Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 707  —  300. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ráðningar ráðherrabílstjóra.


     1.      Hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu ráðherrabílstjóra á tímabilinu 2009 til dagsins í dag og hversu margir umsækjendur af hvoru kyni voru um hverja stöðu?
    Frá árinu 2009 til dagsins í dag hefur starf bílstjóra ráðherra í mennta- og menningarmálaráðuneyti verið auglýst einu sinni. Í júní 2016 var staðan auglýst og bárust þá 45 umsóknir frá 4 konum og 41 karli.

     2.      Hvernig var hæfi umsækjenda metið og hver tók ákvörðun um ráðningu? Var tekið tillit til 26. gr. jafnréttislaga við ráðningar og til reglunnar um að ef starfsumsækjendur af gagnstæðum kynjum teljast jafnhæfir og það hallar á annað kynið á tilteknu starfssviði, þá beri að veita umsækjanda af því kyni starfið?
    Við mat á umsóknum voru lagðir til grundvallar hæfnisþættir sem tilgreindir voru í auglýsingu um starfið, þar með talið hæfnisþættir sem getið er í 8. gr. reglugerðar um bifreiðamál ríkisins nr. 1281/2014. Við úrvinnslu umsókna til frekara mats voru valdar þær umsóknir þar sem umsækjendur höfðu menntun og reynslu á sviði áhættustjórnunar, öryggismála og neyðar- og flóttaaksturs. Fjórir karlmenn úr hópi umsækjenda uppfylltu þessi hæfisskilyrði en engin kona. Miðað við starfsreynslu þótti einn af þessum fjórum umsækjendum vel hæfur til að gegna starfi ráðherrabílstjóra. Lagt var til að ráðherra kallaði hann í viðtal og var svo gert. Í framhaldi af viðtali bauð ráðherra honum starfið.