Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 860  —  432. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um ráðgjöf vegna siðareglna.


     1.      Hvert var tilefnið þegar annar ráðherra leitaði til ráðuneytisins vegna siðareglna og fékk það sem í svari ráðherra á þskj. 520 er kallað „önnur ráðgjöf“ og hvaða ákvæði í siðareglum ráðherra var þar um að ræða?
    Tilefni ráðgjafarinnar var að aðstoðarmaður þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra leitaði til forsætisráðuneytisins í október 2014 vegna óskar gullsmiðs um að lána ráðherra skartgripi til að bera opinberlega.

     2.      Hver var texti erindis þess ráðherra sem bað um ráðgjöf og hverjar voru ráðleggingar forsætisráðherra?
    Texti erindis aðstoðarmanns ráðherra:
    „Ég vildi kanna hjá þér hvort það væri nokkuð í andstöðu við siðareglur ráðherra að bera skartgripi sem viðkomandi fær að láni frá gullsmið?
    Það hafði samband við ráðherra gullsmiður og óskaði eftir því að fá að lána henni skartgripi til að bera. Hann er með nokkra þjóðþekkta Íslendinga sem bera vörur hans.
    Ráðherra óskaði eftir því við mig að kanna við þig hvort þetta standist ekki örugglega siðareglur ráðherra. Ekki er um að ræða gjafir heldur gæti orðið um að ræða að ráðherra skipti um gripi með reglubundum hætti og beri skartið tímabundið.“
    Texti svars forsætisráðuneytisins:
    „1. Í c-lið 1. gr. siðareglna ráðherra segir að ráðherra notfæri sér ekki stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig. Í a-lið 4. gr. segir að ráðherra forðist allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni. Þá kemur fram í d-lið 3. gr. að gjafir umfram minniháttar persónulegar gjafir skuli renna til viðkomandi ráðuneytis.
    Vissulega er hér ekki um að ræða gjöf í eiginlegum skilningi. Hins vegar er verið að bjóða ráðherra þjónustu sem að öllum líkindum myndi venjulega kosta talsverða fjármuni, þ.e. að fá skartgripi leigða. Henni yrði sem sagt ekki boðin þessi þjónusta nema vegna þess að hún er ráðherra og þekktur stjórnmálamaður. Skiptir þá ekki öllu máli hvor eigi frumkvæðið að þessu fyrirkomulagi. Vissulega er líklegt að það sem vaki fyrir ráðherranum sé fyrst og fremst að vera opin fyrir því að kynna íslenska hönnun en ekki að njóta sjálf góðs af. En þá vakna almennar spurningar um hvort það sé við hæfi að ráðherra taki þátt í að kynna sérstaklega vörur eins fyrirtækis, enda má búast við að viðkomandi gullsmiður muni auglýsa það að ráðherrann sé meðal viðskiptavina. Ímynda má sér að fleiri fyrirtæki kæmu þá í kjölfarið og vildu fá sambærilegan samning varðandi sínar vörur. Fljótt myndi þá fara af stað umræða um að ráðherrar væru „kostaðir“ af þessum og hinum fyrirtækjum.
    2. Í a-lið 2. gr. kemur fram að ráðherra skuli forðast hagsmunaárekstra og gæta þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Fara þyrfti yfir það hvort ráðherrann kunni að lenda í þeirri stöðu að þurfa að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á viðkomandi fyrirtæki sérstaklega. Fyrirfram verður það þó að teljast ólíklegt og þá væri fyrir hendi sá möguleiki að ráðherrann viki sæti.
    3. Þá kemur fram í c-lið 4. gr. að ráðherra gæti jafnræðis þegar kemur að því að greiða götu einstakra fyrirtækja á erlendum vettvangi. Af þessu ákvæði má draga þá ályktun að ráðherra eigi að fara mjög varlega í að greiða götu fyrirtækja hér innanlands. Jafnframt má af þessu draga þá ályktun að mögulegt væri að ráðherra kynnti íslenska hönnun erlendis, til dæmis með því að bera skartgripi fengna að láni, þegar sóttir eru viðburðir erlendis. En þá yrði að gæta jafnræðis og skuldbinda sig ekki gagnvart einu fyrirtæki.
    Að öllu samanlögðu verður að telja hæpið út frá siðareglum ráðherra að gera samning af þessu tagi við viðkomandi gullsmið.“