Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 711  —  190. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).

Frá 3. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, kveða á um fjölda sæta í sveitarstjórnum eftir tilteknum fjöldabilum íbúa. Ber að líta á þá gjörð Alþingis sem lið í því að samræma fjölda kjörinna fulltrúa og í því að mynda samræmi í stjórnsýslu á sveitarstjórnarstigi. Einnig verður til með þessu fyrirkomulagi rými fyrir ólík framboð í sveitarstjórnarkosningum, allt eftir stærð sveitarfélaga.
    Lögin veita töluvert svigrúm og sjálfstæði til að ákveða fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Þessi háttur á lagasetningu um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa miðað við íbúafjölda sveitarfélaga er sá sami að stofni til annars staðar á Norðurlöndum. Aðferðin er í samræmi við lýðræðislega hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórna. Inntak hennar er að sveitarstjórnarfulltrúar gegni hlutverki sínu sem fulltrúar íbúanna í eðlilegu hlutfalli við mannfjölda í sveitarfélaginu og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúa. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að stjórnskipulagið sem lögin kveða á um að gildi um starfsemi sveitarfélaga miðar ekki að mjög stórum sveitarstjórnum hér á landi, heldur mun fremur að meðalstórum starfseiningum sem ná að taka ákvarðanir um rekstur og stjórnsýslu sveitarfélaga á skilvirkan hátt og bera á þeim ábyrgð.
    Þriðji minni hluti minnir á að almenn samstaða var um gerð og afgreiðslu laganna um sveitarstjórnarmál árið 2011 og þau ekki talin andstæð lýðræðislegum stjórnarháttum í sveitarfélögum eða sjálfsákvörðunarrétti þeirra.
    Í frumvarpi því sem nefndarálit þetta varðar (þskj. 264, 190. mál) er sveitarfélögum að mestu í sjálfsvald sett hver fjöldi sveitarstjórnarmanna er á hverjum stað. Umhverfis- og samgöngunefnd bárust fimm umsagnir og fyrir nefndina komu gestir frá borgarstjórn Reykjavíkur og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Eitt sveitarfélag (Seyðisfjörður) og Félag stjórnsýslufræðinga sendu jákvæða umsögn um frumvarpið en Reykjavíkurborg og Skeiða- og Gnúpverjahreppur voru því mótfallin. Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er fremur varkár en engu að síður svo gagnrýnin að draga má þá ályktun að sambandið sé andvígt frumvarpinu enda kom það fram í máli fulltrúa þess á fundi með nefndinni.
    Þriðji minni hluti telur að veruleg hætta sé á að umdeildar ákvarðanir innan sveitarstjórna um tiltekinn fjölda sveitarstjórnarfulltrúa, ýmist til fjölgunar eða fækkunar, verði að pólitísku bitbeini innan sveitarfélaga. 3. minni hluti telur farsælla að leiðbeinandi reglur löggjafans afmarki fjölda fulltrúa. Einnig er hætta á að óstöðugleiki liti störf sveitarstjórna með sveiflum í fjölda kjörinna fulltrúa frá einu kjörtímabili til annars. Eins og bent er á í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga getur ákvörðun um tiltölulega fáa fulltrúa miðað við íbúafjölda gert nýjum framboðum eða framboðum sem hafa fremur lítinn stuðning, en eru þó líkleg til sveitarstjórnarsetu, erfitt fyrir. Það er lýðræðinu ekki til framdráttar.
    Þá hefur við umfjöllun um breytingar á kosningalögum á yfirstandandi þingi ítrekað verið bent á að ekki sé heppilegt að gera breytingar á kosningalögum skömmu fyrir kosningar nema um sé t.d. að ræða leiðréttingu á atriðum laganna sem mjög margir telji úrelt eða gölluð. Það kann að eiga við í þessu tilviki.
    Þriðji minni hluti telur ekki tilefni vera til þeirra breytinga á sveitarstjórnarlögum sem frumvarpið boðar og leggst gegn samþykkt þess.

Alþingi, 4. apríl 2018.

Ari Trausti Guðmundsson,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.