Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 685  —  477. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (framlagning fjármálaáætlunar).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.

    Í stað orðanna „1. apríl“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 1. febrúar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Gildandi lög um opinber fjármál gera ráð fyrir því að fjármálaáætlun sé lögð fram eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Fjármálaáætlun er hins vegar mjög viðamikil þingsályktun þar sem farið er yfir stefnu stjórnvalda fyrir næstu fjárlög sem og næstu fimm árin. Ef afgreiðsla þingsins á að vera vel ígrunduð er nauðsynlegt að nægur tími sé gefinn til þinglegrar meðferðar þingsályktunarinnar, bæði hvað varðar umræður í þingsal og aðkomu fastanefnda en einnig fyrir umsagnaraðila. Þar sem fjárlög skulu vera fyrsta mál hvers haustþings væri ekki óeðlilegt að fyrsta mál vorþings væri fjármálaáætlun. Slík breyting yrði þó heldur viðamikil og er því lagt til að fjármálaáætlun eigi að liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar ár hvert.