Ferill 355. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 813  —  355. mál.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um eiturefnaflutninga um íbúðahverfi.


     1.      Hve mikið var flutt um íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu hvert ár 2012–2017 af í fyrsta lagi eldsneyti, í öðru lagi tilbúnum efnaáburði og í þriðja lagi öðrum eiturefnum til atvinnurekstrar?
    Flutningur á hættulegum farmi er í höndum einkaaðila. Þeim er gert að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, m.a. að ökutæki uppfylli kröfur og að bílstjórar á þeirra vegum hafi tilskilin ökuréttindi auk annarra atriða eins og að ofan greinir. Aðrar kröfur eru ekki gerðar og þar af leiðandi liggja engar tölulegar upplýsingar fyrir um flutningana hjá stjórnvöldum.

     2.      Hversu margar voru ferðirnar árlega með hvert þessara efna og hvað voru flutningatækin mörg?
    Hvorki í umferðarlögum né í reglugerð nr. 1077/2010, um flutning á hættulegum farmi á landi, eru ákvæði um að teknar séu saman upplýsingar um flutning á hættulegum farmi á landi, hvorki um magn, fjölda þeirra ferða sem farnar eru á vegum með slíkan farm né um fjölda ökutækja.
    Reglur um flutning á hættulegum farmi á landi er að finna í reglugerð nr. 1077/2010. Reglugerðin er sett með stoð í umferðarlögum, nr. 50/1987. Reglurnar eru settar á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins, Directive 2008/68/EC of the European Parliament and of the Council of 24 September 2008 on the inland transport of dangerous goods. Markmiðið með reglugerðinni er að tryggja að flutningur hættulegs farms á landi fari þannig fram að hætta á líkams- og heilsutjóni svo og eignatjóni og umhverfisspjöllum verði í lágmarki. Tilskipun Evrópusambandsins, Directive 2008/68/EC, er auk þess sett með það markmið í huga að sambærilegar reglur gildi innan ríkja í EES.
    Samkvæmt reglugerðinni hafa þrír opinberir aðilar hlutverki að gegna við að framfylgja henni: Samgöngustofa, Vinnueftirlitið og lögreglan. Hlutverk þeirra skiptist þannig:
    Samgöngustofa ber ábyrgð á að viðurkenna og skrá ökutæki sem nota á til flutnings á hættulegum farmi. Samgöngustofa ber einnig ábyrgð á viðurkenningu öryggisráðgjafa, sem flutningsaðilum sem flytja hættuleg efni er skylt að hafa. Þá ber stofnunin ábyrgð á að halda námskeið sem bílstjórar þurfa að sitja til að öðlast heimild til að flytja hættuleg efni, svokölluð ADR-réttindi, auk þess að halda próf í kjölfar námskeiðanna. ADR-réttindi eru byggð á samningi sem gerður var um flutning hættulegra efna undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og hlaut nafnið The European Agreement concerning the International Carriage of Dangerous Goods by Road. Samningurinn var leiddur í lög Evrópusambandsríkja með ofangreindri tilskipun. Tilskipunin var síðan tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Eftirlitshlutverk Samgöngustofu á grundvelli reglugerðarinnar er fólgið í því að gæta þess að búnaður ökutækis sé við skráningu fullnægjandi og í samræmi við ADR-reglurnar.
    Vinnueftirlitið hefur yfirumsjón með framkvæmd þeirra atriða reglugerðarinnar sem lúta að flokkun efna, viðurkenningu umbúða auk þeirra prófana og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglum. Vinnueftirlitið sér um útgáfu réttindaskírteina (ADR-skírteina) og fer einnig með eftirlit með því að störf öryggisráðgjafa fylgi reglum.
    Lögregla hefur eftirlit með ökutækjum á vegum úti sem flytja hættulegan farm í samræmi við reglur nr. 895/2016, um sérstakt vegaeftirlit lögreglu.