Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 738  —  243. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, fjölda ársverka og þróun launakostnaðar.


     1.      Hver hefur þróun fjárveitinga til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verið frá árinu 2013 og til ársins 2017 sem og þróun í fjölda ársverka?
    Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Suðausturlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands voru sameinaðar í eina stofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 1. október 2014 með reglugerð nr. 674/2014. Fjárveitingar til starfsstöðvanna voru sameinaðar í eina fjárhæð í fjárlögum 2014.
    Rekstrarkostnaður starfsstöðva er aðgreindur í bókhaldi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og sýnir eftirfarandi tafla rekstrarkostnað ásamt fjölda ársverka hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum að frádregnum sértekjum árin 2013–2017 á verðlagi hvers árs í þúsundum króna.

2013 2014 2015 2016 2017
Rekstrarkostnaður 791.649 818.415 839.838 920.290 1.060.827
Breyting frá fyrra ári 26.766 21.423 80.452 140.537
Breyting í % 3,4% 2,6% 9,6% 15,3%
Ársverk 67,5 63,0 59,7 61,7 62,0

     2.      Hver hefur þróun fjárveitinganna verið á föstu verðlagi?
    Eftirfarandi tafla sýnir rekstrarkostnað árin 2013–2017 á meðalverðlagi ársins 2017.

2013 2014 2015 2016 2017
Rekstrarkostnaður 849.771 860.978 869.272 936.569 1.060.827
Breyting frá fyrra ári 11.207 8.294 67.297 124.258
Breyting í % 1,3% 1,0% 7,7% 13,3%

     3.      Hvað skýrir breytingar í fjölda ársverka?
    Haustið 2014 sameinuðust Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum og Heilbrigðisstofnun Suðurlands í eina stofnun; Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sbr. 1. tölul. Fækkun ársverka á starfsstöð stofnunarinnar í Vestmannaeyjum skýrist af því að ný og sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) lýtur nú einni yfirstjórn þannig að fækkun hefur átt sér stað í hópi æðstu stjórnenda, svo sem forstjóra, lækningaforstjóra, hjúkrunarforstjóra og innkaupastjóra. Öll þessi stöðugildi voru full stöðugildi, skilgreind hjá Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum en í dag eru þau skilgreind á skrifstofu forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, óháð eiginlegri staðsetningu starfsmannsins. Árið 2016 var eitt stöðugildi rekstrarstjóra hjá HSU í Vestmannaeyjum lagt niður. Á sama ári fengust til starfa tveir nýir heilsugæslulæknar í Vestmannaeyjum í stað verktakalækna áður og eru þau störf enn setin. Þessi atriði skýra í megindráttum breytingar og þróun ársverka hjá HSU í Vestmannaeyjum frá 2013 til ársloka 2017.

     4.      Hver hefur árleg þróun launakostnaðar starfsstétta stofnunarinnar verið í samanburði við þróun fjárveitinga sem ætlaðar eru til greiðslu launakostnaðar?
    Ekki er hægt að sjá fjárveitingar á fjárlögum til greiðslu launakostnaðar í Vestmannaeyjum. Eftirfarandi upplýsingar eru sóttar í bókhald stofnunarinnar og sýna launakostnað á starfsstöð stofnunarinnar í Vestmannaeyjum.

2013 2014 2015 2016 2017
Laun í þús. kr. 613.022 578.525 578.405 619.395 665.512
Meðallaun á hvert ársverk 9.082 9.183 9.689 10.039 10.734
Breyting frá fyrra ári 101 506 350 695
Breyting í % 1,1% 5,5% 3,6% 6,9%

    Eftirfarandi tafla sýnir heildarframlög til launa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands samkvæmt fjárlögum.

2013 2014 2015 2016 2017
Heildarframlag til launa hjá HSU í millj. kr. 2.749,5 2.811,2 2.901,0 3.344,4 3.693,7
Breyting frá fyrra ári, millj. kr. 61,7 89,8 443,4 349,3
Breyting í % 2,2% 3,2% 15,3% 10,4%
                        
     5.      Ef fjárveitingar hafa lækkað að raungildi frá því að stofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hverjar eru ástæður þess?
    Rekstrarkostnaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum að frádregnum sértekjum er 24,8% hærri árið 2017 en árið 2013 á meðalverðlagi ársins 2017. Verðlagshækkun sama tímabils er um 7,3%.