Ferill 316. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 846  —  316. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni um starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra.


     1.      Hvaða starfsmönnum ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra lagði ríkið til bifreið árið 2017? Hvert var heildarverðmæti bifreiðanna?
    Ráðuneytið og fjárlagaliðir þess leggja ekki til bifreiðar fyrir starfsmenn sína.

     2.      Hver voru meðalheildarlaun starfsmanna ráðuneytisins annars vegar og þessara stofnana hins vegar árið 2017? Hver voru hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar árið 2017?
    Meðallaun starfsmanna ráðuneytisins á árinu 2017 voru 10.678.478 kr. Hæstu laun til einstaks starfsmanns voru 20.705.760 kr.
    Laun ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra eru ekki greidd af ráðuneytinu heldur af fjárlagalið ríkisstjórnarinnar.
    Meðalheildarlaun Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins 2017 voru 7.571.431 kr. Hæstu laun einstaks starfsmanns voru kr. 8.976.732.
    Meðalheildarlaun starfsmanna sendiráða Íslands voru 9.279.323 kr. Hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns voru 15.718.227 kr.

     3.      Fengu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra endurgreiddan aksturskostnað árið 2017 og hver var heildaraksturskostnaður ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar?
    Ekki var endurgreiddur aksturskostnaður hjá ráðuneytinu af fjárlagaliðum þess.

     4.      Fengu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins og þessara stofnana endurgreiddan ferðakostnað í formi dagpeninga innan lands eða utan árið 2017 og hver var þá heildarferðakostnaður ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var hæsta greiðsla til einstaks starfsmanns ráðuneytis annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar vegna ferðakostnaðar innan lands annars vegar og erlendis hins vegar?
    Endurgreiddur ferðakostnaður/dagpeningar ráðuneytisins árið 2017 var 97.255.786 kr. Ráðuneytið greiðir ekki dagpeninga innan lands vegna ferða starfsmanna. Hæsta greiðsla dagpeninga til einstaks starfsmanns vegna ferða erlendis samtals fyrir árið 2017 var 2.331.133 kr.
    Heildarkostnaður Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins vegna dagpeninga árið 2017 var 503.100 kr. Ekki voru greiddir dagpeningar vegna ferða innan lands. Hæsta greiðsla dagpeninga erlendis til einstaks starfsmanns samtals fyrir árið 2017 var 247.989 kr.
    Heildarkostnaður sendiráða Íslands vegna dagpeninga árið 2017 var 30.585.122 kr. Hæsta greiðsla vegna dagpeninga innan lands til einstaks starfsmanns árið 2017 var 460.631 kr. Hæsta greiðsla vegna dagpeninga erlendis til einstaks starfsmanns samtals fyrir árið 2017 var 1.836.294 kr.
     5.      Var símakostnaður greiddur fyrir einhverja starfsmenn ráðuneytisins og stofnana á málefnasviði ráðherra árið 2017 og þá fyrir hve marga starfsmenn ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar hins vegar? Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins og hverrar stofnunar vegna símakostnaðar? Hver var hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns ráðuneytisins annars vegar og hverrar stofnunar ráðherra hins vegar?
    Símakostnaður var greiddur fyrir 88 starfsmenn ráðuneytisins árið 2017. Heildarkostnaður vegna þess var 9.608.801 kr. Hæsta greiðsla ráðuneytisins vegna einstaks starfsmanns samtals fyrir árið 2017 var 328.378 kr.
    Símakostnaður var greiddur fyrir þrjá starfsmenn Þýðingarmiðstöðvar árið 2017. Heildarkostnaður vegna þessa var 176.384 kr. Hæsta greiðsla vegna einstaks starfsmanns samtals fyrir árið 2017 var 91.039 kr.
    Ekki er aðgangur að gagnagrunnum erlendis, oft á tíðum er einn reikningur fyrir allan fjarskiptakostnað sendiráða, þ.e. fastlínur, farsíma og net. Mikil vinna er því að sundurgreina kostnað á þann hátt sem beðið er um í fyrirspurninni og ekki hægt að gera það innan tímaramma.

     6.      Fengu starfsmenn ráðuneytisins eða þessara stofnana greidda fatapeninga árið 2017? Hver var þá heildarkostnaður ráðuneytisins og hverrar stofnunar vegna fatapeninga?
    Ráðuneytið greiddi kr. 55.000 í fatapeninga á árinu 2017.