Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 704  —  342. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur um heimahjúkrun.


     1.      Hvernig er þjónustu heimahjúkrunar skipt niður eftir heilbrigðisumdæmum?
    Í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins sinna tveir rekstraraðilar heimahjúkrun. Heimaþjónusta Reykjavíkur annast heimahjúkrun í Reykjavík, á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ á kvöldin og um helgar samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Auk þess annast Heimaþjónusta Reykjavíkur næturþjónustu á öllu höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins annast heimahjúkrun í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á dagvinnutíma í Mosfellsbæ.
    Í hinum sex heilbrigðisumdæmunum annast heilbrigðisstofnanirnar heimahjúkrun, hver á sínu starfssvæði. Undantekningar frá því eru þær að sveitarfélagið Hornafjörður annast heimahjúkrun í Hornafirði og Vopnafjarðarhreppur sér um heimahjúkrun í Vopnafirði, í báðum tilfellum samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands.
    Heimahjúkrun er veitt á grundvelli mats á þjónustuþörf. Fjárveitingar til heimahjúkrunar eru hluti af rekstrargrunni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsugæslusviðs heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni. Fjárveitingar til heimahjúkrunar á vegum Heimaþjónustu Reykjavíkur, sveitarfélagsins Hornafjarðar og Vopnafjarðarhrepps eru samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

     2.      Hvar er heimahjúkrun veitt allan sólarhringinn og um helgar?
    Í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins er heimahjúkrun veitt allan sólarhringinn alla daga ársins.
    Í heilbrigðisumdæmi Vesturlands er heimahjúkrun veitt allan sólarhringinn alla daga ársins á Akranesi. Annars staðar í umdæminu er heimahjúkrun eingöngu veitt á dagvinnutíma.
    Í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða er heimahjúkrun veitt frá 8–16 og 18–22 alla daga.
    Í heilbrigðisumdæmi Norðurlands er heimahjúkrun eingöngu veitt allan sólarhringinn og um helgar á Akureyri.
    Í heilbrigðisumdæmi Austurlands er heimahjúkrun hvergi veitt á næturnar. Dag-, kvöld- og helgarþjónusta er á Egilsstöðum, í Fjarðabyggð sunnan Oddsskarðs og í Neskaupstað. Frá 1. apríl 2018 er slík þjónusta einnig veitt á Seyðisfirði.
    Í heilbrigðisumdæmi Suðurlands er heimahjúkrun veitt á daginn, kvöldin og um helgar á Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum.
    Í heilbrigðisumdæmi Suðurnesja er þjónustutími heimahjúkrunar í Grindavík frá 8–20 alla daga ársins. Í Reykjanesbæ, Garðinum, Sandgerði og Vogum er heimahjúkrun veitt frá 8–23 alla daga ársins.
    Ef um sérstakar aðstæður íbúanna er að ræða er í öllum heilbrigðisumdæmunum reynt að bregðast við þannig að þörfum íbúanna sé mætt hvort sem er að degi til, á kvöldin eða um helgar.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra bjóða jafnt þjónustustig í öllum landshlutum?
    Eins og að framan greinir er þjónustustig heimahjúkrunar hæst í stærstu þéttbýliskjörnum hvers heilbrigðisumdæmis. Í dreifbýli er alla jafna ekki mannafli til að veita heimahjúkrun utan dagvinnutíma. Hver vitjun í heimahjúkrun getur tekið margar klukkustundir ef um mikið dreifbýli er að ræða og um langan veg að fara frá næstu heilsugæslustöð.
    Mikilvægt er að tryggja landsmönnum sem jafnastan aðgang að heilbrigðisþjónustu, þar með talið aðgang að heimahjúkrun. Ein leið til að auka jafnræði í þeim efnum er að nýta tæknina til að veita íbúum í dreifðari byggðum kennslu og ráðgjöf um meðferð við heilbrigðisvandamálum, þegar það á við. Einnig er mikilvægt að veitendur heimahjúkrunar eigi gott samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að skipulag og samþætting þjónustunnar verði sem best fyrir íbúana.
    Fjárveitingar til heimahjúkrunar hafa verið auknar verulega undanfarin ár, ekki hvað síst til að fjölga þeim þéttbýlisstöðum þar sem boðið er upp á kvöld- og helgarþjónustu heimahjúkrunar. Áfram verður unnið að því að efla heimahjúkrun, bæði almenna og sérhæfða.

     4.      Sér ráðherra heimahjúkrun sem úrræði sem myndi stytta biðlista eftir stofnanarými eða jafnvel fækka þeim?
    Undanfarin ár og áratugi hefur markmið stjórnvalda verið að gera fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili, þ.e. utan stofnana, með viðeigandi aðstoð ríkis og sveitarfélaga. Heimahjúkrun er forsenda þess að það takmark náist. Almenn heimahjúkrun hefur fyrst og fremst verið veitt af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Sérhæfð heimahjúkrun hefur verið veitt af hjúkrunarfræðingum sem eru sérhæfðir á ákveðnu sviði, svo sem í líknar- og lífslokameðferð. Nú er unnið að því að sérhæfð heimahjúkrun standi til boða í stærstu byggðakjörnunum.
    Í byrjun árs 2017 unnu velferðarráðuneytið, Landspítalinn, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónusta Reykjavíkur saman að tilraunaverkefni, að kanadískri fyrirmynd, um sérhæfða heimahjúkrun við veika aldraða einstaklinga í tveimur hverfum í Reykjavík. Einstaklingarnir sem þátt tóku í verkefninu áttu það sameiginlegt að vera hrumir, með margar sjúkdómsgreiningar og notuðu allir fleiri en tíu lyf. Þjónustan í þessu tilraunaverkefni var veitt af hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, heimilislæknum, öldrunarlæknum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum og klínískum lyfjafræðingum. Auk þess var sérstakt samskiptakerfi notað til rauntímasamskipta milli sjúklinga, aðstandenda og fagaðila. Verkefnið skilaði miklum árangri, ekki hvað síst í því að viðeigandi fagaðili gat brugðist hratt við breytingum á líðan einstaklinganna og hafið viðeigandi meðferð án þess að til kæmi innlögn á sjúkrahús. Fullur vilji er til að vinna að því að innleiða sérhæfða heimahjúkrun sem víðast hér á landi.
    Sérhæfð heimahjúkrun, veitt af mörgum mismunandi fagaðilum, er nauðsynleg ef ná á því markmiði að aldrað fólk og þeir sem búa við langvinna sjúkdóma geti búið á eigin heimili, utan stofnana, sem lengst. Unnið er að því í velferðarráðuneytinu að færa heilbrigðisþjónustu inn á heimili þessara einstaklinga með verkefninu Heilbrigðisþjónusta heim. Verkefnið Heilbrigðisþjónusta heim felur í sér samþætta þjónustu margra fagaðila sem vinna saman í teymi til að tryggja örugga og góða þjónustu þegar hennar er þörf. Slík þjónusta getur komið í veg fyrir eða seinkað þörf fyrir innlögn á stofnun eða flutning í hjúkrunarrými.