Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 795  —  346. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum (fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Þór Þorvaldsson og Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur frá velferðarráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Búfesti hsf., Íbúðalánasjóði og Landssambandi eldri borgara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á d-lið 1. mgr. 5. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003, með síðari breytingum, þannig að húsnæðissamvinnufélögum verði áfram heimilt að taka lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum ásamt því að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum en jafnframt verði þeim heimilt að taka lán á almennum markaði auk þess að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa. Þannig munu húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að velja þá fjármögnun sem að þeirra mati er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi og að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni. Þannig aukast líkur á að rekstur húsnæðissamvinnufélaga verði sjálfbær sem eykur húsnæðisöryggi búseturéttarhafa.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 17. apríl 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason.