Ferill 26. máls. Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 816  —  26. og 27. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rún Knútsdóttur og Þór Þórarinsson frá velferðarráðuneytinu, Aðalbjörgu Traustadóttur, Agnesi Sif Andrésdóttur, Birgi Björn Sigurjónsson, Regínu Ástvaldsdóttur og Ebbu Schram frá Reykjavíkurborg, Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Rannveigu Traustadóttur frá Rannsóknasetri í fötlunarfræðum, Ragnar Gunnar Þórhallsson frá NPA-miðstöðinni, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formann málefnahóps Öryrkjabandalags Íslands um sjálfstætt líf, Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, Freyju Haraldsdóttur og Sigríði Jónsdóttur frá Tabú, Hildi Margréti Jóhannsdóttur og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Björn Þór Rögnvaldsson, Eyjólf Sæmundsson og Þórunni Sveinsdóttur frá Vinnueftirlitinu og Guðnýju Stefánsdóttur og Tryggva Sigurðsson frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Umsagnir bárust frá Akureyrarkaupstað, Alþýðusambandi Íslands, Ási styrktarfélagi, Barnaverndarstofu, Bergrisanum, þjónustusvæði Suðurlands um málefni fatlaðs fólks, Borgarbyggð, EAPN á Íslandi, Einhverfusamtökunum, Endurhæfingu – þekkingarsetri, Eyjafjarðarsveit, Félagi áhugafólks um Downs-heilkenni, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Fljótsdalshéraði, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Hafnarfjarðarbæ, Hrunamannahreppi, Ísafjarðarbæ, Kópavogsbæ, Landssamtökunum Þroskahjálp, málefnahópi Öryrkjabandalags Íslands, Mosfellsbæ, Norðurþingi, NPA-miðstöðinni svf., Öryrkjabandalagi Íslands, Persónuvernd, Rangárþingi ytra, Rannsóknasetri í fötlunarfræðum, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sigurði Sigurðssyni, Sjónarhóli – ráðgjafarmiðstöð ses., Sveitarfélaginu Skagafirði, Tabú, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni barna, Umhyggju – félagi til stuðnings veikum börnum, Valdimar Össurarsyni, Vestmannaeyjabæ, Vinnueftirlitinu, Þroskaþjálfafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir (26. mál) er gerð tillaga um ný heildarlög í stað laga um málefni fatlaðs fólks. Lagt er til að lögfestar verði skýrar reglur um þjónustu sem fatlað fólk á rétt á til að mæta þörfum einstaklinga sem þarfnast meiri þjónustu en hingað til hefur verið gert ráð fyrir í almennum lögum. Gert er ráð fyrir að ákvæði um almenna þjónustu við fatlað fólk verði í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga en félags- og jafnréttismálaráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á þeim lögum (27. mál) samhliða frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

1. Almennt um forsögu og efnistök frumvarpanna.
    Fyrirliggjandi frumvörp eiga sér langa forsögu og mikinn undirbúning. Með þingsályktun um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun, nr. 16/138, sem samþykkt var á Alþingi 8. júní 2010 var félags- og tryggingamálaráðherra falið að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk á Íslandi. Árið 2011 var umsjón með þjónustu við fatlað fólk færð frá ríki til sveitarfélaga. Við þá yfirfærslu var notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest sem samstarfsverkefni og stefnt að því að hún yrði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk árið 2014. Sett var á stofn verkefnisstjórn eftir samþykkt laganna sem átti að fylgja því eftir. Verkefnisstjórnin var skipuð fulltrúum ráðherra, hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og sveitarfélaga en hún átti víðtækt samráð við fjölmarga aðila, hélt vinnufund með hagsmunaðilum og starfsfólki félagsþjónustu sveitarfélaga og stóð fyrir fjölmennri ráðstefnu.
    Árið 2014 skipaði félags- og húsnæðismálaráðherra starfshóp um endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en einnig skyldi vinna að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Áður en starfshópurinn lauk störfum voru drög að tillögum settar á vef velferðarráðuneytis þar sem gefinn var kostur á að skila inn umsögnum. Tillögur hópsins voru einnig sendar undirstofnunum ráðuneytisins til umsagnar. Starfshópurinn sem var skipaður fjölbreyttum hópi fólks skilaði tillögum sínum til ráðherra í október 2016 og byggjast frumvörpin á tillögum hans.
    Með breytingum þeim sem gerðar eru með frumvörpunum tveimur er lagt til að um almenna þjónustu við fatlað fólk gildi ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og með fyrirliggjandi frumvarpi til laga um breytingu á þeim lögum eru gerðar þónokkrar breytingar þannig að almennri stoðþjónustu er gert hærra undir höfði. Sé hins vegar þjónustuþörf einstaklings meiri en kveðið er á um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga taka við ákvæði frumvarps til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir.

2. Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir.
Helstu athugasemdir, sjónarmið nefndarinnar og tillögur að breytingum.

    Nefndinni bárust 43 umsagnir um málið auk þess sem nefndin kallaði til fjölda umsagnaraðila og aðra gesti til að fara yfir málið. Á heildina litið voru umsagnaraðilar jákvæðir í garð málsins og telja flestir að um mikilvægt skref í átt að réttarbótum fyrir fatlað fólk sé að ræða. Engu síður bárust nefndinni athugasemdir um einstaka atriði sem umsagnaraðilar töldu rétt að bæta úr. Eftir nána skoðun og umfjöllun nefndarinnar taldi hún rétt að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu.

Þýðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
    Þau sjónarmið komu fram að sú þýðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, sem fullgilt var með þingsályktun um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Alþingis samþykkti 20. september 2016, væri ónákvæm og þyrfti endurskoðunar við. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og beinir því til ráðuneytisins að samráð verði haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og fræðasamfélagið um að meta með hvaða hætti megi bæta þýðingu SRFF.

Heiti frumvarpsins.
    Í umsögnum var rætt um heiti laganna og að orðin „miklar stuðningsþarfir“ gætu falið í sér mismunun á fólki eftir fötlun. Umsagnaraðilar benda á mikilvægi þess að tryggja jafnræði og að fatlað fólk sem þarf á þjónustu að halda vegna fötlunar sinnar og fær þjónustu sem það á rétt á og þarf á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, eigi alls ekki og megi alls ekki njóta lakari réttar en þeir sem fá þjónustu á grundvelli ákvæða þessa frumvarps. Lögðu umsagnaraðilar til að orðið „langvarandi“ kæmi í stað orðsins „miklar“. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingu á heiti laganna þar að lútandi. Nefndin leggur þó áherslu á að þrátt fyrir þessa breytingu er ekki um efnislega breytingu á frumvarpinu að ræða.

Skilgreiningar.
    Þónokkrir umsagnaraðilar gagnrýna skilgreiningar frumvarpsins á annars vegar fötlun og hins vegar á fötluðu fólki. Bent er á að SRFF skilgreini fötlun út frá því að umhverfið skapi mörg og jafnvel flest vandamál og hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir í daglegu lífi en ekki að hinar einstaklingsbundnu læknis- og líffræðilegu skerðingar leiði af sér flest eða öll vandamál fatlaðs fólk. Þannig er áhersla lögð á hlutverk umhverfisins í að skapa fötlun einstaklingsins og hindra fulla samfélagsþátttöku hans. Samkvæmt umsagnaraðilum er þessu öfugt farið í frumvarpinu þar sem áherslan sé lögð á að fötlun sé afleiðing skerðingar og hindrana. Þá er í skilgreiningu frumvarpsins kveðið á um að skerðingar viðkomandi skuli vera „viðvarandi“ sem umsagnaraðilar benda á að sé mun sterkara orðalag en í SRFF þar sem fjallað er um „langvarandi“ skerðingar. Nefndin tekur undir ábendingar umsagnaraðila að mestu leyti og gerir nokkrar breytingar á skilgreiningu orðsins „fötlun“.
    Varðandi skilgreiningu á fötluðu fólki leggja umsagnaraðilar áherslu á að orðin „af þeim sökum“ verði felld út enda sé þau ekki að finna í markmiðsgrein SRFF. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og leggur til þá breytingu.
    Til viðbótar við framangreindar breytingar á skilgreiningum leggur nefndin til að skilgreiningu á starfsleyfi verði bætt við 2. gr. Þá leggur hún til smávægilegar breytingar á 6. og 9. tölul. 2. gr. til samræmis við þá viðbót.

Mismunun á grundvelli aldurs.
    Nokkrir umsagnaraðilar benda á að í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins felist mismunun á grundvelli aldurs. Telja umsagnaraðilar að í ákvæðinu felist takmörkun á rétti fatlaðs fólks yfir 67 ára aldri til þjónustu en þörf fyrir þjónustu megi ekki verða á grundvelli aldurstengdra ástæðna. Talsverð umræða fór fram um þetta álitaefni við vinnslu málsins í nefndinni og töldu nefndarmenn ákvæðið stangast á við 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að þjónusta skuli miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð o.fl. Þá benda nefndarmenn á að engin aldurstakmörk eru til staðar í núgildandi lögum. Voru nefndarmenn sammála ábendingum umsagnaraðila og telja ótækt að gera greinarmun á einstaklingi sem slasast eða veikist og uppfyllir þá skilyrði frumvarpsins þegar hann er 65 ára en ekki þegar hann er 68 ára. Nefndin leggur því til að aldurstakmark 3. gr. verði fellt brott úr frumvarpinu. Engu síður beinir nefndin því til velferðarráðuneytisins að nauðsynlegt er að endurskoða lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, til að skerpa á verkaskiptingu milli málaflokka.
    Nokkrir umsagnaraðilar lýsa yfir áhyggjum af því að ekki sé kveðið skýrt á um það í frumvarpinu hvort börn yngri en 18 ára geti fengið NPA-samninga eða ekki. Nefndin áréttar að ákvæði frumvarpsins varðandi NPA-samninga og rétt til þeirra nái til barna undir 18 ára aldri, til jafns við aðra.

Þjónustuþörf.
    Í nefndinni skapaðist umræða um nauðsyn þess að afmarka réttinn til NPA-þjónustu enn frekar en gert er í 3. gr. frumvarpsins og var sérstaklega rætt um að takmarka hann við lágmarksþjónustuþörf. Í 3. kafla greinargerðar með frumvarpinu er rakið að um almenna þjónustu við fatlað fólk gildi ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en sé þjónustuþörf einstaklings meiri taki við ákvæði frumvarps þessa. Vísað er til þess að einstaklingur skuli eiga rétt á þjónustu samkvæmt frumvarpi þessu hafi hann þörf á 10–15 klst. þjónustu á viku. Ekki er tekin afstaða til þessa í lagatextanum og er það mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að afmarka þessa lágmarksþörf betur. Leggur nefndin til að miðað verði við 15 klst. þjónustuþörf á viku en ítrekar þó mikilvægi þess að þeir sem ekki uppfylla þessa lágmarksþjónustuþörf fái þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 3. kafla um skyldur sveitarfélaga.

Yfirstjórn og eftirlit ráðherra.
    Nefndinni bárust þónokkrar athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins um yfirstjórn og eftirlit ráðherra. Í fyrsta lagi var gerð athugasemd við orðalag 3. málsl. 1. mgr. ákvæðisins um að fatlað fólk skuli „eiga möguleika á virkri þátttöku í stefnumótun í málefnum sem varðar það“. Bent hefur verið á að samkvæmt SRFF er skýrt kveðið á um mikilvægi þess að hafa náið samráð við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess. Umsagnaraðilar telja þetta orðalag ekki ná því markmiði að fatlað fólk hafi aðkomu að stefnumótun í málefnum sem varðar það. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytt orðalag til samræmis við framangreindar athugasemdir.
    Í öðru lagi benda umsagnaraðilar á að ákvæðið gangi gegn reglum stjórnsýsluréttar og einkamálaréttarfars og sé því ekki framkvæmanlegt. Gert sé ráð fyrir að eftirlit með úrræðum sé hjá ráðherra sem veiti leyfi og því ekki gert ráð fyrir neinu ytra eftirliti. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytt orðalag ákvæðisins. Það liggur í hlutarins eðli að leiðbeiningar (skv. 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. í 3. tölul. breytingartillögu nefndarinnar) og álit (samkvæmt sömu tillögu nefndarinnar) hafa ekki bindandi réttaráhrif um úrlausn tiltekins máls í skilningi stjórnsýsluréttar. Sá vafi getur komið upp að 3. tölul. fyrrnefndrar breytingartillögu nefndarinnar sé í svo nánum tengslum við úrlausn tiltekins máls að túlka megi niðurstöðu ráðherra þannig að hún hafi bindandi réttaráhrif í skilningi stjórnsýsluréttar. Nefndin áréttar að svo er ekki.

Þjónustusvæði.
    Í 5. gr. frumvarpsins er m.a. fjallað um samvinnu sveitarfélaga og vísað til sveitarstjórnarlaga og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Nefndin fékk ábendingar um að ekki væri gert ráð fyrir áskilnaði um stærð þjónustusvæða líkt og er í núverandi lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Nefndin telur ekki ástæða til að breyta greininni en mælir með að samvinna sveitarfélaga og stærð þjónustusvæða verði eitt af því sem verði metið við endurskoðun laganna, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.

Starfsemi einkaaðila.
    Í nefndinni skapaðist umræða um starfsemi einkaaðila sem taka að sér umsýslu NPA-samninga og mikilvægi þess að girt verði fyrir það í frumvarpinu að einkaaðilar geti hagnast á slíkri starfsemi. Gert er ráð fyrir því að umsýsluaðilar sem hafa starfsleyfi geri samninga við sveitarfélög um hvaða taxtar skuli gilda um tímakaup og gefin verði út föst viðmiðunartala og greitt í samræmi við það. Hluti af þeim kostnaði sem þeir fá greiddan er ætlaður í umsýslukostnað (10% af heildarkostnaði við samning) og er í raun „hlutur“ umsýsluaðila í samningnum. Annað á að fara í launagreiðslur (85% af heildarkostnaði) og starfsmannakostnað (5% af heildarkostnaði). Ef umsýsluaðili tekur sér meira en þá fjárhæð sem telst vera umsýslukostnaður er um brot á samningi að ræða. Það er ekki heimild til handa umsýsluaðilum samkvæmt lögum að krefjast greiðslna af notandanum þannig að ljóst er að tekjuöflunarleiðir umsýsluaðila, umfram þann umsýslukostnað sem samið er um, eru ekki miklar. Starfsemin ætti þannig aðeins að geta staðið undir sér. Þrátt fyrir þetta leggur nefndin til að skerpt verði á orðalagi 6. gr. frumvarpsins til að taka af allan vafa um að einkaaðilar geti ekki hagnast á slíkri starfsemi.

Notendasamningar.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að notendasamningar þeir sem kveðið er á um í 10. gr. frumvarpsins nýtist fötluðum einstaklingum ekki sem skyldi og að jafnvel ætti að fella brott úr lögunum heimild til gerðar slíkra samninga. Nefndin tekur ekki undir þau sjónarmið og telur slíka notendasamninga jafnvel nýtast sumu fötluðu fólki betur en NPA-samningar. Leggur hún því áherslu á að halda ákvæðinu inni og þar með heimildinni til að gera slíka samninga. Engu síður telur nefndin, eftir ábendingar frá hagsmunaaðilum, fara betur á því að orða 1. mgr. 10. gr. á þann veg að heimildin sé notandans megin, þ.e. að hann hafi heimild til að sækja um slíka samninga en að sveitarfélögin geti ekki boðið slíka samninga umfram NPA-samninga. Leggur nefndin til orðalagsbreytingu þar að lútandi.

Umsýsla og réttindi starfsmanna.
    Nokkrir umsagnaraðilar lýstu áhyggjum af hagsmunum starfsmanna, réttindum þeirra og skyldum, hvort heldur hvað varðar notendasamninga skv. 10. gr. frumvarpsins eða NPA-samninga skv. 11. gr. frumvarpsins. Umsagnaraðilar benda á mikilvægi þess að ráðning starfsmanns byggist á viðurkenndum kjarasamningi og að starfsmanninum sé greitt í samræmi við viðurkenndan kjarasamning. Þá benda umsagnaraðilar á vinnuverndar- og aðbúnaðarmál, sérstaklega hvað varðar vinnutíma, hvíldartíma, vinnuaðstæður og aðbúnað almennt. Mikil umræða skapaðist um þennan þátt innan nefndarinnar, m.a. um hver bæri ábyrgð á að gætt væri fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta þeirra starfsmanna sem mundu veita notandanum þjónustu og aðstoð á grundvelli 10. og 11. gr. frumvarpsins. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að réttindi og skyldur starfsmanna væru virt. Bent var á þá staðreynd að tilraunaverkefnið, sem frumvarp þetta byggist á, hefur verið við lýði í nokkur ár og að réttindi og skyldur starfsmanna væru tryggð í gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum ásamt því að vera í flestum reglum sveitarfélaga um NPA og í NPA-samningunum sjálfum. Þrátt fyrir þá ábendingu tekur nefndin undir áhyggjur umsagnaraðila hvað varðar starfsmannahald og bendir á þann grundvallarmun sem er á tilraunaverkefni um ákveðna starfsemi og heilum lagaramma utan um þá starfsemi. Mikilvægt er að lögin séu skýr til að taka af allan vafa um hvað felist í starfseminni. Nefndin telur því mikilvægt að skerpa á skyldum umsýsluaðila. Umsýsluaðili er vinnuveitandi í ráðningarsambandi sem þessu, hvort heldur það er utanaðkomandi aðili eða notandi þjónustunnar sjálfur. Ábyrgð umsýsluaðila er sú sama og í annarri opinberri þjónustu og ber hann ábyrgð á því við alla framkvæmd aðstoðarinnar að farið sé að ákvæðum laga, reglugerða og þeirra samninga sem gerðir eru. Umsýsluaðilinn ber auk þess vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki, þ.m.t. ábyrgð á að gerður sé ráðningarsamningur og farið sé að gildandi kjarasamningum við viðkomandi stéttarfélag er varðar launa-, lífeyris- og orlofsgreiðslur. Þá ber honum að tryggja gott vinnuumhverfi og aðbúnað starfsfólks í samræmi við lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og viðeigandi reglugerðir. Umsýsluaðila ber þannig lögum samkvæmt að tryggja starfsmönnum heilsusamlegt og öruggt vinnuumhverfi þannig að þeir hljóti ekki heilsutjón af völdum vinnunnar. Gott vinnuumhverfi og vinnuskipulag eykur líkur á því að hæft aðstoðarfólk fáist til starfa og stuðlar að stöðugleika í starfsmannahaldi. Af eðlilegum ástæðum getur vinnustaður og vinnuumhverfi þeirra sem sinna þjónustu við notendur NPA-samninga og notendasamninga verið víðar en aðeins á heimili viðkomandi notanda. Nefndin bendir hins vegar á að þannig er ástatt um allmargar starfsstéttir sem eru í ráðningarsambandi við vinnuveitanda, svo sem bílstjóra, bréfbera, farandsölufólk og fleiri. Engu síður er ábyrgð vinnuveitanda á velferð starfsmannsins og þeim aðstæðum sem hann kann að þurfa að takast á við í starfi sínu skýr. Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin því til að ákvæðum verði bætt við 10. og 11. gr. um að við gerð notendasamninga, sbr. 10. gr., og NPA-samninga, sbr. 11. gr., skuli ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna vera uppfyllt og að umsýsluaðili beri vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum.
    Fyrir nefndinni komu auk þess fram sjónarmið um mikilvægi þess að þjónustuþörf væri rétt metin. Þetta er einkum mikilvægt með tilliti til þess að hluti framlags er skilgreindur sem umsýslukostnaður og hætt við að sé þörf vanmetin freistist notendur til að nota hluta þess framlags til þjónustukaupa. Auk þess bentu hagsmunasamtök vinnumarkaðarins á þá hættu sem kann að skapast á svokallaðri gerviverktöku, einkum þegar þjónustuþörf er knappt metin. Nefndin beinir því til sveitarfélaga að sjá til þess að vinna við mat á þjónustuþörf sé vönduð til að minnka hættuna á framangreindum tilvikum.
    Þá barst nefndinni athugasemd um langar vinnulotur starfsmanna sem vinna á grundvelli NPA-samninga, m.a. svokallaðar „sofandi vaktir“. Nefndin telur mikilvægt að ráðuneytið, aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin rýni þau lög sem snúa að vinnutíma með tilliti til NPA-samninga til að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi.

Vinnsla persónuupplýsinga.
    Nefndinni barst umsögn frá Persónuvernd þar sem 20. gr. frumvarpsins var sérstaklega gagnrýnd. Í ákvæðinu er kveðið á um að skipa skuli sérfræðingateymi sem m.a. skuli vera sveitarfélögum til ráðgjafar vegna þjónustu og úrræða vegna barna með fjölþættan vanda eða barna sem, vegna fötlunar sinnar, þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili fjölskyldna þeirra. Í umsögn sinni bendir Persónuvernd á að upplýsingar um heilsuhagi séu viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, og að vinnsla slíkra persónuupplýsinga verði að eiga sér stoð bæði í 8. og 9. gr. sömu laga. Persónuvernd bendir á að í ákvæðinu sé hvergi mælt fyrir um heimild teymisins til öflunar og úrvinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga um börn með þroska- og geðraskanir og telur þar af leiðandi ekki fullnægjandi heimild fyrir öflun og úrvinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga hjá teyminu. Niðurstaða Persónuverndar er því sú að 20. gr. frumvarpsins sé ekki fullnægjandi heimild fyrir öflun og úrvinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga hjá fyrrnefndu sérfræðingateymi og að lögfesta verði sérstaka heimild þar að lútandi. Sú heimild verði að vera afmörkuð til að vinnsla persónuupplýsinga fullnægi kröfum fyrrnefndra laga nr. 77/2000. Nefndin tekur undir þessar ábendingar Persónuverndar og leggur til að við 20. gr. verði bætt málsgrein þar sem skilgreint verður á skýrari máta hverjar heimildir sérfræðingateymisins verða til öflunar og úrvinnslu persónuupplýsinga og hver tilgangur þeirrar öflunar er.

Börn með miklar þroska- og geðraskanir.
    Þá barst nefndinni tillaga um að breyta fyrirsögn 20. gr. frumvarpsins á þann veg að vísa frekar til barna „með fjölþættar skerðingar“ en barna „með miklar þroska- og geðraskanir“ með þeim rökstuðningi að heitið samræmist þannig betur efnisatriðum greinarinnar. Nefndin bendir á að um tvo hópa sé að ræða, annars vegar börn með fjölþættan vanda og hins vegar börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Síðari hópurinn er fámennur hópur barna sem þarf mikla og langvarandi þjónustu vegna alvarlegra geð- og þroskaraskana og afar mikilvægt er að þessi hópur sé ekki víkkaður út þannig að enn fleiri börn falli undir skilgreininguna. Hugtakið „fjölþættur vandi“ nær m.a. til barna sem eiga við vímuefnavanda að stríða ásamt t.d. námserfiðleikum. Barnaverndin veitir börnum með fjölþættan vanda aðstoð og úrræði samkvæmt barnaverndarlögum. Þetta úrræði er einungis ætlað þessum tiltekna hópi barna sem eru með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Börn með fjölþættar skerðingar eða börn með fjölþættan vanda er mun stærri hópur og það er ekki markmið ákvæðisins að ná til svo stórs hóps.
    Engu síður tekur nefndin undir þau sjónarmið að fyrirsögn ákvæðisins endurspegli ekki að fullu innihald þess. Leggur hún því til að fyrirsögnin verði „Ráðgjöf vegna barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir“. Þannig ætti ráðgjöf sérfræðingateymisins að ná til beggja hópa.

Búseta barna utan heimilis.
    Nefndinni bárust þónokkrar umsagnir um 21. gr. frumvarpsins um búsetu barna utan heimilis. Sama athugasemd um að vísa frekar til barna „með fjölþættar skerðingar“ en „með miklar þroska- og geðraskanir“ barst nefndinni. Með sömu rökum og rakin eru að framan tekur nefndin ekki undir þær athugasemdir enda er ekki ætlunin að þjónusta börn með fjölþættan vanda í slíkum búsetuúrræðum. Sá hópur er mun stærri en sá afmarkaði hópur sem ákvæðinu er ætlað að ná til samkvæmt núverandi orðalagi. Nefndin telur að með því að víkka út skilgreininguna á þessum hópi barna yrði opnað á þann möguleika að komið yrði á fót stofnunum þar sem hópar barna með fjölþættar skerðingar yrðu vistaðir. Þvert á móti er ákvæðinu ætlað að ná til einstakra barna þar sem þarfir hvers og eins eru ólíkar og hvert og eitt þarf sitt eigið sérsniðna búsetuúrræði. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er um að ræða u.þ.b. 10 til 15 börn á hverjum tíma og hvert og eitt barn þarf sitt eigið úrræði. Nefndin hefur ákveðið að breyta heiti 20. gr. til samræmis við efni hennar en ítrekar að öðru leyti að úrræði skv. 21. gr. frumvarpsins verður ekki beitt fyrr en öll önnur úrræði hafa verið reynd. Nefndin telur hlutverk sérfræðingateymisins í því tilliti að koma í veg fyrir að börn verði vistuð fjarri heimilum án ítarlegrar skoðunar á þörfum þeirra og fjölskyldna þeirra afar mikilvægt.
    Þá barst nefndinni athugasemd um að bæta þyrfti við 2. mgr. 21. gr. ákvæði um að barn yrði ekki vistað utan heimilis nema öll önnur tiltæk úrræði hefðu verið fullreynd að mati sérfræðingateymisins sem kveðið er á um í 20. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir þessa athugasemd og leggur til 2. mgr. 21. gr. verði umorðuð samkvæmt þessu.
    Jafnframt leggur nefndin áherslu á þá skyldu ráðuneytisins að við reglugerðarsetningu skv. 3. mgr. 21. gr. verði tryggð aðkoma sérfræðinga í málefnum þeirra barna sem ákvæðið fjallar um.

Samráð.
    Í nefndinni skapaðist mikil umræða um mikilvægi samráðs við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess í tengslum við alla stefnumótun og lagasetningu í málefnum fatlaðs fólks. Umsagnaraðilar kalla eftir víðtækara samráði við fatlað fólk og benda á mikilvægi þess að í öllum samráðsnefndum um málefni fatlaðs fólks sé fleira fatlað fólk kallað að borðinu en verið hefur hingað til. Umsagnaraðilar benda á að stórir hópar fatlaðs fólks hafi verið sniðgengnir í nefndum og ráðum. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og leggur áherslu á mikilvægi þess að fatlað fólk sé alltaf haft með í ráðum í tengslum við ákvarðanatöku sem varðar það. Leggur nefndin sérstaklega til breytingu á 36. gr. frumvarpsins um samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks sem tryggir að hlutfall fatlaðs fólks í samráðsnefndinni verði alltaf að lágmarki 50%. Nefndin telur einnig eðlilegt að það sé skylda ráðuneytisins að tryggja að fatlað fólk sé í meiri hluta í nefndinni og leggur til að slíku ákvæði verði bætt við 36. gr.
    Í tengslum við vísanir í frumvarpinu til hagsmunasamtaka fatlaðs fólks komu fram sjónarmið um að samráðið skyldi haft beint við fatlað fólk, þ.e. lagt var til að vísanir til hagsmunasamtaka yrðu teknar út. Nefndin telur þvert á móti mikilvægt að tiltekinn sé sá viðmælandi sem ætlunin er að kalla að borðinu. Með sömu rökum eru verkalýðsfélög kölluð til samráðs við stjórnvöld í málum sem varða vinnumarkaðinn en ekki verkamenn sem einstaklingar. Sama á við um fatlað fólk. Stjórnvöld eiga ekki að geta kallað til tiltekinn fatlaðan einstakling til samráðs við sig sem þannig verður talsmaður alls fatlaðs fólks. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks halda aðalfundi og kjósa sér talsmenn sem stjórnvöld hafa síðan samráð við. Með þeim rökum telur nefndin mikilvægt að halda inni vísunum til hagsmunasamtaka fatlaðs fólks.

SIS-mat.
    Í umræðu nefndarinnar um þjónustu við fatlað fólk bar nokkuð á góma hvaða matstæki væru notuð til að meta þjónustuþörf og hvernig þau mælitæki væru notuð af veitendum þjónustunnar. Nefndin heyrði sjónarmið bæði frá notendum og talsmönnum samtaka fatlaðs fólks og einnig frá þeim sem nota mælitækin við mat á þjónustuþörf. Þá komu einnig fram sjónarmið ráðuneytisins og sveitarfélaga í þessu efni.
    Sú gagnrýni sem var hvað mest áberandi snýr að því hvernig tækjum er beitt, hvernig niðurstöður eru notaðar og hvernig notendur eru upplýstir um niðurstöður og jafnvel um aðgang þeirra að þeim. Nefndin telur ekki ástæðu til að ætla annað en að það fagfólk sem kemur að mati á þjónustuþörf vinni það starf af virðingu við notendur og beiti þeim matstækjum sem helst eru til þess fallin að meta þörfina rétt.
    Að mati nefndarinnar er engu síður ástæða til að þau matskerfi sem í notkun eru séu í sífelldri endurskoðun og mikilvægt að metið sé hvort framþróun í greininni kalli á notkun annarra aðferða, til að mynda þar sem einstaklingsbundnari nálgun er skoðuð. Þá telur nefndin mikilvægt að beina því til sveitarfélaganna að upplýsingar um það þjónustumat sem liggur fyrir um þarfir einstaklings sé viðkomandi aðgengilegt. Nefndin leggur til að einn af þeim þáttum sem skoðaður verði sérstaklega við endurskoðun á lögunum (sem getið er um í ákvæði til bráðabirgða) verði notkun matstækja og áhrif þeirra á notendur og að samráð verði haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar um.

Kostnaðarhlutdeild.
    Nokkrir umsagnaraðilar lögðu til að kostnaðarhlutdeild ríkisins í gerðum samningum hækki úr 25% í 30%. Nefndin telur ekki rétt að við núverandi aðstæður verði þessu viðmiði breytt því að allir útreikningar er varða kostnaðaraðkomu ríkisins miðast við þessa kostnaðarskiptingu. Ráðuneytið telur einnig rétt að við samþykkt frumvarpsins verði látið reyna á núverandi skiptingu í tvö ár og að þeim liðnum verði farið yfir gildandi samninga og þeir metnir með tilliti til þess hvort rétt sé að endurskoða kostnaðarskiptinguna. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á það að við ákvörðun á framlagi ríkisins í upphafi samstarfsverkefnisins um NPA-samninga var horft til þess að það yrði tímabundið og þá sem hvatning fyrir sveitarfélögin til að taka þátt í verkefninu. Því verður að hugsa það til framtíðar hvað eigi að gera með fjármögnun þeirra NPA-samninga sem þá kunna að bætast við. Ríkið greiðir nú 25% af heildarkostnaði við hvern NPA-samning en tekur ekki þátt í kostnaði við þjónustu við þá sem hafa svipaðar stuðningsþarfir en hafa ekki NPA-samning. Þá hefur ríkið einnig lagt til viðbótarfjárveitingu til einstakra hópa, svo sem fólks í öndunarvélum.
    Að framansögðu virtu telur nefndin ekki tímabært að kostnaðarhlutdeild ríkisins verði hækkuð í 30% en leggur áherslu á að sú kostnaðarhlutdeild verði endurskoðuð á endurskoðunartímabilinu sem kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða I.

Aðstandendur sem umönnunaraðilar.
    Nokkrir umsagnaraðilar lýsa yfir áhyggjum af því að í frumvarpinu er enginn fyrirvari gerður um það að aðstandendur hins fatlaða einstaklings geti verið aðstoðarfólk samkvæmt NPA-samningi. Umsagnaraðilar benda sérstaklega á neikvæða reynslu annarra norrænna ríkja, sérstaklega Svía, af því að hafa fyrirkomulagið opið að þessu leyti. Þar hafi reynslan sýnt fram á að slíkt fyrirkomulag geti verið óheppilegt þar sem hagsmunir hins fatlaða einstaklings og hagsmunir aðstandenda hans fari ekki alltaf saman, t.d. hvað varðar hvata til hæfingar og eflingar hins fatlaða sem geti falið í sér hagsmunaárekstra við aðstandendur sem starfa sem aðstoðarfólk. Nefndin tekur undir áhyggjur umsagnaraðila og leggur áherslu á að sveitarfélög setji sér reglur um hvort og þá að hvaða marki ráða megi aðstandendur fatlaðs einstaklings sem aðstoðarmenn hans, sbr. 4. mgr. 11. gr. frumvarpsins um að sveitarfélög skuli setja nánari reglur um framkvæmd NPA.

Reglur um hámarksbiðtíma fatlaðs fólks eftir þjónustu.
    Nefndinni var bent á að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá því í ágúst 2010 um þjónustu við fatlaða er skýrt tekið fram að ráðuneytið verði að móta reglur um hámarksbiðtíma eftir þjónustu og sjá til þess að fyrir liggi upplýsingar um lengd biðtíma hjá öllum þjónustuaðilum. Slíkar reglur hafi ekki enn verið mótaðar. Þrátt fyrir að hin almenna regla stjórnsýsluréttarins um málshraða, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gildi í þessum málum hafi reyndin verið sú að biðtími hafi í mörgum tilvikum verið gríðarlega langur. Í fyrirliggjandi frumvarpi er að einhverju leyti tekið á þessu í 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 34. gr. þar sem kveðið er á um að ráðherra setji reglugerð um þau atriði sem fjallað er um í ákvæðunum. Umsagnaraðilar benda þó á mikilvægi þess að í þessum reglugerðum verði kveðið á um hámarksbiðtíma. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og leggur áherslu á að hvorki sé forsvaranlegt að biðtími sé eins langur og raun ber vitni né að hann lengist um óskilgreindan tíma vegna tafa innan kerfisins eða biðar eftir úrskurðum. Telur nefndin mikilvægt að kveðið verði skýrt og afdráttarlaust á um hámarksbiðtíma í reglugerðum og beinir því til ráðuneytisins að tryggja að svo verði gert.

Gildistaka.
    Í ljósi umfangs málsins, mikilvægis þess að nefndin vandi vel til verka og allra þeirra hagsmunaaðila sem nefndin hefur leitað til og átt í samskiptum við hefur vinnsla málsins innan nefndarinnar dregist umfram það sem lagt var upp með. Til að þeir aðilar sem frumvarpið snertir hafi nægan tíma til að innleiða alla þætti þess leggur nefndin til að gildistöku þess verði frestað til 1. október 2018.

Ákvæði til bráðabirgða I.
    Í ákvæði til bráðabirgða I í frumvarpinu er kveðið á um að fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar skuli endurskoða innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Nefndin leggur áherslu á að fleiri þættir en einungis fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar verði endurskoðaðir. M.a. þarf að meta gaumgæfilega afleiðingar, ef einhverjar verða, af þeirri tillögu nefndarinnar að taka út aldurstakmark 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að velferðarráðuneytið endurskoði lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, líkt og fram kemur í kaflanum um mismunun á grundvelli aldurs. Enn fremur er þörf á að endurskoða fyrirkomulag notendasamninga og það hvort hagur einstaklinga sem hafa gert slíka samninga sé betri af því að nýta frekar heimildir til þess að gera NPA-samninga. Þá þarf að skoða hvernig standa skuli að þjónustu við einstaklinga sem þurfa sólarhringsmeðferð í öndunarvél. Endurskoða þarf fyrirkomulag samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks, sbr. 36. gr., og þá sérstaklega hvort sá fjöldi sem lagt er upp með í ákvæðinu sé hæfilegur og hvort endurskoða þurfi hlutverk samráðsnefndarinnar. Þá leggur nefndin áherslu á aðra þætti sem þarf að endurskoða á þessum tíma, svo sem SIS-matið og framkvæmd þess, kostnaðarhlutdeild ríkisins í NPA-samningum, sbr. umræðu að framan, og fleira sem kemur í ljós á næstu árum að þarfnast endurskoðunar.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin því til að orðalag ákvæðis til bráðabirgða I verði útvíkkað þannig að það nái til þeirra atriða sem að framan greinir, auk annarra sem upp kunna að koma á endurskoðunartímanum.
    Nefndin telur jafnframt nauðsynlegt að lengja þetta endurskoðunartímabil og leggur til að það verði þrjú ár í stað tveggja.
    Varðandi ákvæði til bráðabirgða I leggur nefndin að lokum mikla áherslu á að þeir samningar sem þegar hafa verið gerðir við gildistöku laga þessara haldi gildi sínu. Leggur hún því til að við ákvæðið bætist ein málsgrein þar að lútandi.

Aðrar breytingar.
    Til viðbótar við breytingartillögur þær sem gerð er grein fyrir hér að framan gerir nefndin nokkrar orðalagsbreytingar sem þarfnast ekki skýringa.

3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).
Helstu athugasemdir, sjónarmið nefndarinnar og tillögur að breytingum.
Vísun í alþjóðlegar skuldbindingar.
    Fyrir nefndinni voru viðraðar þær áhyggjur að ekki er vísað til alþjóðlegra skuldbindinga, og þá sérstaklega SRFF, í 1. gr. frumvarps þessa líkt og gert er í 1. gr. frumvarps til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Leggja aðilar mikla áherslu á að svo verði gert, svo að ljóst sé að stjórnvöldum beri að líta til samningsins og annarra alþjóðlegra skuldbindinga við framkvæmd laganna. Þá telja aðilar mikilvægt að vísað sé til samningsins til að skerpa á því að um mannréttindi sé að ræða. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og leggur til að við 1. gr. bætist ný málsgrein samhljóða 3. mgr. 1. gr. frumvarps til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

Stjórnskipulag.

    Í samræmi við umræðu í kaflanum Yfirstjórn og eftirlit ráðherra í 2. kafla hér að framan leggur nefndin til breytingar á a-lið 3. gr. frumvarpsins um yfirstjórn, sem og d-lið sama ákvæðis um kærur og málskot.
    Þá var nefndinni bent á samspil ákvæðisins og 109. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem kveður á um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga sem er stjórnarskrárvarinn skv. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Nefndin telur 109. gr. ótvíræða og að hún haldi ávallt gildi sínu þrátt fyrir efni ákvæðisins. Eftir sem áður er eftirlitshlutverk ráðuneytisins mikilvægt til að tryggja að sveitarfélög ræki þjónustuhlutverk sitt en boðvald um tiltekna þjónustuþætti kemur ekki til nema sveitarfélag verði bert að því að vanrækja lögbundinn þjónustuþátt. Nefndin telur ákvæði 109. gr. sveitarstjórnarlaga ekki á skjön við þessi ákvæði frumvarpsins.
    Í tengslum við fyrrnefndan d-lið ákvæðisins um kærur og málskot komu fram athugasemdir við vinnu nefndarinnar um að ákvæði 1.–3. mgr. um málskotsheimild sveitarfélaga kynnu að verða marklítil vegna aðildarskorts. Nefndin telur svo ekki vera þó að ólíklegt sé að málskot af hálfu sveitarfélaga komi til vegna eigin reglna.
    Þá vill nefndin ítreka að þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. gr. rýrist ekki réttur einstaklinga til málskots til æðra stjórnvalds en að ekki sé óeðlilegt að reynt sé að leysa mál í fyrstu í héraði.

Skyldur sveitarfélaga.

    Líkt og rakið var í kaflanum um þjónustuþörf í 2. kafla skapaðist þónokkur umræða í nefndinni um að takmarka rétt til NPA-þjónustu við lágmarksþjónustuþörf. Leggur nefndin til að miðað verði við 15 klst. þjónustuþörf á viku til að einstaklingur eigi rétt á NPA-samningi. Mikilvægt er að í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sé skýrt kveðið á um að þeir sem ekki uppfylla þessa lágmarksþjónustuþörf fái þjónustu á grundvelli laganna. Leggur nefndin því til að við b-lið 5. gr. bætist ein málsgrein um að hverjum einstaklingi skuli gefast kostur á að lágmarki 15 klst. þjónustu á viku til að taka af vafa um það.

Akstursþjónusta.
    Í e-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til nýtt ákvæði um akstursþjónustu sem er að stofni til sama efni og ákvæði það sem verið hefur í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Við endurskoðun laganna þótti fara betur á því að ákvæði um akstursþjónustu, sem er almenn þjónusta, væri í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Nefndinni bárust þónokkrar umsagnir um þetta ákvæði og sérstaklega frá sveitarfélögum sem lýsa yfir áhyggjum vegna þess hversu opið ákvæðið er. Erfitt geti verið að veita akstursþjónustu með þeim hætti sem lýst er í ákvæðinu og að það feli í sér verulegan kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin án þess að fjármagn fylgi. Nefndin tekur undir þessar athugasemdir og telur mikilvægt að skýrari rammi þurfi að vera utan um þessa þjónustu. Án skilgreinds ramma geti kostnaðurinn orðið verulegur fyrir sveitarfélögin og telur nefndin það ekki markmið ákvæðisins. Sveitarfélögin bera ábyrgð á skipulagi aksturs fyrir fatlað fólk og standa straum af kostnaðinum. Skipulag akstursþjónustu skal miða að því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Nefndin leggur til að í stað þess að kveðið sé á um að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur akstursþjónustu verði ráðherra skylt að gefa út reglur eða leiðbeiningar um tilhögun akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Sveitarfélögum er síðan heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja.

    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvörpin verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 20. apríl 2018.

Halldóra Mogensen,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Ásmundur Friðriksson. Guðjón S. Brjánsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.