Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 788  —  274. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um ráðstöfun á eignum til LSR úr safni Lindarhvols ehf.


     1.      Hvaða aðferðum var beitt til að meta virði tiltekinna eigna úr safni Lindarhvols ehf. sem ráðstafað var um síðustu áramót til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sbr. upplýsingar um verðmat að fjárhæð 19 milljarðar kr. í minnisblaði ráðuneytisins frá 27. desember 2017?
    Áætlað verðmæti umræddra eigna er samtals 19 milljarðar kr. Verðmatið byggist á mati Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lindarhvols við áramót. Við framsal þeirra til LSR lækkar skuldbinding ríkissjóðs um samsvarandi fjárhæð. Ríkissjóður ber áfram ábyrgð á skuldbindingum B-deildar LSR, umrædd ráðstöfun hefur engin áhrif þar á. Standi umræddar eignir ekki undir því verðmati sem sett er á þær nú hefur það að óbreyttu áhrif til hækkunar á ófjármögnuðum skuldbindingum ríkissjóðs í framtíðinni. Ef umræddar eignir skila að sama skapi meiri verðmætum í framtíðinni en núverandi mat segir til um hefur það að óbreyttu jákvæð áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs til lækkunar í framtíðinni. Með ráðstöfun á umræddum eignum til LSR næst það markmið í umsýslu eignanna að hámarka virði þeirra fyrir ríkissjóð með lágmarkstilkostnaði.

     2.      Hvaða stofnun eða annar aðili hafði umrætt verðmat með höndum? Hafi verðmatið verið unnið af utanaðkomandi sérfræðingum óskast upplýsingar um hverjir það voru.
    Vísað er til svars við 1. tölulið fyrirspurnar þessarar. Verðmatið byggist á mati LSR og Lindarhvols. Ekki var um að ræða utanaðkomandi aðila hvað varðar fjármála- og efnahagsráðuneytið en ráðuneytið hefur ekki upplýsingar varðandi LSR, sbr. svar við 3. tölulið.

     3.      Hvaða greining hefur farið fram af hálfu LSR á umræddum eignum og aðstöðu sjóðsins til að innheimta þær í ljósi þess að þær kunna að vera vandmeðfarnar vegna ákvæða í hluthafasamkomulögum, krossveðbanda og ýmissa skilyrtra ákvæða? Voru þær greiningar unnar af sérfræðingum sjóðsins eða utanaðkomandi sérfræðingum? Hver greiddi kostnaðinn við greiningarnar?
    Ríkissjóður lagði fram upplýsingar og gögn um eignasafnið. Sérfræðingar sjóðsins yfirfóru framlagðar upplýsingar og gögn. Ekki var lagt út fyrir kostnaði við greiningu á eignunum. Varðandi aðstöðu sjóðsins til að innheimta eignirnar þá hefur LSR yfir að ráða starfsfólki með sérhæfða þekkingu sem sinnir eignaumsýslu og fjárfestingum á vegum sjóðsins. LSR er því í góðri aðstöðu til að fara með umsjón og innheimtu umræddra eigna.

     4.      Hvaða áætlanir liggja fyrir um kostnað vegna sérfræðiálita og hugsanlegs málarekstrar fyrir dómstólum vegna álitaefna sem uppi kunna að vera um umræddar eignir? Verður sá kostnaður greiddur af LSR eða ráðuneytinu?
    Komi í ljós við endanlega lúkningu eignasafnsins að verðmæti þeirra reynist að lokum hærra eða lægra en sem nemur fjárhæðinni verður fjárhæðin aðlöguð til samræmis og þannig mun skuldbinding ríkissjóðs gagnvart LSR lækka eða hækka sem því nemur. Einnig er LSR ljóst að ríkissjóður eignaðist eignasafnið í tengslum við uppgjör á stöðugleikaframlagi og þar af leiðandi mun ríkissjóður hvorki samþykkja skaðleysisyfirlýsingar í tengslum við framsalið né veita sérstakar ábyrgðaryfirlýsingar vegna þeirra. Allur kostnaður vegna eignanna frá framsali þeirra er greiddur af LSR.

     5.      Í hve mörgum hlutafélögum fékk LSR afhent hlutafé, hve hátt nafnverð í hverju félagi og hve háan eignarhlut miðað við hlutaskrá?

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     6.      Hvað fékk LSR afhentar margar lánaeignir og hver er fjöldi greiðenda að þeim lánaeignum?
    Þær lánaeignir sem LSR fékk framseldar voru á átta aðila. Ekki hefur verið upplýst um einstakar lánaeignir þar sem um er að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar sem varða einstaklinga og fyrirtæki.

     7.      Hefur fyrrgreint verðmat verið borið undir Ríkisendurskoðun? Ef svo er ekki, hver er skýringin á því?
    Ríkisendurskoðun fékk afrit af verðmati eignanna og samningnum við LSR. Unnið er að því að ljúka uppgjöri ríkissjóðs fyrir 2017 og endurskoðun ársreiknings og gera má ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið á vormánuðum eða í byrjun sumars, sbr. fyrra ár. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar sem koma að endurskoðun ársreiknings B-deildar LSR hafa fengið kynningu á verðmati eignanna sem notað var við skráningu þeirra í verðbréfakerfi sjóðsins.

     8.      Liggur fyrir skriflegt álit Ríkisendurskoðunar um verðmatið og hæfi LSR til að innheimta umræddar eignir?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um afstöðu Ríkisendurskoðunar til hæfis LSR til að innheimta eignirnar.

     9.      Hefur LSR áður annast innheimtu eigna sem svipað háttar til með og fyrrgreindar eignir? Sé svo, óskast upplýsingar hvaða eignir um var að ræða og stutt lýsing á sérstöðu þeirra eigna.
    Umræddar eignir eru allt eignir sem falla vel að núverandi eignasafni sjóðsins, bæði hlutafé og lánaeignir, og eru vel til þess fallnar að vera í umsýslu sjóðsins, þar sem starfsfólk með sérhæfða þekkingu er fyrir hendi til þess að hámarka virði þeirra á þeim tíma sem þarf til þess. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um einstakar eignir aðrar en umræddar stöðugleikaeignir í eignasafni sjóðsins.

     10.      Hvað fela sérstakir skilmálar lánaeignanna í sér? Hvað skilur skilmála lánaeignanna frá almennum lánaeignum sem skráðar eru á markaði?
    Þær lánaeignir sem voru framseldar til B-deildar LSR eru mismunandi, með ólíka skilmála, bæði hvað varðar kjör, lánstíma, endurgreiðsluferil o.s.frv. Þá hefur hluti framseldra eigna verið í endurskipulagningu. Erfitt er að bera saman þá skilmála umræddra eigna við almennar lánaeignir á markaði þar sem þær eru einnig margvíslegar og margar.