Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 818  —  27. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).

Frá velferðarnefnd.


     1.      Við 1. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      Í stað 1. og 2. mgr. a-liðar (3. gr.) komi ein ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til. Ráðherra getur ákveðið að eigin frumkvæði að taka til umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags samkvæmt lögum þessum. Réttur aðila máls til að kæra ákvörðun hefur ekki áhrif á þessa heimild. Telji ráðuneytið rétt að gera athugasemd getur það:
                      1.      gefið út leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
                      2.      gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins eða annars er eftirlit beinist að,
                      3.      gert sveitarfélagi að koma með tillögur til úrbóta og/eða gert tillögur til sveitarfélags um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðlað að samræmingu hennar.
                  b.      2. mgr. d-liðar (6. gr.) falli brott.
     3.      Við 5. gr.
                  a.      Við b-lið (26. gr.) bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvörðun um stuðningsþjónustu skv. 1. mgr. felur í sér að aðstoð sé að jafnaði veitt í tiltekinn fjölda klukkustunda í viku hverri á grundvelli mats á stuðningsþörfum, sbr. 27. gr., og þess almenna viðmiðs að aðstoð geti numið allt að 15 stundum á viku. Um aukna þjónustuþörf fer samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
                  b.      1. málsl. 3. mgr. e-liðar (29. gr.) orðist svo: Ráðherra setur nánari leiðbeiningar um akstursþjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem m.a. skal kveðið á um tilhögun á akstri utan sveitarfélags og kostnaðarskiptingu vegna akstursþjónustu í dreifbýli.
     4.      Við 19. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995: Á eftir orðinu „skólaaksturs“ í b-lið 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: og akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.