c.      móttöku ráðherra á svarinu til endanlegrar samþykktar?
     2.      Hvaða skýringar eru á þeim langa tíma sem það tók ráðherra að svara umræddri fyrirspurn í ljósi þess að vinnsla svarsins kallaði hvorki á sérstaka gagnaöflun né gagnavinnslu? Hjá hvaða aðila, ef einhverjum, dróst gerð svars við fyrirspurninni, þ.e. hjá yfirstjórn ráðuneytis, öðrum skrifstofum, ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanni ráðherra, ráðherra, eða einhverjum öðrum sem kom að gerð svars?
     3.      Hvers vegna gerði ráðherra ekki skriflega grein fyrir því að ekki tækist að svara fyrirspurninni innan þess frests sem ákveðinn er, sbr. 6. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis?


    Svohljóðandi greinargerð fylgir fyrirspurninni:
    „Fyrirspurn á þskj. 680 (488. mál) á 146. þingi var ekki svarað fyrir þinglok. Fyrirspurnin var endurtekin á 147. þingi með fyrirspurnum á þskj. 85 (85. mál) og 86 (86. mál) en þeim var ekki heldur svarað fyrir þinglok. Frá því að fyrirspurnirnar voru sendar til ráðherra og þangað til 147. þingi lauk liðu um sex mánuðir.“
    Leitað var til forsætisráðuneytisins vegna þessarar fyrirspurnar og fengust þaðan eftirfarandi upplýsingar:
    „Umrædd fyrirspurn var í upphafi móttekin í forsætisráðuneytinu 10. apríl 2017 og var þá óskað eftir munnlegu svari. Að undangenginni skoðun á fyrirspurninni var það niðurstaðan að rétt væri að óska eftir því við skrifstofu Alþingis, sbr. tölvubréf ráðuneytisins til Alþingis, dags. 23. apríl 2017, að fyrirspurnin yrði prentuð upp og henni beint til annars ráðherra enda væri málefnið sem spurt var um ekki á ábyrgðarsviði forsætisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra. Var í því sambandi jafnframt vísað til 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis, en samkvæmt því ákvæði ber að beina fyrirspurn til þess ráðherra sem ábyrgð ber á því opinbera málefni sem spurt er um. Hinn 30. apríl 2017 berst forsætisráðherra síðan tilkynning frá Alþingi um að umrædd fyrirspurn hafi verið prentuð upp með þeirri breytingu að óskað væri skriflegs svars í stað munnlegs. Engar efnislegar breytingar höfðu hins vegar verið gerðar á fyrirspurninni og var fyrri afstaða, um að efni fyrirspurnarinnar væri ekki málefnasviði forsætisráðherra, því ítrekuð. Efnislega sama fyrirspurnin var síðan lögð fram enn á ný á 147. löggjafarþingi og var framangreind afstaða þá jafnframt á ný ítrekuð í tölvubréfi til skrifstofu Alþingis.“
    Ráðherra telur að hér að framan komi fram þær upplýsingar sem máli skipta. Hin upphaflega fyrirspurn hefur nú enn á ný verið lögð fram og henni svarað.