Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 772  —  528. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um hlutabréfaeign LSR í fyrirtækjum á markaði.

Frá Þorsteini Sæmundssyni.


     1.      Hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið markað sér eigendastefnu vegna hlutabréfaeignar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í fyrirtækjum á markaði? Ef svo er, hefur sú eigendastefna verið birt og þá hvar? Ef ekki, hyggst fjármála- og efnahagsráðherra beita sér fyrir gerð og birtingu eigendastefnu?
     2.      Hefur LSR krafist stjórnarsetu í fyrirtækjum sem hann á verulegan hlut í, t.d. í N1, HB Granda, Högum og fleiri fyrirtækjum? Ef ekki, hefur LSR leitað eftir samkomulagi við aðra lífeyrissjóði um sameiginlega fulltrúa í stjórnum félaga á markaði í krafti hlutafjáreignar?
     3.      Hefur LSR gert athugasemdir á aðalfundum eða hluthafafundum við há laun stjórnenda í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn á hlut í?
     4.      Telur fjármála- og efnahagsráðherra að launakjör forstjóra þeirra fyrirtækja sem LSR á verulegan hlut í geti skapað vandamál í kjaraviðræðum sem munu eiga sér stað á næstunni? Ef svo er, mun ráðherra beita sér fyrir því að fulltrúar hans í stjórn LSR geri athugasemdir við fyrrgreind launakjör og knýi á um að launin verði lækkuð?