Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 821  —  429. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Axel Helgason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Þorstein Hilmarsson frá Fiskistofu, Jón Kristin Sverrisson, Kristján Þórarinsson og Benedikt Sigurðsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Axel Helgason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Björn Ævar Steinarsson frá Hafrannsóknastofnun, Aron Baldursson, Eyjólf Guðlaugsson og Ragnar Kristjánsson frá Reiknistofu fiskmarkaða, Arnar Atlason frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Einar Helgason frá Strandveiðifélaginu Króki, Vigfús Ásbjörnsson frá Smábátafélaginu Hrollaugi, Má Ólafsson og Harald Ingólfsson frá Smábátafélagi Stranda og Ólaf Hallgrímsson frá Félagi smábátaeigenda á Austurlandi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Aflamarki ehf., atvinnu- og menningarráði Vesturbyggðar, Elíasi Svavari Kristinssyni, Evu Sigurbjörnsdóttur, Félagi smábátaeigenda á Austurlandi, Fiskistofu, Garðari Eyland, Grýtubakkahreppi, Halldóri Árnasyni, Hólmari H. Unnsteinssyni, Hrollaugi – félagi smábátaeigenda á Hornafirði, Landssambandi smábátaeigenda, Langanesbyggð, Magnúsi Jónssyni, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sigurði Hlöðverssyni, Snæfelli – félagi smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Snæfellsbæ, Strandabyggð, Strandveiðifélaginu Króki – Félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu, Stykkishólmsbæ, Sveitarfélaginu Skagaströnd og Sæljóni – félagi smábátaeigenda á Akranesi.
    Frumvarpið var lagt fram af atvinnuveganefnd og felur í sér nokkrar breytingar á fyrirkomulagi strandveiða skv. 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða. Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða og er þar um tímabundna ráðstöfun að ræða fyrir komandi strandveiðitímabil og gildir ákvæði frumvarpsins til 31. ágúst 2018.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að strandveiðar verði takmarkaðar við 12 daga á mánuði fyrir hvert skip á tímabili strandveiða, maí til ágúst. Einnig er mælt fyrir um að Fiskistofa geti stöðvað strandveiðar ef heildarafli strandveiðibáta fer umfram það magn sem ráðstafað er til veiðanna. Jafnframt er mælt fyrir um heimild til að landa ufsa sem svokölluðum VS-afla.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda til veiða í hverjum mánuði. Með þessu er ætlunin að sníða af þann annmarka sem er á gildandi fyrirkomulagi sem birtist í því að sjómenn keppist um að veiða heimilan afla á sem skemmstum tíma og róa því út í vondum veðrum.
    Fyrir nefndinni var ákvæði um heimild Fiskistofu til að stöðva veiðar andmælt og var lýst áhyggjum af því að aflinn yrði uppurinn áður en tímabilinu lyki og tilraunin yrði marklaus þar sem kapp með tilheyrandi áhættu hæfist samtímis á öllum svæðum til að tryggja róðrardaga áður en veiðar yrðu hugsanlega stöðvaðar. Einnig var vísað til þess fyrir nefndinni að færa mætti rök fyrir því að veiðar á ufsa stæðu ekki undir sér.
    Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum þess að veiðar þurfi að stöðva með því að heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að stunda veiðar í 12 daga alla mánuðina. Þótt takmörkuðu magni sé ráðstafað til strandveiða er mikilvægt að fá reynslu á þetta nýja fyrirkomulag áður en það er fest frekar í sessi.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Er í fyrsta lagi lögð til orðalagsbreyting á 1. málsl. Einnig leggur nefndin til breytingu í þá veru að ráðherra en ekki Fiskistofa geti stöðvað veiðar þegar heildarafli skipa fer umfram magn sem ráðstafað er til strandveiða. Komi til þess að ráðherra þurfi að stöðva veiðar skiptir miklu að nákvæm greining verði gerð á áhrifum þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á sókn og þróun veiðanna yfir árið, einkum á möguleika strandveiða einstakra svæða. Fyrir liggur að í þeirri reglugerð sem ráðherra gefur út í kjölfar þessara laga er ekki eingöngu heimild fyrir ráðherra til að stöðva veiðar heldur einnig heimild fyrir ráðherra til að auka heildarveiði í samræmi við 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða svo að unnt verði að nýta 12 daga til strandveiða í maí, júní, júlí og ágúst á hverju landsvæði. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að landa ufsa án þess að hann teljist til hámarksafla hvers báts eða til heildarafla strandveiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Með þessum breytingum telur nefndin að komið sé til móts við mörg þau sjónarmið sem komið hafa fram í umsögnum um málið eins og áhyggjur um að til stöðvunar komi í ágúst. Jafnræðis verður gætt og tekið tillit til þess að undanfarin ár hafa ufsaheimildir verið ónýttar á milli fiskveiðiára auk þess sem lágt verð hefur fengist fyrir hann. Nefndin telur að ef vel tekst til í sumar muni það leiða til aukins öryggis, jafnræðis og eflingar strandveiðikerfisins í heild með auknum aflaheimildum og sveigjanleika hvað varðar val á veiðidögum með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Þannig verða 1.000 tonn af ónotuðum heimildum til línuívilnunar færðar á strandveiði sumarið 2018 sem einskiptisaðgerð, en að mati sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytis og Landssambands smábátasjómanna ættu þær heimildir sem við bætast að duga til að mæta þessari ráðstöfun í sumar.
    Komið hefur fram í umsögnum um málið til nefndarinnar að val á föstum dögum geti leitt til betra hráefnis sem dreifist til vinnslu jafnar yfir mánuðinn, aukið framboð á fersku hráefni yfir sumarið, styrkt dreifðar byggðir og verið liður í að auka byggðafestu og nýliðun í greininni.
    Afli frá strandveiðum er afar mikilvægur fyrir fiskmarkaði þegar samdráttur er á afla frá annarri útgerð. Aflinn hefur oftar en ekki verið hryggjarstykkið í vinnslu margra fiskvinnslufyrirtækja yfir sumarið og aflinn verið gæðahráefni. Nefndin telur að eftir reynslu þessa sumars verði að skoða hvort tryggja skuli að afla frá strandveiðum skuli ávallt bjóða fyrst innlendum kaupendum og að hráefni verði því ekki flutt óunnið í gámum til erlendra aðila. Það er mikilvægt að þessi tilraun til strandveiða í sumar takist vel og verði marktæk til að vinna með í framtíðarfyrirkomulagi strandveiða og eflingu þeirra. Nefndin leggur til að áhrif þessarar tilraunar í strandveiðum verði metin eftir sumarið og atvinnuvegaráðuneytið, með aðkomu hagsmunaaðila, taki saman skýrslu fyrir 1. desember nk. sem nýtist fyrir framtíðarskipulag strandveiða. Það sem þarf kanna að mati nefndarinnar er m.a. hvaða áhrif það að hafa fasta daga hefur á hvert svæði fyrir sig, útkoma þess að ufsi reiknist ekki til heimilaðs afla í hverri veiðiferð og hvort líta þurfi til mismunandi fiskgengdar eftir landsvæðum hvað varðar byrjun og lok tímabila.
    Samstaða er í nefndinni um að fylgjast vel með hvernig þessi breyting á strandveiðum sumarið 2018 takist með tilliti til aukins öryggis sjómanna. Atvinnuveganefnd mun strax í haust meta hvernig til hefur tekist með þessa mikilvægu tilraun og vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu í samráði við strandveiðimenn á svæðunum fjórum og hagsmunasamtökum þeirra fyrir sumarið 2019.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðanna ,,takmarka strandveiðar við 12 veiðidaga fyrir hvert skip“ í 1. efnismálsl. komi: heimila hverju skipi strandveiðar í 12 veiðidaga.
     b.      2. efnismálsl. orðist svo: Ráðherra getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir árið 2018.
     c.      3. efnismálsl. falli brott.
     d.      Við bætist þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:
                  1.      Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
                  2.      Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 3. mgr.
             Sé heimild skv. 2. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 50% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.
             Ráðherra skal með reglugerð kveða á um skiptingu landsvæða. Eingöngu er heimilt að veita skipi leyfi til strandveiða miðað við það landsvæði þar sem útgerð skips á heimilisfesti.

    Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 23. apríl 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Inga Sæland. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara. Ásmundur Friðriksson. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Njáll Trausti Friðbertsson. Sigurður Páll Jónsson. Smári McCarthy,
með fyrirvara.

Fylgiskjal.


Tafla 1. Áætlaður afli strandveiðibáta miðað við veiðar 48 daga.

Nýting 48 dagar 2017
A: 62% 5.080.522 kg 227 bátar
B: 48% 1.969.639 kg 135 bátar
C: 48% 1.999.667 kg 126 bátar
D: 37% 1.187.783 kg 106 bátar
Samtals 10.237.611 kg 594 bátar

Tafla 2. Strandveiðar 2017.
Landanir og afli óslægt til og með 31.08.2017 Aflaheimild kg Aflaheimild kg Hlutfall maí – ágúst Meðalafli Ónotað af kvóta
    Fjöldi báta
Svæði Fjöldi leyfa með löndun Fjöldi landana Afli samtals Maí Júní Júlí Ágúst Samtals notað pr. róður maí–ágúst
A 228 227 5.531 3.690.947 852.000 1.023.000 1.023.000 762.000 3.660.000 100,80% 667 -30.947
B 136 135 3.854 2.211.746 521.000 626.000 626.000 433.000 2.206.000 100,30% 574 -5.746
C 129 126 3.635 2.363.723 551.000 661.000 661.000 471.000 2.344.000 100,80% 650 -19.723
D 111 106 2.687 1.518.449 600.000 525.000 225.000 200.000 1.550.000 98,00% 565 -31.551
604 594 15.707 9.784.864 2.524.000 2.835.000 2.535.000 1.866.000 9.760.000 100,30% 623 -24.864
Strandveiðar árið 2017 Heimildir pr. bát DAGAR Meðalafli Ef 48 dagar
Svæði Maí – ágúst Veitt Eftirstöðvar Afli pr. bát Fjöldi daga á dag þá:
A 3.660.000 3.690.947 -30.947 16.260 16.053 32 115.342 5.536.421
B 2.206.000 2.211.746 -5.746 16.383 16.221 47 47.058 2.258.804
C 2.344.000 2.363.723 -19.723 18.760 18.171 53 44.599 2.140.730
D 1.550.000 1.518.449 31.551 14.325 13.964 55 27.608 1.325.192
9.760.000 9.784.865 -24.865 187 52.325 11.261.147