Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 748 — 215. mál.
2. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum (stjórn álaveiða).
Frá atvinnuveganefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Sigríði Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Guðna Guðbergsson og Inga Rúnar Jónsson frá Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, Árna Snæbjörnsson fyrir hönd Landssambands veiðifélaga, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Bjarna Jónsson og Halldór Arinbjarnarson. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bjarna Jónssyni, Bændasamtökum Íslands, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Samtökum náttúrustofa. Málið var áður lagt fram á 146. löggjafarþingi (271. mál) en varð ekki útrætt.
Meginregla gildandi laga um lax og silungsveiði er sú að álaveiðar eru heimilar allt árið. Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lög um lax- og silungsveiði ákvæði sem veiti ráðherra heimild til að setja reglur um að banna eða takmarka veiðar á ál um allt land eða á tilteknum svæðum ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.
Frumvarpið byggist á því að stærð álastofnsins hafi minnkað mjög og það mikið að frá árinu 2009 hafi áll verið á lista yfir tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu. Fram kom við umfjöllun um málið að álaveiðar séu bannaðar nær alls staðar í heiminum og leggst m.a. Alþjóðahafrannsóknaráðið gegn veiðum á ál meðan svo er ástatt fyrir stofninum.
Um það var rætt í nefndinni að nú þegar séu til staðar heimildir í lögum til þess að takmarka veiðar en nefndin tekur undir það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að bann eða takmörkun á álaveiðum verði að byggjast á skýrri lagaheimild sem nær til þessarar tegundar. Einnig áréttar nefndin það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að bann eða takmörkun á veiðum verði að byggjast á vísindalegum grunni og vera vel rökstutt. Nefndin telur eðlilegt að stofninn verði rannsakaður betur og að fram fari vöktun þar sem það á við svo unnt verði að styðjast við bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni.
Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Alþingi, 22. mars 2018.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, form., frsm. |
Njáll Trausti Friðbertsson. | Inga Sæland. |
Halla Signý Kristjánsdóttir. | Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. | Ásmundur Friðriksson. |
Kolbeinn Óttarsson Proppé. | Sigurður Páll Jónsson. | Álfheiður Eymarsdóttir. |