Ferill 318. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 753  —  318. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra.


    Frá og með 1. maí 2017 tóku tvö ráðuneyti til starfa eftir uppskiptingu innanríkisráðuneytisins, þ.e. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti annars vegar og dómsmálaráðuneyti hins vegar. Þær stofnanir sem fluttust til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins voru Vegagerðin, Samgöngustofa, Þjóðskrá Íslands, Byggðastofnun, Póst- og fjarskiptastofnun og rannsóknarnefnd samgönguslysa. Svarið miðast við rekstur þessara stofnana allt árið 2017 og koma upplýsingar frá þeim sjálfum.

     1.      Hvaða starfsmönnum ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra lagði ríkið til bifreið árið 2017? Hvert var heildarverðmæti bifreiðanna?
    Ráðuneytið leggur einungis ráðherra til bifreið, en bílstjóri ráðherra hefur alfarið umsjón með henni. Ein stofnun lagði starfsmanni til bifreið á árinu 2017 í þeim skilningi að um væri að ræða heimild til einkaafnota, en um er að ræða forstjóra Byggðastofnunar samkvæmt ákvörðun stjórnar stofnunarinnar. Stofnanir geta átt bifreiðar sem nýttar eru í þágu tiltekinna verkefna og eru þá til almennra nota hjá viðkomandi stofnun. Til dæmis á Póst- og fjarskiptastofnun tvær bifreiðar sem nýttar eru til verkefna víða um landið í tengslum við radíótruflanir og skoðanir á radíóbúnaði, m.a. um borð í skipum. Þjóðskrá Íslands er með sjö bifreiðar sem notaðar eru í daglegum rekstri stofnunarinnar, svo sem við skoðun fasteigna vegna ákvörðunar brunabótamats og fasteignamats og vegna tölvurekstrarþjónustu. Ekki er litið svo á að fyrirspurn þingmannsins beinist að slíkum bifreiðanotum.

Tafla 1. Bifreiðar til einkaafnota, fjöldi og verðmæti í árslok 2017.
Fjöldi bifreiða Verðmæti
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 1 9.996.110
Byggðastofnun 1 10.064.695

     2.      Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna ráðuneytisins annars vegar og þessara stofnana hins vegar árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar árið 2017?
    Laun sem tilgreind eru í töflunni hér á eftir innihalda allar launategundir, þ.m.t. orlofs- og eingreiðslur en eru án launatengdra gjalda. Hæstu laun hjá ráðuneytinu og einstökum stofnunum eru í öllum tilfellum vegna æðstu stjórnenda og eru ákvörðuð af kjararáði nema í tilfelli Samgöngustofu en þar er um að ræða laun flugumferðarstjóra, og er afturvirk og kjarasamningsbundin launaleiðrétting vegna ársins 2016 að fjárhæð um 2,6 millj. kr. innifalin í þeirri fjárhæð. Reiknuð bifreiðahlunnindi forstjóra Byggðastofnunar eru meðtalin í launum hans í töflunni. Inni í meðallaunum rannsóknarnefndar samgönguslysa eru bakvaktagreiðslur rannsakenda sem starfa hjá stofnuninni.

Tafla 2. Meðaltalsárslaun og hæstu laun árið 2017.
Heildarlaun á ári Hæstu laun
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 9.846.494 21.750.388
Vegagerðin 8.885.973 16.531.851
Samgöngustofa 9.458.578 23.971.251
Þjóðskrá Íslands 8.197.225 15.276.447
Póst- og fjarskiptastofnun 9.864.504 15.506.196
Byggðastofnun 8.749.046 16.847.600
Rannsóknarnefnd samgönguslysa 13.129.231 19.309.210

     3.      Fengu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildaraksturskostnaður ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar?
    Í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir endurgreiddan aksturskostnað hjá ráðuneytinu og stofnunum þess á árinu 2017 ásamt hæstu endurgreiðslum. Hæsti heildarkostnaðurinn var hjá Vegagerðinni, en starfsmannafjöldi er um 300 auk sumarstarfsmanna á meira en 20 stöðum á landinu. Flestir starfsmenn vinna við þjónustu vegakerfisins eða verklegar framkvæmdir. Stofnunin hefur talið hagkvæmt að greiða fyrir akstur starfsmanna á eigin bifreiðum ef kílómetrafjöldi er undir 15.000 km á ári. Hæsta endurgreiðsla var í tengslum við eftirlit með brúarmannvirkjum. Engar stofnanir greiddu fasta aksturssamninga á árinu 2017 fyrir utan Byggðastofnun sem greiddi einum starfsmanni fastar akstursgreiðslur hluta úr árinu.

Tafla 3. Endurgreiddur aksturskostnaður árið 2017.
Heildarkostnaður Hæsta endurgreiðsla
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 153.120 64.900
Vegagerðin 24.019.852 1.288.699
Samgöngustofa 157.190 75.680
Þjóðskrá Íslands 65.120 42.460
Póst- og fjarskiptastofnun 32.576 19.156
Byggðastofnun 969.210 523.270
Rannsóknarnefnd samgönguslysa 466.070 189.750

     4.      Fengu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins og þessara stofnana endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands eða utan árið 2017 og hver var þá heildarferðakostnaður ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns ráðuneytis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar?
    Endurgreiddur ferðakostnaður í formi dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innan lands og utan grundvallast á reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins nr. 1/2009, um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Í reglunum kemur m.a. fram að ef ekki er unnt að leggja fram reikninga eða um það samið, skulu ríkisstarfsmenn fá endurgreiddan fæðis- og gistikostnað á ferðalögum innan lands með dagpeningum eins og þeir eru ákveðnir af ferðakostnaðarnefnd, sbr. ákvæði í kjarasamningum fjármálaráðherra við ríkisstarfsmenn. Annar ferðakostnaður en fargjöld á ferðalögum ríkisstarfsmanna erlendis greiðist af dagpeningum sem ákveðnir eru af ferðakostnaðarnefnd, annars vegar vegna gistikostnaðar og hins vegar vegna fæðis og annars kostnaðar.
    Kostnaður vegna dagpeninga innan lands var hæstur hjá Vegagerðinni, sem skýrist af fjölda starfsmanna og eðli verkefna. Hæstu greiðslur voru til starfsmanna vinnuflokka, starfsmanna við mælingar, þjónustu, stjórnun og eftirlit ásamt verkfræðingum sem vinna við hönnun og framkvæmdir. Annars vegar er um að ræða dagpeningagreiðslur ferðakostnaðarnefndar fyrir BHM- og SFR-starfsmenn og hins vegar dagpeninga vegna starfsmanna í Starfsgreinasambandi Íslands. Vegagerðin hefur m.a. metið það svo að hagkvæmara sé að greiða dagpeninga en að halda úti mötuneytum vítt og breitt um landið. Hins vegar er gerð sú krafa að starfsmenn kaupi fæði í reikning ef það er talið hagkvæmara. Hæstu dagpeningagreiðslur innan lands eru vegna starfsmanna brúarvinnuflokka, en þeir eru á sólarhringsdagpeningum Starfsgreinasambandsins stóran hluta úr árinu.

Tafla 4. Dagpeningagreiðslur og heildarferðakostnaður árið 2017.
Dagpeningar innan lands Dagpeningar erlendis Heildarferðakostnaður
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 454.767 8.150.528 19.259.013
Vegagerðin 199.513.950 12.523.682 599.350.317
Samgöngustofa 1.273.980 29.476.334 45.846.189
Þjóðskrá Íslands 4.463.800 5.237.781 13.297.217
Póst- og fjarskiptastofnun 755.200 5.220.657 8.832.051
Byggðastofnun 6.217.100 2.676.113 17.328.507
Rannsóknarnefnd samgönguslysa 168.600 2.800.543 5.043.403

Tafla 5. Hæstu dagpeningagreiðslur árið 2017.
Dagpeningar innan lands Dagpeningar erlendis
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 59.500 708.670
Vegagerðin 4.845.200 710.963
Samgöngustofa 345.900 1.673.287
Þjóðskrá Íslands 672.400 1.222.283
Póst- og fjarskiptastofnun 436.000 1.088.461
Byggðastofnun 620.300 410.821
Rannsóknarnefnd samgönguslysa 61.600 1.102.563

     5.      Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins og hverrar stofnunar vegna símakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar ráðherra hins vegar?
    Algengt er að ráðuneyti og stofnanir taki þátt í símakostnaði starfsmanna, þá einkum vegna farsímanotkunar en í sumum tilfellum einnig vegna fjarvinnupakka/nettengingar. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið greiðir kostnað af farsímaáskrift fyrir þá starfsmenn ráðuneytisins sem kjósa að hafa aðgang að tölvupósti í farsímanum og er kostnaður um 3.300 kr. á starfsmann á mánuði. Kostnaður vegna síma ráðherra, ráðuneytisstjóra, aðstoðarmanna ráðherra og skrifstofustjóra er greiddur að fullu. Hjá Vegagerðinni nemur greiðsluþak á farsímaáskrift 10.000 kr. Starfsmenn greiða fyrir umframnotkun. Þeir sem þurfa að vinna heima geta sótt um greiðsluþátttöku í VPN-tengingu. Hjá Samgöngustofu er kostnaðarhlutdeild allt að 15.000 kr. á mánuði á starfsmann fyrir þá aðila sem þurfa að vera með símtæki á vegum stofnunarinnar. Þjóðskrá Íslands greiðir fyrir staðlaða áskriftarpakka sem kosta 2.400–3.500 kr. auk heimatengingar hjá þeim starfsmönnum sem þess þurfa starfa sinna vegna. Hjá Póst- og fjarskiptastofnun fengu allir 22 fastráðnir starfsmenn stofnunarinnar greidda hlutdeild í símakostnaði á árinu 2017 að hámarki 5.000 kr. vegna farsíma og 9.000 kr. vegna ljósleiðaratengingar. Byggðastofnun greiðir að hámarki 5.000 kr. á mánuði vegna farsímanotkunar sérfræðinga og forstöðumanna og auk þess er greitt fyrir nettengingu hjá forstöðumönnum og forstjóra.

Tafla 6. Greiddur símakostnaður vegna starfsmanna árið 2017.
Fjöldi starfsmanna Heildarkostnaður Hæsta greiðsla
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 33 1.516.076 108.580
Vegagerðin 250 24.978.421 113.168
Samgöngustofa 77 2.667.022 127.150
Þjóðskrá Íslands 57 3.870.148 142.154
Póst- og fjarskiptastofnun 22 3.750.000 168.000
Byggðastofnun 20 1.405.027 114.751
Rannsóknarnefnd samgönguslysa 7 506.735 124.221

     6.      Fengu starfsmenn ráðuneytisins eða þessara stofnana greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður ráðuneytisins og hverrar stofnunar vegna fatapeninga?
    Bílstjóri ráðherra fékk greiddan fatastyrk á árinu 2017 og nam fjárhæð hans 50.000 kr. Samgöngustofa greiddi tíu starfsmönnum fatastyrki samkvæmt stofnanasamningi og þremur starfsmönnum samkvæmt kjarasamningi. Tveir starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar, sem starfa við skipaskoðanir, fá greidda fatapeninga vegna kaupa á hlífðarfatnaði í samræmi við ákvæði í kjarasamningum Rafiðnaðarsambands Íslands. Hjá Byggðastofnun fá allir starfsmenn fatastyrk sem nam um 114.000 kr. á starfsmann á síðasta ári. Taflan sýnir greidda fatastyrki til starfsmanna, en ekki er tekið tillit til fatnaðar sem ríkið útvegar starfsmönnum vegna sérstakra krafna, svo sem hlífðarhjálma, hlífðarfatnaðar og þess háttar.

Tafla 7. Greiddir fatastyrkir til starfsmanna og fjöldi.
Fjöldi starfsmanna Heildarkostnaður
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 1 50.000
Samgöngustofa 13 564.383
Póst- og fjarskiptastofnun 2 136.430
Byggðastofnun 24 2.508.240