Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 866  —  429. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).

Frá atvinnuveganefnd.


    Málið var rætt í nefndinni milli 2. og 3. umræðu. Nefndin leggur til breytingu við frumvarpið í þá veru að andvirði selds ufsa skiptist milli útgerðar og sjóðs skv. 3. mgr. 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla í hlutfallinu 80/20. Einnig leggur nefndin til að veita skuli útgerð leyfi á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips var skráð 23. apríl 2018, en þó geti útgerð valið sér það svæði sem hún hefur stundað veiðar frá í tvö af sl. þremur árum óháð heimilisfesti í dag. Nefndin leggur áherslu á að um tilraun til eins árs sé að ræða sem verður metin með tilliti til grunnmarkmiða strandveiðikerfisins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Við 2. efnismgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Að hámarksaflamagn ufsa strandveiðitímabilið 2018 sé 700 tonn.
     b.      Í stað „50%“ í síðari málslið 3. efnismgr. komi: 80%.
     c.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 6. gr. a skulu eftirfarandi ákvæði gilda um veitingu strandveiðileyfa eftir landsvæðum á árinu 2018. Veita skal útgerð leyfi á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips var skráð 23. apríl 2018, en þó má útgerð velja sér það svæði sem hún hefur stundað veiðar frá í tvö ár af sl. þremur árum óháð heimilisfesti í dag.

    Smári McCarthy skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Sigurður Páll Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins er ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 26. apríl 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Njáll Trausti Friðbertsson. Inga Sæland.
Guðjón S. Brjánsson. Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Sigurður Páll Jónsson.