Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 843  —  453. mál.
Áheyrnarfulltrúi.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (hálfur lífeyrir).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Harald Steinþórsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nefndinni barst umsögn um málið frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, sem eru nauðsynlegar svo að sjóðfélagar í B-deild sjóðsins geti nýtt sér heimild til töku hálfs lífeyris frá 65 ára aldri, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem innleidd var í lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, með lögum nr. 116/2016, sbr. 4. efnismgr. 2. gr. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru tvenns konar. Annars vegar er lagt til að ný málsgrein bætist við 24. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem kveði á um að sjóðfélagi geti ákveðið að hefja töku hálfs ellilífeyris hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð að því skilyrði uppfylltu að hann sé ekki í meira en hálfu starfi sem veitir aðild að sjóðnum eða hefði veitt rétt til aðildar að sjóðnum fyrir stofnun A-deildar hans. Hins vegar er lögð til sú breyting á 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna að hlutfall viðbótarréttinda við makalífeyri samkvæmt ákvæðinu miði við starfshlutfall sjóðfélaga þegar taka á hálfum ellilífeyri hófst þegar við á en ekki við starfslok.
    Í umsögn LSR um málið kemur fram að lagabreytingin sem frumvarpið kveður á um sé nauðsynleg svo þeir 22.400 einstaklingar sem eigi réttindi í sjóðnum geti nýtt sér rétt til töku hálfs lífeyris frá 65 ára aldri. Sjóðurinn styðji því samþykkt frumvarpsins. Í umfjöllun nefndarinnar var þeirri spurningu velt upp hvort tryggt væri að hálft starfshlutfall á móti töku hálfs lífeyris veitti sjóðfélaga í B-deild LSR áframhaldandi ávinnslu í sjóðnum. Hefur nefndin fengið staðfest að svo sé og að 50% starfshlutfall sjóðfélaga í B-deild veiti 1% ávinnslu á ári en 100% starfshlutfall veitir 2% ávinnslu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. apríl 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson, frsm. Þorsteinn Víglundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson. Hildur Sverrisdóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.