Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 789  —  106. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um afgreiðslu umsókna um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar.


     1.      Hver er meðalafgreiðslutími umsókna um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 111/2016?
    Á árinu 2016 voru samþykkt lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Með þeim var lögfestur stuðningur í formi skattfrjáls séreignarsparnaðar til handa einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, þó að hámarki í tíu ár frá því að heimild er veitt. Þetta úrræði kom til framkvæmda 1. júlí 2017. Samhliða voru eldri úrræði sem er að finna í lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, framlengd til 30. júní 2019.
    Meðalafgreiðslutími umsókna um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 111/2016 liggur ekki fyrir. Umsóknarferlið fór hægt af stað, auk þess sem ýmsir tæknilegir hnökrar komu upp þegar afgreiðslukerfið var opnað, enda um flókið samstarfsverkefni margra aðila að ræða (ríkisskattstjóra, lánveitenda, lífeyrissjóða, Þjóðskrá Íslands og hugbúnaðarfyrirtækja). Afgreiðslutími hefur af framangreindum ástæðum verið lengri en ella, svipað og gerðist varðandi eldra úrræði en umsóknir eru afgreiddar eftir aldursröð.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra höfðu í lok marsmánaðar átt sér stað 105 útgreiðslur vegna húsnæðiskaupa til aðila sem höfðu nýtt sér úrræðið (tímabilið september 2017 – mars 2018), samtals 53,6 millj. kr, Auk þess hafa 13 aðilar nýtt sér úrræðið í formi greiðslna inn á lán í hverjum mánuði það sem af er ári, samtals um 3,3 millj. kr. Rétt er að taka fram að seinni hópurinn gæti einnig hafa nýtt sér útgreiðsluúrræðið og er því ekki unnt að leggja þessa tvo hópa saman hvað fjölda varðar. Til upplýsinga þá nýttu samanlagt um 45 þúsund aðilar sér eldra úrræði, ýmist til að greiða inn á lán, samtals um 42,7 milljarða kr., eða sem útgreiðslu til húsnæðiskaupa, samtals um 1,9 milljarð kr.

     2.      Eru einhverjar reglur í gildi um hámarksafgreiðslutíma slíkra umsókna?
    Í lögum nr. 111/2016 er ekki að finna nein ákvæði um afgreiðslutíma umsókna og gilda því almennar reglur stjórnsýsluréttarins þar um. Ríkisskattstjóri leggur mikla áherslu á að ljúka afgreiðslu allra umsókna eins fljótt og auðið er.

     3.      Hvaða sjónarmið koma helst til athugunar við afgreiðslu umsóknanna?
    Við afgreiðslu umsókna er ríkisskattstjóri bundinn af skilyrðum laga nr. 111/2016. Þau sjónarmið sem koma helst til athugunar eru hvort um fyrstu kaup umsækjanda sé að ræða, hvort viðkomandi hafi aflað sér eignarinnar einn eða í félagi við einn annan einstakling, hvort umsækjandi eigi 30% eða meira í fasteigninni, hvort umsækjandi hafi áður sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna sömu fasteignakaupa og þá hvort og hversu mikið umsækjandi hafi áður ráðstafað af séreignarsparnaði sínum og hvort aðili hafi sótt um ráðstöfun úr sjóði sem er þátttakandi í verkefninu.

     4.      Hvaða áhrif hefur langur afgreiðslutími á mánaðarlegar afborganir af lánum umsækjenda ef inngreiðslur á lán hefjast ekki fyrr en nokkum mánuðum eftir að sótt er um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar? Svar óskast með útreiknuðu meðaltali miðað við biðtíma þeirra umsókna um innborgun á lán sem hafa verið afgreiddar.
    Umsækjandi greiðir afborganir af láninu samkvæmt lánssamningi þar til greiðslur úr séreignarsjóði fara að berast. Ráðstöfun inn á lán getur verið tvenns konar, þ.e. annaðhvort inn á höfuðstól þess eða inn á afborganir þess, en síðari leiðin á einungis við um óverðtryggð lán. Áhrifin geta af þessum sökum verið mismunandi. Þá liggja ekki fyrir í opinberum gögnum upplýsingar um lánskjör, svo sem vaxtaprósentu, lánstíma, hversu örar afborganir eru eða önnur atriði sem lántakandi kann að hafa samið sérstaklega um.
    Ráðuneytið hefur þar af leiðandi ekki forsendur til að svara hvert útreiknað meðaltal miðað við biðtíma geti mögulega verið.