Ferill 529. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 773  —  529. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með verðtryggðum lánum.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hversu oft frá gildistöku 19. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, hefur Fjármálaeftirlitið óskað eftir upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum um útreikninga vaxta og verðtryggingar lánsfjár og gert sérstakar athuganir, þ.m.t. vettvangsathuganir ef tilefni er til, sbr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi?
     2.      Hversu oft frá aldamótum hefur Fjármálaeftirlitið talið sig þurfa að sinna leiðbeiningaskyldu og fylgja eftir ábendingum sem stofnuninni berast og varða verðtryggingu lánsfjár? Að hvaða þáttum verðtryggingar lánsfjár lúta leiðbeiningar stofnunarinnar og þær ábendingar sem hún hefur talið ástæðu til að fylgja eftir? Hvernig gerir Fjármálaeftirlitið grein fyrir niðurstöðum slíkra mála opinberlega og gagnvart hlutaðeigandi aðilum?
     3.      Hversu oft frá aldamótum hefur Fjármálaeftirlitið fylgt því eftir að brugðist sé með viðeigandi hætti við dómum sem lúta að ágreiningi um vexti og verðtryggingu þar sem eftirlitsskyldir aðilar eiga í hlut? Um hvaða dóma ræðir í þessu sambandi og hvernig hefur Fjármálaeftirlitið gert opinberlega grein fyrir mati sínu á áhrifum og fordæmisgildi umræddra dóma fyrir aðila að lánasamningum?
     4.      Hvaða viðmið, opinber eða önnur, notast Fjármálaeftirlitið við þegar athugað er hvort útreikningar á vöxtum og verðbótum sem eftirlitsskyldir aðilar innheimta samræmist heimildum í lögum? Hvers vegna hafa formúlur sem lýsa útreikningum sem heimilaðar eru í lögum ekki verið birtar opinberlega? Telur ráðherra koma til greina að birta opinbera vefreiknivél sem nota mætti til að sannreyna að útreikningar lánastofnana á vöxtum og verðtryggingu samræmist heimildum í lögum?
     5.      Geta einstaklingar og lögaðilar, sem telja að ekki sé rétt staðið að útreikningi á vöxtum eða verðtryggingu samkvæmt lánasamningi, beint kvörtunum þar að lútandi til Fjármálaeftirlitsins og fengið leyst úr þeim með formlegri málsmeðferð sem leidd væri til lykta með stjórnvaldsákvörðun? Ef ekki, hvert geta þeir leitað slíkrar úrlausnar? Telur ráðherra fullnægjandi úrræði vera fyrir hendi fyrir einstaklinga og lögaðila til að leita slíkrar úrlausnar?
     6.      Telur ráðherra að eftirlit með hinum verðtryggða hluta fjármálamarkaðarins hér á landi hafi borið tilætlaðan árangur? Hvernig rökstyður ráðherra svar sitt í þessu efni?


Skriflegt svar óskast.