Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 798  —  118. mál.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um að halda ráðstefnu um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Jörund Valtýsson og Auðun Atlason frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til að beita sér ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands fyrir því að halda sameiginlega ráðstefnu um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Tillagan er lögð fram á grundvelli samhljóða ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2016 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22. ágúst 2016 í Qaqortoq á Grænlandi.
    Í greinargerð kemur m.a. fram að eftir lok kalda stríðsins urðu vestnorrænu löndin þrjú í auknum mæli jaðarsvæði í alþjóðastjórnmálum. Deilur Rússa og NATO og aukinn áhugi Kína á vestnorrænu löndunum hafa beint sjónum manna á ný að Vestur-Norðurlöndum í alþjóðastjórnmálunum.
    Nefndin er jákvæð gagnvart því að haldin verði ráðstefna um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála. Slíka ráðstefnu má skipuleggja með ýmsum hætti, t.d. í samráði við háskólasamfélagið og stofnanir innan þess sem beina sjónum sínum að alþjóðamálum, smáríkjarannsóknum og norðurslóðamálum. Nefndin telur ekki augljóst að slíkt ráðstefnuhald sé betur komið á hendi stjórnvalda vestnorrænu landanna en þinga þeirra eða fræðasamfélags eða í samvinnu þessara aðila. Slíkt ráðstefnuhald gæti jafnvel farið fram í nafni Vestnorræna ráðsins með öflugum stuðningi aðildarþinganna.
    Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að kanna möguleika á að halda ráðstefnu um stöðu Íslands, Færeyja og Grænlands í nýjum veruleika alþjóðastjórnmála í samstarfi við Lögþing Færeyja og Landsþing Grænlands og fræðistofnanir á þessu sviði í vestnorrænu löndunum.

    Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lýsir sig samþykka áliti þessu.

Alþingi, 16. apríl 2018.


Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Álfheiður Eymarsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson.
Logi Einarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.